Það er alveg ofboðslega gaman að gefa henni Sólveigu að borða. Ekki bara af því að henni finnst eiginlega allur matur góður, heldur af því að hún nýtur matarins svo yndislega mikið.
Hún vill borða oft, en lítið í einu. Ef henni finnst foreldrar sínir seinir við að setja mat á borðið þá grípur hún til sinna ráða, nær sér í krukku inn í skáp og setur á borðið, klifrar upp í stólinn sinn og segir "NAMM! NAMM!"
Á morgnana situr hún í stólnum sínum og borðar hafragrautinn sinn, og sönglar með "mmmmm, nammm, nammm, mmmm, ammm, mmmm". Voða notaleg morgunverðarstund hérna hjá fjölskyldunni með þennan undirleik. Og auðvitað borðar hún sjálf, það er mjög mikilvægur þáttur í þessari matarupplifun allri. Venjulega er hún frekar dugleg að nota skeið eða gaffal, en ef það er eitthvað sérstaklega gott í matinn, eins og t.d. hakk og pasta, þá bara verður hún að nota hendurnar líka, - og jafnvel allt andlitið, og þá færist "namm namm" söngurinn upp á æðra stig. "AMM, NAMM, MMMMM, NAMM, MMMM..." svo hátt að aðrir geta varla talað saman fyrir söngnum háværa.
No comments:
Post a Comment