29.11.07

Bleikt og blátt

Fyrir nokkru var gerð rannsókn úti í heimi. Helmingur nýfæddra barna á fæðingardeild var klæddur í blátt og hinn helmingurinn í bleikt, jafnmargar stelpur og strákar voru í bleiku, og það sama gilti um bláa litinn, jafnmargar stelpur og strákar klæddust honum. Og svo var hegðun fullorðna fólksins skoðuð.

Bláklæddu börnin þóttu alveg sérstaklega hraustleg, kröftug og sterkleg og það var hnoðast meira með þau.
Bleikklæddu börnin þóttu alveg sérstaklega sæt, ljúf og róleg og það var farið með þau eins og postulínsdúkkur.

Merkilegt? Eða hvað?

Hversu stór hluti af kynjamuninum er meðfæddur og skrifast á mismunandi hormónabúskap? Og hversu stór hluti orsakast af félagsmótun frá unga aldri svo maður falli inn í rétt kynhlutverk? Þetta er bara ómögulegt að vita.



Það myndi líklega ekki hafa úrslitaáhrif á þróun jafnréttis þótt öll börn yrðu klædd í litríka röndótta galla við fæðingu í stað þeirra bleiku og bláu? En allavega yrði það svona smá "statement" um að við gerum okkur grein fyrir að stór hluti af félagsmótuninni er ómeðvitaður, og að við ætlum aðeins að hugsa okkur um hvaða gildi við innprentum börnunum okkar.

Og mér þætti það alveg óendanlega gaman, ef tækist að breyta viðhorfum samfélagsins, þannig að hefðbundnir "kvenlegir" eiginleikar myndu fá uppreisn æru og verðskuldaða virðingu, alveg eins og hefðbundnir "karllegir" eiginleikar hafa. Þá myndi maður aldrei aftur fá kjánahroll þegar foreldrar lýsa því yfir hlæjandi og stoltir að stelpan þeirra sé sko algjör strákastelpa, alltaf skítug upp fyrir haus og í slagsmálum við strákana, og viðmælendurnir slá á bakið á þeim og segja "flott, sú er dugleg". Á meðan strákaforeldrarnir segja hljóðlega "jah, strákurinn okkar er voða rólegur, finnst mest gaman að föndra og leika sér með dúkkur" og það slær þögn á mannskapinn. Eftir vandræðalegu þögnina spyr einhver áhyggjufullur "eruð þið búin að prófa að setja hann í fótbolta?".

En fyrirspurn Kolbrúnar á Alþingi er samt á villigötum, kannski svosem ekki í fyrsta sinn sem þingmenn eiga erfitt með að átta sig á starfsvettvangi sínum og rugla saman löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi. Eða finnst henni að Alþingi eigi að lögfesta reglur um klæðnað á Landspítalanum? Eigum við þá ekki í leiðinni að banna forljóta stimpilinn á öllum nýfæddum börnum "Eign þvottahúss ríkisspítalanna"? Það væri sko þjóðþrifamál! Eða þannig...

Samt er líka ömurlegt hvernig þessi vanhugsaða fyrirspurn vindur upp á sig. Nú keppast allir við að tala um hversu gagnslausar þessar þingkonur okkar séu, "- og erum við að borga þeim fyrir þetta! fuss!", "þessar konur á þingi ættu að fara að einbeita sér að einhverjum almennilegum málum!" osfrv. Alveg eins og þetta sé í fyrsta sinn sem einhver leggur fram bjánalega fyrirspurn á Alþingi. Aldrei heyrir maður sagt þegar Árni Johnsen skandaliserar eitthvað "þessir þingkarlar okkar eru alveg gagnslausir, ættu bara að hypja sig aftur heim til sín allir með tölu!". Neibb, svona er bara sagt um konur.

En samt pínu leiðinlegt hvernig málið er tilkomið, ef hún Kolbrún hefði skrifað blaðagrein um málið, eða sent erindi til landspítalans um spítalafatnað, þá hefði ég stutt málið heilshugar, því mér finnst að við megum alveg setja upp gleraugun og skoða þessa ómeðvituðu félagsmótun í kynhlutverkin og hvernig við gildishlöðum hefðbundna "kvenlega" og "karlega" eiginleika. En mér finnst samt klæðnaður ungbarna á landspítalanum ekki vera málefni löggjafarvaldsins, só sorrí.

