26.7.06

Listalíf


Sólveig Embla er alveg yndislegt barn. Dafnar vel og líður vel. Lét ekki mikið á sig fá þótt við værum að þvælast með hana í ferðalög, breytti bara svefninum sínum smá; í stað þess að hafa nótt frá 10-10 þá hafði hún nótt frá 12-12. Sem passaði svefnpurrkufjölskyldunni afskaplega vel. Þetta hafði þær afleiðingar að við sváfum öll vel og lengi frameftir á morgnana í fríinu. Rétt með herkjum að Einar náði að rífa sig og S1 og S2 á fætur til að ná fótboltaæfingu kl 11. En við Sólveig (S3) lúrðum áfram.

Í fríinu náði Sólveig líka nýju hámarki í svefnlengd án þess að fá að drekka. Þegar hún var búin að sofa endurtekið í 8 tíma samfleytt þá var haft samband við hana frá HU - Hagsmunasamtökum Ungbarna og henni vinsamlegast bent á að þetta gengi ekki. Ef ungbörn vilja almennilega þjónustu, þá dugir engin leti og hangs, það verður að ala þessa foreldra almennilega upp. Sólveig brást vel við og stytti svefnlotur næturinnar niður í 5-6 tíma með stuttum drykkjarhléum á mili.

En Sólveig iðkar fleira en svefnlistir. Hún heldur höfði alveg listilega vel, brosir og hjalar af hjartans lyst og drekkur brjóstamjólk af mikilli lyst. Og svo fann hún hendurnar sínar um daginn, og það voru nú aldeilis fagnaðarfundir. Núna er hún byrjuð að skoða heiminn með höndunum og það bætir alveg nýrri vídd í ungbarnalíf Sólveigar Emblu.

We are the winners!!

Þegar við komum til Akureyrar þá sáum við að gamla herbergið mitt í Mánahlíðinni rúmaði ekki almennilega 5 manna fjölskyldu ásamt öllu sem henni fylgir. Því var ákveðið að kaupa koju svo hægt væri að stafla fjölskyldumeðlimum upp. Að skrúfa saman ferlíkið var heilmikið verk, en verra var að það vantaði 2 skrúfur. Einar skaust út í BYKO að bjarga málinu og Snæfríður og Sindri fóru með.

Þegar hersingin kom til baka þá voru krakkarnir aldeilis himinlifandi yfir góðum viðskiptum. Í BYKO var nefnilega opnunarhátið. Einar borgaði nokkrar krónur fyrir skrúfurnar tvær, en krakkarnir komu heim með frisbídiska, drykki, blöðrur og skafmiða, þar sem hægt var að vinna gasgrill, hjól, tjöld og margt fleira.

Þegar ég þurfti að skreppa í BYKO aftur nokkrum dögum seinna, þá hoppuðu við hlið mér tvö syngjandi glöð börn. Á meðan ég borgaði við kassann náðu þau í skafmiðana 3 sem okkur voru ætlaðir. Skófu fyrst af sínum miðum - enginn vinningur. Fannst ég eitthvað áhugalaus um þetta og skófu því líka af mínum miða. "Mamma, þú vannst 50 loftljós!!!" hrópaði Snæfríður upp. Shit, hugsaði ég. Hvað í ósköpunum á ég að gera við 50 loftljós??? Sem betur fer kom í ljós að ég hafði bara unnið 1 af þessum 50 loftljósum. Hjúkk!! En samt vantaði mig alls ekki loftljós.

24.7.06

Rennitætla!!


Sindri kom heim af fyrstu fótboltaæfingunni sinni með KA á Akureyri alveg ljómandi af stolti "Ég skoraði mark! " Flott hjá þér Sindri sagði ég. Spurði svo hvernig mark hann hefði skorað. "'Ég skoraði með rennitætlu! " Nú, já.... rennitætlu ..... einmitt sagði ég og klóraði mér í höfðinu.

Ég viðurkenni að ég er enginn sérfræðingur í fótbolta. En þótt ég treysti mér ekki til að útskýra flóknar reglur um rangstöðu, þá tel ég mig sæmilega vel að mér í fótboltahugtökum og slangri (þökk sé ævilangri þjálfun hjá pabba, Rúnari bróður og Einari mínum) .... en um rennitætlu hef ég barasta aldrei heyrt.

Eftir nánari spurningar og sýnikennslu í rennitætlu þá komst ég að því að drengurinn átti við það sem í mínum ungdómi var alltaf kallað skriðtækling, en má víst líka kalla rennitæklingu. Og Sindri er ekkert að láta hugtökin vefjast fyrir sér, það eru víst mörkin sem telja. Hvort sem þau eru skoruð með rennitætlu eða einhverju öðru.

Myndin sýnir svo æsispennandi vítaspyrnukeppni Sindra og afa Gunnars í Hrísey fyrir viku síðan.