30.5.08

Jarðskjálftar

Eftir jarðskjálftann í gær kveikti ég auðvitað á útvarpinu. Svissaði reglulega milli rása til að missa örugglega ekki af neinu. Datt inn á þátt þar sem fólk hringdi inn og lýsti eignatjóni og skelfingu, en líka heppni og þakklæti yfir því að ekki fór verr.

Glaðhlakkalegur maður hringdi inn, heilsaði útvarpsmönnum kumpánlega og kynnti sig: "Sturla Jónsson hér". "Já, við erum nú aldeilis búnir að hrista upp í þjóðfélaginu " sagði hann ánægður með sig og hló. Nokkuð fát kom á útvarpsmennina, ".. hrista upp... ha? " sögðu útvarpsmennirnir ráðvilltir. "Já" , svaraði sá glaðhlakkalegi og vitnaði í einhverjar mótmælaaðgerðir á austurvelli. Þetta var semsagt talsmaður vörubílstjóra. Hann taldi víst að náttúruöflin hefðu gengið í lið með trukkabílstjórunum og var svona glimrandi ánægður með liðsaukann. Útvarpsmennirnir afgreiddu hann snarlega, "Jájá, Sturla, en núna erum við ekki að tala um mótmælin, og vertu blessaður" sögðu þeir og skelltu á blaðskellandi trukkabílstjórann.

Sturla Jónsson er sami maður og safnaði liði á palla alþingis og gerði hróp að þinginu þegar samþykkt var veita neyðaraðstoð til Kínverja vegna jarðskjálftanna þar. Á meðan fjöldi kínverja lá grafinn lifandi í rústunum mótmæltu Sturla og félagar harðlega og sáu ofsjónum yfir þeim 7,8 milljónum króna sem íslendingar ákváðu verja til neyðaraðstoðar. Hrópuðu til alþingismanna að þeim væri nær að hugsa um hörmungarnar heima fyrir. Olían hefur hækkað í verði og við þurfum að borga meira, það eru sko hörmungar í lagi. Þeim fannst réttara að þessum 7,8 milljónum yrði varið í neyðaraðstoð til trukkabílstjóra.

Fyrir þessum mönnum er suðurlandsskjálfti með tilheyrandi eignatjóni og slösuðu fólki bara gott tækifæri til að vekja athygli á háu olíuverði og þeim "hörmungum" sem trukkabílstjórar þurfa að þola vegna þess.

Eftir á að hyggja, þá þurfa þessir menn líklega einhverskonar neyðaraðstoð.