23.11.07

Gæsahúð

"Af hverju komstu svona seint heim úr skólanum í dag, Snæfríður mín? " spurði móðirin, sem margsinnis er búin að brýna fyrir börnunum sínum um að láta vita af sér ef þau fara heim með einhverjum vinum sínum eftir skóla.

"Ég var á æfingu með synfóníuhljómsveitinni" svaraði sú stutta. "Ha? synfóníu - hvað? " spurði móðirin, sem hefur heyrt ýmsar hugmyndarríkar skýringar á seinkun og gleymsku - en aldrei þessa. Og jú, það kom upp úr dúrnum að meðlimir synfóníuhljómsveitarinnar voru alla þessa viku í Rimaskóla, að vinna með krökkum í einum 6. bekknum við að semja og æfa tónverk. Þau sem kunnu á hljóðfæri notuðu þau, hinir spiluðu á trommur og xylofóna. Nokkrir krakkar úr 5. og 4. bekk fengu þar að auki að vera með, og spila á hljóðfærin sín, og þannig fékk trompetleikarinn hún Snæfríður og bekkjarsystir hennar Svana, að æfa með synfóníunni.



Svo var endað með glæsilegum tónleikum, fyrst spilaði synfóníuhljómsveitin nokkur lög, og enduðu auðvitað með "Á Sprengisandi" og allavega ég fékk gæsahúð, útsetning Páls Pampichlers vekur upp gamlar og góðar minningar. Og svo komu krakkarnir á svið, nokkrir meðlimir synfóníunnar komu sér fyrir inn á milli, til hliðar og bakvið, en krakkarnir fengu sviðsljósið. Þau höfðu notað vikuna í að semja tónverk, þar sem nokkur grunnstef voru endurtekin reglulega í mismunandi hljóðfærahópum, sóló tekin á víxl og svo var allt sett á fullt með öllu genginu á full blast, og svo færðust stefin aftur á milli hljóðfærahópanna. Gæsahúðin gerði aftur vart við sig. Svo voru þau búin að semja nýjan texta við "singing in the rain" og sungu eins og englar: "Á íslensku ég syng", innblásin af degi íslenskrar tungu. Glæsilegt framtak á allan hátt og frábær skemmtun. Skólastarf til fyrirmyndar. Takk fyrir mig og mína!


Glöggir lesendur geta séð að lengst til vinstri á myndinni er fyrrverandi leigusalinn okkar á Kvisthaganum, hann Brjánn fagottleikari, það var óvænt ánægja að hitta hann í skólanum.


Sindri og vinir hans voru mættir í góðu stuði.


Bekkjarsystur Snæfríðar gerðust undir eins barnapíur fyrir Sólveigu, og henni finnst ótrúlega gaman í skóla.

Nammi og pleisteisjon



Hjálparstarf kirkjunnar opnaði um daginn heimasíðu, http://www.gjofsemgefur.is. Þetta er mjög sniðug hugmynd, í staðinn fyrir að gefa fjölskyldu og vinum einhvern óþarfa í jólagjöf, þá kaupirðu eitthvað handa fátæku fólki úti í löndum og sendir gjafabréfin til fjölskyldu og vina. Þú getur t.d. frelsað barn úr skuldaánauð fyrir 5000 kr, keypt skóladót fyrir 2000 kr, gefið geit fyrir 2500 kr, heint vatn fyrir 35 manns kostar 5000 kr osfrv. Og svo er hægt að kaupa "ójólalegri" gjafir eins og kamar fyrir 6500 kr og kassa af smokkum fyrir 2500 kr. Mjög gott mál og vonandi gengur þetta vel hjá þeim.

Þið getið skoðað frétt um málið hérna: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1302365. Fréttin er stórfurðuleg og sýnir fjölmiðlakynningu kirkunnar á verkefninu. Byrjar með kertaljósi, svo staulast fram hópur af íslenskum rauðklæddum jólasveinum, svo kemur gamla tröllskessan hún Grýla og svo er fréttin búin.

Þetta var semsagt leiðin sem kirkjan valdi til að kynna verkefnið sitt. Heiðnir jólasveinar, kerti og gömul tröllskessa. Ekkert biblíu eða jesútengt. Kannski eitthvað svipað og ef Latibær væri með kynningu og gæfi öllum krökkum nammipoka og pleisteisjón.

Var það ekki í fyrra sem einhver presturinn lýsti því yfir í barnamessu að jólasveinninn væri bara plat? Allavega þá eru þeir mættir í ár, ásamt Grýlu mömmu sinni, og byrjaðir að vinna fyrir kirkjuna. En hvað varð eiginlega um krossmörk, engla og jesúmyndir - er svoleiðis alveg dottið úr tísku í kirkjunni? Er kannski hjálparstofnunin með þessu bara að reyna að láta lítið bera á kristilega hluta hjálparstarfsins? Fólk er nefnilega alveg steinhætt að vilja gefa peninga til trúboðs eftir hörmulega reynslu af því um allan heim, og þess vegna eru hinir sívinsælu jólasveinar og grýla notuð til að breiða yfir heilagleikann hjá stofnuninni. Því kirkjan er alls ekki hætt trúboði meðal heiðingja í afríku, þótt hún vinni líka að ýmsum öðrum góðum og gagnlegum verkefnum í leiðinni.

Semsagt, bæði skrýtið mál og líka mjög gott mál.

19.11.07

Snæfríður 10 ára!

Nú er hún Snæfríður mín orðin 10 ára, yndisleg 10 ár hjá yndislegri stelpu :-)


Við byrjuðum á því að bjóða stelpunum í bekknum hennar í veislu á föstudaginn. Snæfríður bakaði súkkulaðikökuna alveg sjálf og eins og venjulega var hún búin að hanna kökuskreytingarþema, kökurnar voru 3 bleik hjörtu með silfurlitum sælgætiskúlum. Stílhreint og stílíserað, bleikt og glansandi :-) 10 ára bekkjarafmælið fór ótrúlega vel fram, stelpurnar rólegar og glaðar, bingó, stoppdans, morðingjaleikur, kaka og pizzuveisla.


Sólveig hefði ekki getað verið glaðari þótt hún hefði átt afmæli sjálf. Hún er sannfærð um að hún sé 10 ára eins og hinar stelpurnar og tók þátt í öllum leikjunum, hjálpaði til við að opna pakka og naut sín vel við matarborðið við kökuát og pizzuát.


Svo var haldin stórveisla fyrir fjölskyldu og vini, og eins og venjulega var þröng á þingi hérna hjá okkur. En mikið eigum við skemmtilega vini og fjölskyldu, það er alltaf jafn gaman þegar allur þessi hópur kemur saman. Frjósemin í hópnum er líka ótrúleg, í hverri veislu bætist nýtt barn í hópinn.

Kolfinna



Aggi og Þórunn gáfu litlu dóttur sinni fallegt nafn um síðustu helgi, Kolfinna Arnarsdóttir heitir sú stutta. Hún var skírð í barnamessu í hverfiskirkjunni þeirra og svo var glæsileg skírnarveisla heima hjá þeim. Til hamingju með nafnið, Kolfinna, og til hamingju með Kolfinnu, Aggi, Þórunn og Heba.

Sólveig skemmti sér vel í barnamessunni, fílaði alveg í botn að vera í svona krakkahópi. Flott mynd hérna, öll börnin fylgjast með messunni, en Sólveig fylgist með krökkunum.


