
Um daginn vorum við Sólveig á einhverjum þvælingi og ákváðum að setjast inn í Þórsbakarí og fá okkur smá hressingu. Á móti okkur tók eldri kona, með virðulega upp sett hár og í rósóttum slopp, svona sem er bundinn saman á hliðinni. Hún byrjaði á að bjóða okkur hlýlega góðan daginn, og mér fannst samstundis eins og ég væri komin í heimsókn til gamallar frænku. Ekkert svona "horft-út-í-loftið-mér-er skítsama-g..daginn" heldur virkilega hlýleg kveðja. Góðan daginn.
Við pöntuðum okkur kaffibolla, trópí og kleinu, borguðum og settumst niður. Og fylgdumst með gömlu virðulegu afgreiðslukonunni taka við leiðbeiningum frá unglingsstelpu um hvernig búðarkassinn virkaði. "Já, á ég svo að styðja á þennan hnapp" sagði sú virðulega. "Já, ýttu bara áennan takka" sagði sú unga. Og sú gamla studdi virðulega og yfirvegað á hina og þessa hnappa um leið og hún afgreiddi fólk af rólegri og hlýlegri festu. "Okkur vantar smámynt" sagði sú virðulega hæglætislega við þá ungu, um leið og hún töfraði skiptimynt upp úr veskjum viðskiptavinanna. "Já, þetta er ferlegt, okkur vantar alltaf klink" sagði sú unga.
Mér leið eins og ég væri komin til kaffihúsahimna. Alveg þangað til ég beit í kleinuna. Þetta var sú allra versta kleina sem ég hef smakkað, bakarinn greinilega á svaka dropafylleríi þennan daginn. Ég stillti mig samt um að gera eins og Sólveig, sem ullaði samviskusamlega út úr sér hverri einustu kleinuörðu.
Á leiðinni út lét ég mig dreyma um ömmukaffihús þar sem bara gamlar og virðulegar og hlýlegar konur í rósóttum sloppum sæju um afgreiðslu, studdu á hnappa og töluðu um smámynt. Og þar væri hægt að kaupa ekta ömmukleinur, ekki einhverjar ofvaxna dropahlunka. Og upprúllaðar pönnukökur með sykri, soðið brauð, lagtertur, lummur...... heitt kakó í rósóttum brothættum bollum.......
2 comments:
Ég veit nákvæmlega hvað þú ert að tala um. Mér bar gæfa til að heimsækja kaffihús sem síðustu vitavarðahjónin í Reykjanesvita opnuðu í stuttan tíma sökum þess að þeim leiddist. Þar var alveg þessi stemning, heimabakað bakkelsi, heklaðir dúkar á borðum, gufan í útvarpinu og svo settust eigendurnir meira að segja niður með okkur til þess að spjalla á meðan við hámuðum í okkur kleinur og vöfflur.
Við vorum að ræða um daginn hvernig ekta íslenskur veitingastaður væri (vorum að borða pizzu á Ítlaíu) - krökkunum fannst að það yrði að vera torfkofi og þar myndu vera hrútshöfuð uppi á veggjum og bara slátur og svið í matinn ... en svo föttuðum við að auðvitað væri kaffihús með rósóttum bollum þið eina ekta íslenska veitingahús - svona í stíl við íslenska siðinn í Kristnihaldinu um að gefa gestum ekki ómerkilegan mat heldur bara kökur.
Post a Comment