Maður þorir varla að trúa þessu. Við vorum jú alveg búin að taka eftir því að heyrnin hjá Sindra hafði snarbatnað og vorum þessvegna nokkuð vongóð þrátt fyrir að Sindri hefði lagst í 10 daga flensu og kvef strax eftir aðgerðina. En við reiknuðum samt með að það tæki nokkra mánuði fyrir hljóðhimnuna að gróa alveg, og það var hálfpartinn búið að undirbúa okkur undir að það gæti jafnvel þurft aðra aðgerð seinna til að klára að loka þessu stóra gati.
Þessi aðgerð nefnilega gengur út á að græða einskonar lepp á bak við þessar fáu tætlur sem eftir voru af gömlu hljóðhimnunni, pakka öllu inn í þétt og hagstætt umhverfi og vona svo bara að gamla hljóðhimnan vaxi og skríði saman ofan á þessum lepp. Og það getur tekið langan tíma og það er algengt að hún nái ekki alveg saman í miðjunni og eftir standi svolítið gat, sem hægt er svo að loka í næstu umferð.
En nei nei, ekkert slór, þetta tókst bara fullkomlega í fyrstu tilraun, og einungis mánuði eftir aðgerð er komin þessi fína og flotta og þétta hljóðhimna. Enda var Friðrik læknir kátur og glaður og gaf high-five á línuna. Þegar hann sagði að Sindri mætti núna fara í sund og kafa eins og hann vildi, jafnvel bara strax í dag, þá fyrst áttuðum við okkur á því að hann væri í alvörunni að meina að þetta væri fullkomlega gróið.
... eða ég held ég sé ekki enn búin að átta mig alveg á þessu.