Svo pósaði hún fyrir framan altarið

18.11.07

Körfubolti



Sindri byrjaði að æfa körfubolta í haust og það er svona rosalega gaman. Allt frá fyrstu æfingunni ríkti mikil gleði, fyrsta æfingin sem var lögð fyrir 20 kraftmikla 7 ára gaura, var "óþekktaræfingin". "Jæja, strákar" sagði þjálfarinn. "Þegar ég segi til, þá vil ég að þið séuð eins óþekkir og þið getið, hlaupið um, öskrið, driplið boltunum og bara verðið alveg rosalega óþekkir". "Og svo þegar ég blæs í flautuna, þá stoppið þið og hafið alveg hljótt". Svo byrjaði "óþekktaræfingin", strákarnir voru með læti og þjálfarinn blés í flautuna og allir stoppuðu. "Uss, strákar, þið getið nú verið miklu óþekkari en þetta, byrjið aftur" Strákarnir fóru alveg á kostum í ólátum og óþekkt, og svo þegar þjálfarinn blés í flautuna, datt allt í dúnalogn. "Vá, mikið svakalega voruð þið óþekkir hló þjálfarinn". Og strákarnir hlógu ánægðir og sáttir og tilbúnir til að hlýða flautunni. Þar með voru agavandamálin leyst og kominn vinnufriður fyrir alls konar driplæfingar. Þjálfarinn þurfti bara að flauta og allt datt í dúnalogn.

Svo var farið á fyrsta körfuboltamótið um síðustu helgi, Hópbílamót Fjölnis í Grafarvogi. Strákarnir spiluðu fimm 10 mínútna leiki, þar sem ekki voru dæmd skref nema þau væru alveg hrikalega mörg, engin stig talin, enginn vann og enginn tapaði. En strákarnir auðvitað töldu stigin sín sjálfir, börðust af hörku og vissu alveg hvort þeir voru að vinna eða tapa, samt gott að geta skýlt sér á bak við stigaleysið þegar komu tapleikir, enda var ekker gull silfur og brons í boði, heldur flottur peningur fyrir alla. Og það var líka margt annað að hugsa um á milli leikja, allir fóru saman í bíó, allir fóru saman í sund, það var kjötbolluveisla í Rimaskóla, blysför og kvöldvaka, mjólk og skúffukaka fyrir svefninn og verðlaunaafhending og pizzuveisla í lokin. Heim af mótinu komu bara stoltir sigurvegarar.

7.11.07

Vagg og velta


Við Snæfríður eyddum síðustu helgi á fimleikamóti í Vestmannaeyjum. Þetta var alveg ágætis ferð, Snæfríður stóð sig vel í sínum æfingum, góð stemmning í hópnum og þétt dagskrá.

En ojbara hvað það var ekki gaman að sigla með Herjólfi. Á leiðinni út í eyjar varð helmingur liðsins sjóveikur, en líklega varð ábyrga mamman í ferðinni, ég sjálf, einna sjóveikust. Lengst af hékk ég ælandi út fyrir borðstokkinn, svo náði ég að staulast inn fyrir dyr og hékk þar örmagna og ælandi það sem eftir var ferðar. Snæfríður ældi einu sinni og hresstist svo, en var svo hrædd um aumingja sjóveiku mömmu sína, að hún fékk mig til að lofa því að sigla aldrei aftur með Herjólfi. Þannig að ég pantaði fyrir okkur flug heim á sunnudaginn.

Þegar við komum á flugvöllinn komumst við að því að það var ófært vegna veðurs, og sífellt bætti í vindinn. Flugmaðurinn var hálf sorrý yfir þessu, en bauðst til að skutla okkur bara í staðinn niður í Herjólf sem átti að fara á svipuðum tíma. Flott gestrisni hjá eyjamönnum. Og við fórum aftur um borð í Herjólf hryllilega. Ég kom mér fyrir í sæti og hreyfði mig ekki alla ferðina nema bara rétt til að æla, og þraukaði ferðina þannig. Ég skildi Snæfríði eftir í umsjón sjóhraustra fimleikaþjálfara - að ég hélt. En nei, nú varð allt sjóhrausta fólkið líka sjóveikt. Það urðu bara allir sjóveikir. Snæfríður ældi 8 sinnum í ferðinni og lá lengst af bjargarlaus frammi á gangi við klósettin. Óvá hvað við erum ekki gott efni í sjómenn!

Við erum núna rétt að losna við eftirköstin, sjóriðuna, ógleðina, hausverkinn og þreytuna. Og ég get lofað því að ég fer aldrei ALDREI aftur í Herjólf, nema kannski KANNSKI í logni og blíðu. Og bara BARA ef ég á gott erindi út í eyjar.