15.1.08

Ruslið í Napolí

Mikilvægasta tekjulind mafíunnar í Napolí (kölluð Camorra) er auðvitað eiturlyfjasala. Næst á eftir kemur ruslið. Allt frá sorphirðunni, böggun og urðun að förgun iðnaðarúrgangs, - alls staðar er mafían og hirðir gróðann.

Mafían er búin að gera þetta áratugum saman. Þeir reka verksmiðjur sem bagga sorp, því meira sem þeir bagga því meira græðir mafían. Þeir bagga sorp sem væri hægt að endurvinna, þeir bagga sorp sem inniheldur hættuleg spilliefni og þeir bagga venjulegt heimilissorp. Ruslahaugarnir eru undir þeirra stjórn, vaktaðir af vopnuðum vörðum og heilbrigðiseftirlit í lágmarki.

Eiturefnin frá ruslahaugunum sígur niður í jarðveginn og niður í grunnvatnið. Á menguðustu svæðunum er jarðvegsmengunin 100.000 sinnum meiri en leyfileg mörk, tíðni krabbameina 4x hærri en landsmeðaltal, og líkur á vansköpun nýfæddra barna 83% hærri en landsmeðaltal.

Alls staðar í heiminum þurfa iðnfyrirtæki að borga fyrir förgun úrgangs. Mafían í Napolí tekur við greiðslum frá fyrirtækjum í norður ítalíu, greiðslur sem eiga að sjá til þess að úrganginum sé fargað á hættulausan hátt. En hvað gerir mafían? Þeir hirða peninginn og henda úrganginum í sjóinn eða urða hann.



Núna er svo komið að sorphaugar Napolí og nágrennis eru orðnir yfirfullir. Sorphirðumenn eru í verkfalli, götur Napolí fullar af rusli og hermenn reyna að hreinsa eitthvað til, því hætta er á að kólerufaraldur brjótist út.

Mafían stjórnar þeim örfáu ruslahaugum sem ekki eru nú þegar yfirfullir og hefur líka keypt upp það land sem var ætlað fyrir framtíðarsorphauga. Mafían hefur nú alla þræði í hendi sér, en íbúar Napolí eru orðnir langþreyttir á vandanum og heimta varanlega lausn. Evrópusambandið hótar að lögsækja ítölsk stjórnvöld ef þau leysa ekki málið, en varanleg lausn næst aðeins með uppgjöri við mafíuna. Það er skerí.

No comments: