2.10.07

Umskiptingur

Ég fór til læknis í gær með eyrnasjúklingana mína. Sólveig var með eyrnabólgu í síðustu viku, slapp sem betur fer við sýklalyf en miðað við pirringinn og öskrin í henni var ég nokkuð viss um að eyrun væru ekki í lagi, og það stóð heima, vökvi og þrýstingur í báðum eyrum. En það lagast vonandi á næstu vikum. Sindri fékk svo eyrnabólgu í sitt slæma hægra eyra í fyrradag með tilheyrandi pirringi og verkjum, og svo byrjaði að leka úr því einhver eyrnadrulla. Krakkarnir stóðu sig vel í læknisskoðuninni og við fórum út með lyfseðil fyrir dropum í eyrað hans Sindra.

Um leið og við komum í apótekið þá breyttist hún Sólveig litla ljúfa í algjöran umskipting. Öskraði af öllum lífs og sálar kröftum og spriklaði og sparkaði og það var ekki nokkur leið að finna nokkuð til að vekja áhuga hennar. Ég rétti fram lyfseðilinn og augu allra viðskiptavinanna beindust að konunni með snarbrjálaða krakkann. Hneyksluð augnarráð, vorkunsöm augnaráð, pirruð augnaráð. Og svo hófst biðin.

Við Sindri gerðum okkar besta til að gleðja Sólveigu, afgreiðslukonan kom líka og reyndi að rétta henni eitthvað sniðugt, en Sólveig bara öskraði hærra og gerði góða tilraun til að kasta sér í gólfið úr fanginu á mér. Vorkunssömum og pirruðum augnarráðum fjölgaði á meðan ég gekk um gólf með öskrandi barnið.

Að lokum leit afgreiðslukonan glaðlega til mín um leið og hún kallaði upp lyfseðil. Ég reif upp veskið, borgaði, greip pokann og dreif mig út. Á leiðinni hugsaði ég samt, svakalega hafa þessir dropar hækkað í verði. Á bílaplaninu leit ég á pokann og sá að hann var merktur Guttormi Erni eða einhverju nafni jafn ólíku Sindra Heiðari.

Skömmustuleg fór ég aftur inn í apótekið með öskrandi barnið og játaði á mig lyfjastuldinn. "Barnið bara öskraði svo hátt að ég heyrði ekki nafnið, ég hélt í óskhyggju minni að loksins væri komið að okkur". Það þurfti að kalla til nokkra starfsmenn til að leiðrétta þetta í rafrænu bókhaldi apóteksins, og alltaf öskraði Sólveig. Pirruðum augnaráðum fjölgaði verulega.

Loksins kom svo að því að droparnir hans Sindra voru afgreiddir og ég komst út og alla leið heim, gjörsamlega örmagna og gaf aumingja umskiptingnum mínum henni Sólveigu verkjastíl.

Nokkurra daga innivera með tvö eyrnaveik börn duga greinilega til að breyta mér í gangandi grænmeti.

5 comments:

Anonymous said...

Hæ.
Ekki gott að heyra að börnin séu lasin, en fínt að Sólveig æfi lungun (trúi þessu þó varla, miðað við það sem ég þekki hana).

N.

Smooth Salvatore Bruno said...

Hvílíkt fjör... Velkomin aftur :)

Anonymous said...

Blessssssuð og sæl mín kæra

Long time no blog, eða hvað? Greyin litlu, vonandi fer þeim að batna. Ekkert grín með eyrun. Annars ert þú nú orðin svo mikilli eyrnabólgureynslubolti að það ætti að veita þér fálkaorðuna...eða allavega eitthvað annað smart merki ;o)
kveðja Sóley

Anonymous said...

Vá hvað ég skil vel hvernig þér líður, lenti í svipuðum aðstæðum í Bónus um daginn kl. hálf sjö á mánudegi með dæturnar með mér og steinunn orgaði og orgaði, lagðist í gólfið og sturtaði svo úr heilum eggjabakka yfir innkaupakerruna. Mér fannst ég vera algjör.... en gott að maður veit betur.
Hugsa oft til ykkar, aldrei að vita nema maður birtist einn daginn... Hafið það gott og gangi ykkur vel með eyrnaveikindin
kv. Valdís Vera og allir hinir

Jóhanna said...

Ah, mikið er gaman þegar svona margir kommenta :-)
Ég hélt að ég væri löngu búin að tapa öllum lesendum að síðunni.

Sóley, ég bíð spennt eftir þessu smarta merki frá þér - þú ert náttúrlega annáluð smekkmanneskja þannig að ég reikna með að ég verði jafn glæsileg og Villi borgarstjóri með hálsfestina sína ;-)

Valdís, gaman að svona óvæntum lesendum. Úff, ég hefði ekki viljað skipta við þig í eggjakastinu. Börn eru sannarlega endalaus uppspretta gleði og hamingju ;-)