Bláklæddu börnin þóttu alveg sérstaklega hraustleg, kröftug og sterkleg og það var hnoðast meira með þau.
Bleikklæddu börnin þóttu alveg sérstaklega sæt, ljúf og róleg og það var farið með þau eins og postulínsdúkkur.
Merkilegt? Eða hvað?
Hversu stór hluti af kynjamuninum er meðfæddur og skrifast á mismunandi hormónabúskap? Og hversu stór hluti orsakast af félagsmótun frá unga aldri svo maður falli inn í rétt kynhlutverk? Þetta er bara ómögulegt að vita.

Það myndi líklega ekki hafa úrslitaáhrif á þróun jafnréttis þótt öll börn yrðu klædd í litríka röndótta galla við fæðingu í stað þeirra bleiku og bláu? En allavega yrði það svona smá "statement" um að við gerum okkur grein fyrir að stór hluti af félagsmótuninni er ómeðvitaður, og að við ætlum aðeins að hugsa okkur um hvaða gildi við innprentum börnunum okkar.
Og mér þætti það alveg óendanlega gaman, ef tækist að breyta viðhorfum samfélagsins, þannig að hefðbundnir "kvenlegir" eiginleikar myndu fá uppreisn æru og verðskuldaða virðingu, alveg eins og hefðbundnir "karllegir" eiginleikar hafa. Þá myndi maður aldrei aftur fá kjánahroll þegar foreldrar lýsa því yfir hlæjandi og stoltir að stelpan þeirra sé sko algjör strákastelpa, alltaf skítug upp fyrir haus og í slagsmálum við strákana, og viðmælendurnir slá á bakið á þeim og segja "flott, sú er dugleg". Á meðan strákaforeldrarnir segja hljóðlega "jah, strákurinn okkar er voða rólegur, finnst mest gaman að föndra og leika sér með dúkkur" og það slær þögn á mannskapinn. Eftir vandræðalegu þögnina spyr einhver áhyggjufullur "eruð þið búin að prófa að setja hann í fótbolta?".
En fyrirspurn Kolbrúnar á Alþingi er samt á villigötum, kannski svosem ekki í fyrsta sinn sem þingmenn eiga erfitt með að átta sig á starfsvettvangi sínum og rugla saman löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi. Eða finnst henni að Alþingi eigi að lögfesta reglur um klæðnað á Landspítalanum? Eigum við þá ekki í leiðinni að banna forljóta stimpilinn á öllum nýfæddum börnum "Eign þvottahúss ríkisspítalanna"? Það væri sko þjóðþrifamál! Eða þannig...
Samt er líka ömurlegt hvernig þessi vanhugsaða fyrirspurn vindur upp á sig. Nú keppast allir við að tala um hversu gagnslausar þessar þingkonur okkar séu, "- og erum við að borga þeim fyrir þetta! fuss!", "þessar konur á þingi ættu að fara að einbeita sér að einhverjum almennilegum málum!" osfrv. Alveg eins og þetta sé í fyrsta sinn sem einhver leggur fram bjánalega fyrirspurn á Alþingi. Aldrei heyrir maður sagt þegar Árni Johnsen skandaliserar eitthvað "þessir þingkarlar okkar eru alveg gagnslausir, ættu bara að hypja sig aftur heim til sín allir með tölu!". Neibb, svona er bara sagt um konur.
En samt pínu leiðinlegt hvernig málið er tilkomið, ef hún Kolbrún hefði skrifað blaðagrein um málið, eða sent erindi til landspítalans um spítalafatnað, þá hefði ég stutt málið heilshugar, því mér finnst að við megum alveg setja upp gleraugun og skoða þessa ómeðvituðu félagsmótun í kynhlutverkin og hvernig við gildishlöðum hefðbundna "kvenlega" og "karlega" eiginleika. En mér finnst samt klæðnaður ungbarna á landspítalanum ekki vera málefni löggjafarvaldsins, só sorrí.