Sindri byrjaði að æfa körfubolta í haust og það er svona rosalega gaman. Allt frá fyrstu æfingunni ríkti mikil gleði, fyrsta æfingin sem var lögð fyrir 20 kraftmikla 7 ára gaura, var "óþekktaræfingin". "Jæja, strákar" sagði þjálfarinn. "Þegar ég segi til, þá vil ég að þið séuð eins óþekkir og þið getið, hlaupið um, öskrið, driplið boltunum og bara verðið alveg rosalega óþekkir". "Og svo þegar ég blæs í flautuna, þá stoppið þið og hafið alveg hljótt". Svo byrjaði "óþekktaræfingin", strákarnir voru með læti og þjálfarinn blés í flautuna og allir stoppuðu. "Uss, strákar, þið getið nú verið miklu óþekkari en þetta, byrjið aftur" Strákarnir fóru alveg á kostum í ólátum og óþekkt, og svo þegar þjálfarinn blés í flautuna, datt allt í dúnalogn. "Vá, mikið svakalega voruð þið óþekkir hló þjálfarinn". Og strákarnir hlógu ánægðir og sáttir og tilbúnir til að hlýða flautunni. Þar með voru agavandamálin leyst og kominn vinnufriður fyrir alls konar driplæfingar. Þjálfarinn þurfti bara að flauta og allt datt í dúnalogn.
Svo var farið á fyrsta körfuboltamótið um síðustu helgi, Hópbílamót Fjölnis í Grafarvogi. Strákarnir spiluðu fimm 10 mínútna leiki, þar sem ekki voru dæmd skref nema þau væru alveg hrikalega mörg, engin stig talin, enginn vann og enginn tapaði. En strákarnir auðvitað töldu stigin sín sjálfir, börðust af hörku og vissu alveg hvort þeir voru að vinna eða tapa, samt gott að geta skýlt sér á bak við stigaleysið þegar komu tapleikir, enda var ekker gull silfur og brons í boði, heldur flottur peningur fyrir alla. Og það var líka margt annað að hugsa um á milli leikja, allir fóru saman í bíó, allir fóru saman í sund, það var kjötbolluveisla í Rimaskóla, blysför og kvöldvaka, mjólk og skúffukaka fyrir svefninn og verðlaunaafhending og pizzuveisla í lokin. Heim af mótinu komu bara stoltir sigurvegarar.
1 comment:
Frábær þessi óþekktaræfing ;-)
Já, við mælum allavega með körfunni, þó að veturinn sé meira og minna undirlagður hjá okkur. Sérstaklega finnst mér þessi minniboltamót skemmtileg.
Það verður gaman að fylgjast með Sindra í körfunni.
Post a Comment