24.10.07

Smámynt


Um daginn vorum við Sólveig á einhverjum þvælingi og ákváðum að setjast inn í Þórsbakarí og fá okkur smá hressingu. Á móti okkur tók eldri kona, með virðulega upp sett hár og í rósóttum slopp, svona sem er bundinn saman á hliðinni. Hún byrjaði á að bjóða okkur hlýlega góðan daginn, og mér fannst samstundis eins og ég væri komin í heimsókn til gamallar frænku. Ekkert svona "horft-út-í-loftið-mér-er skítsama-g..daginn" heldur virkilega hlýleg kveðja. Góðan daginn.

Við pöntuðum okkur kaffibolla, trópí og kleinu, borguðum og settumst niður. Og fylgdumst með gömlu virðulegu afgreiðslukonunni taka við leiðbeiningum frá unglingsstelpu um hvernig búðarkassinn virkaði. "Já, á ég svo að styðja á þennan hnapp" sagði sú virðulega. "Já, ýttu bara áennan takka" sagði sú unga. Og sú gamla studdi virðulega og yfirvegað á hina og þessa hnappa um leið og hún afgreiddi fólk af rólegri og hlýlegri festu. "Okkur vantar smámynt" sagði sú virðulega hæglætislega við þá ungu, um leið og hún töfraði skiptimynt upp úr veskjum viðskiptavinanna. "Já, þetta er ferlegt, okkur vantar alltaf klink" sagði sú unga.

Mér leið eins og ég væri komin til kaffihúsahimna. Alveg þangað til ég beit í kleinuna. Þetta var sú allra versta kleina sem ég hef smakkað, bakarinn greinilega á svaka dropafylleríi þennan daginn. Ég stillti mig samt um að gera eins og Sólveig, sem ullaði samviskusamlega út úr sér hverri einustu kleinuörðu.

Á leiðinni út lét ég mig dreyma um ömmukaffihús þar sem bara gamlar og virðulegar og hlýlegar konur í rósóttum sloppum sæju um afgreiðslu, studdu á hnappa og töluðu um smámynt. Og þar væri hægt að kaupa ekta ömmukleinur, ekki einhverjar ofvaxna dropahlunka. Og upprúllaðar pönnukökur með sykri, soðið brauð, lagtertur, lummur...... heitt kakó í rósóttum brothættum bollum.......

9.10.07

Ekki jibbí


... ekki jei
... ekki vúhú og allt það

... ekki rafmagn

Hvað klikkaði?

Fylgist með næsta þætti í (raf)mögnuðu framhaldsspennusögunni "Torfastaðaundrin".

Jeesssss!!



Vúúúúúúhúúúúú!
Jeiii!
Jiiibbbbbíííí!
Loooksins!!
Jeeeesss!
Gaaaarrrrggg!
Jííhaa!
Aúúúúú!

... já semsagt, rafmagnið er komið eftir fáránlega langa bið og allt of mörg símtöl.

Í kvöld renni ég austur og set í gang rafmagnshitablásara og byrja að kynda húsið. Núna getur næsti kafli framkvæmdanna á Torfastaðaheiðinni farið að byrja.

Matarást




Það er alveg ofboðslega gaman að gefa henni Sólveigu að borða. Ekki bara af því að henni finnst eiginlega allur matur góður, heldur af því að hún nýtur matarins svo yndislega mikið.

Hún vill borða oft, en lítið í einu. Ef henni finnst foreldrar sínir seinir við að setja mat á borðið þá grípur hún til sinna ráða, nær sér í krukku inn í skáp og setur á borðið, klifrar upp í stólinn sinn og segir "NAMM! NAMM!"

Á morgnana situr hún í stólnum sínum og borðar hafragrautinn sinn, og sönglar með "mmmmm, nammm, nammm, mmmm, ammm, mmmm". Voða notaleg morgunverðarstund hérna hjá fjölskyldunni með þennan undirleik. Og auðvitað borðar hún sjálf, það er mjög mikilvægur þáttur í þessari matarupplifun allri. Venjulega er hún frekar dugleg að nota skeið eða gaffal, en ef það er eitthvað sérstaklega gott í matinn, eins og t.d. hakk og pasta, þá bara verður hún að nota hendurnar líka, - og jafnvel allt andlitið, og þá færist "namm namm" söngurinn upp á æðra stig. "AMM, NAMM, MMMMM, NAMM, MMMM..." svo hátt að aðrir geta varla talað saman fyrir söngnum háværa.

2.10.07

Umskiptingur

Ég fór til læknis í gær með eyrnasjúklingana mína. Sólveig var með eyrnabólgu í síðustu viku, slapp sem betur fer við sýklalyf en miðað við pirringinn og öskrin í henni var ég nokkuð viss um að eyrun væru ekki í lagi, og það stóð heima, vökvi og þrýstingur í báðum eyrum. En það lagast vonandi á næstu vikum. Sindri fékk svo eyrnabólgu í sitt slæma hægra eyra í fyrradag með tilheyrandi pirringi og verkjum, og svo byrjaði að leka úr því einhver eyrnadrulla. Krakkarnir stóðu sig vel í læknisskoðuninni og við fórum út með lyfseðil fyrir dropum í eyrað hans Sindra.

Um leið og við komum í apótekið þá breyttist hún Sólveig litla ljúfa í algjöran umskipting. Öskraði af öllum lífs og sálar kröftum og spriklaði og sparkaði og það var ekki nokkur leið að finna nokkuð til að vekja áhuga hennar. Ég rétti fram lyfseðilinn og augu allra viðskiptavinanna beindust að konunni með snarbrjálaða krakkann. Hneyksluð augnarráð, vorkunsöm augnaráð, pirruð augnaráð. Og svo hófst biðin.

Við Sindri gerðum okkar besta til að gleðja Sólveigu, afgreiðslukonan kom líka og reyndi að rétta henni eitthvað sniðugt, en Sólveig bara öskraði hærra og gerði góða tilraun til að kasta sér í gólfið úr fanginu á mér. Vorkunssömum og pirruðum augnarráðum fjölgaði á meðan ég gekk um gólf með öskrandi barnið.

Að lokum leit afgreiðslukonan glaðlega til mín um leið og hún kallaði upp lyfseðil. Ég reif upp veskið, borgaði, greip pokann og dreif mig út. Á leiðinni hugsaði ég samt, svakalega hafa þessir dropar hækkað í verði. Á bílaplaninu leit ég á pokann og sá að hann var merktur Guttormi Erni eða einhverju nafni jafn ólíku Sindra Heiðari.

Skömmustuleg fór ég aftur inn í apótekið með öskrandi barnið og játaði á mig lyfjastuldinn. "Barnið bara öskraði svo hátt að ég heyrði ekki nafnið, ég hélt í óskhyggju minni að loksins væri komið að okkur". Það þurfti að kalla til nokkra starfsmenn til að leiðrétta þetta í rafrænu bókhaldi apóteksins, og alltaf öskraði Sólveig. Pirruðum augnaráðum fjölgaði verulega.

Loksins kom svo að því að droparnir hans Sindra voru afgreiddir og ég komst út og alla leið heim, gjörsamlega örmagna og gaf aumingja umskiptingnum mínum henni Sólveigu verkjastíl.

Nokkurra daga innivera með tvö eyrnaveik börn duga greinilega til að breyta mér í gangandi grænmeti.