Jæja, jæja. Þá er þetta að bresta á. Á næsta mánudag leggst Sindri inn á spítala til að láta græða nýja hljóðhimnu í hægra eyrað sitt. Aðgerðin sjálf er stutt, uþb. hálftími og ef allt gengur vel þá verður hann kominn heim daginn eftir.
Aðgerðin fer þannig fram að fyrst er skorið í vöðva fyrir ofan eyrað og sótt þangað himna. Svo er sú himna grædd í hlustina á honum, og þetta verður nýja hljóðhimnan hans.

Gamla hljóðhimnan var orðin alveg ónýt. Síðustu 2 árin hefur verið gat á þessari hljóðhimnu sem hefur bara farið stækkandi, og nú er svo komið að það er næstum ekkert eftir af henni. Þessi vetur hefur verið erfiður eyrnabólguvetur fyrir Sindra, en núna koma flestar sýkingarnar utanfrá (þ.e. ekki út af kvefi heldur bakteríum sem eiga greiðan aðgang inn í eyrað þegar engin hljóðhimna er). Hann er hættur að geta farið í sund án þess að fá eyrnabólgu í kjölfarið.

Þetta er mynd af heilli hljóðhimnu og svo einni með gati. Sindra gat er talsvert stærra en þetta.
Og svo heyrir hann náttúrlega mjög illa (HA!?), á erfitt með að staðsetja hvaðan hljóð koma, er sjálfur svolítið hávær osfrv.
Ef aðgerðin heppnast vel, þá mun vonandi eyrnabólgunum fækka verulega hjá honum. Og heyrnin á að batna mikið.
Sindri hlakkar mikið til (er alveg JESS! og JIBBÍ þegar er minnst á aðgerðina). Hann hlakkar auðvitað til að batna í eyranu, að fara að heyra betur og komast aftur í sund. Og svo er pínu kúl að fá frí í skólanum og leggjast inn á spítala ;-)

Við foreldrarnir reynum að halda aftur af væntingum hjá okkur. Árangurinn af þessum aðgerðum er samt almennt góður, 85-95% (ég er auðvitað búin að liggja yfir öllum síðum á netinu þar sem fjallað er um þetta), þannig að sýkingum fækkar og heyrn batnar í langflestum tilfellum. Aðgerðin sjálf gengur yfirleitt vel, en svo þarf að halda eyrum, nefi og kinnholum hreinum í nokkurn tíma á eftir, því þessi ný-ígrædda hljóðhimna eyðileggst auðveldlega við svoleiðis álag fljótt eftir aðgerðina. Sindri má ekki hnerra og alls ekki snýta sér fyrstu dagana á eftir. Ekkert hopp og hí og engin slagsmál, engir boltar í haus. Og ekkert sund í heila 4 mánuði á eftir. Ætli við vefjum hann ekki bara inn í bómull, allavega svona til að byrja með. Úff, eins og það er nú auðvelt með 7 ára gaur.
En jæja, við förum upp á spítala á föstudaginn, hittum læknana og förum í undirbúning fyrir aðgerðina. Þá kemur það betur í ljós hvernig við eigum að haga okkur eftir aðgerðina. Um helgina á Sindri að keppa í körfubolta í Njarðvík (ef læknarnir hafa ekkert við það að athuga) og svo er það bara aftur spítalinn eldsnemma á mánudagsmorgun. Krossum putta :-)