
Sólveig Embla er alveg yndislegt barn. Dafnar vel og líður vel. Lét ekki mikið á sig fá þótt við værum að þvælast með hana í ferðalög, breytti bara svefninum sínum smá; í stað þess að hafa nótt frá 10-10 þá hafði hún nótt frá 12-12. Sem passaði svefnpurrkufjölskyldunni afskaplega vel. Þetta hafði þær afleiðingar að við sváfum öll vel og lengi frameftir á morgnana í fríinu. Rétt með herkjum að Einar náði að rífa sig og S1 og S2 á fætur til að ná fótboltaæfingu kl 11. En við Sólveig (S3) lúrðum áfram.
Í fríinu náði Sólveig líka nýju hámarki í svefnlengd án þess að fá að drekka. Þegar hún var búin að sofa endurtekið í 8 tíma samfleytt þá var haft samband við hana frá HU - Hagsmunasamtökum Ungbarna og henni vinsamlegast bent á að þetta gengi ekki. Ef ungbörn vilja almennilega þjónustu, þá dugir engin leti og hangs, það verður að ala þessa foreldra almennilega upp. Sólveig brást vel við og stytti svefnlotur næturinnar niður í 5-6 tíma með stuttum drykkjarhléum á mili.
En Sólveig iðkar fleira en svefnlistir. Hún heldur höfði alveg listilega vel, brosir og hjalar af hjartans lyst og drekkur brjóstamjólk af mikilli lyst. Og svo fann hún hendurnar sínar um daginn, og það voru nú aldeilis fagnaðarfundir. Núna er hún byrjuð að skoða heiminn með höndunum og það bætir alveg nýrri vídd í ungbarnalíf Sólveigar Emblu.