30.1.08

Hvar eru nýyrðasmiðirnir?

Kenning mömmu minnar um þjóðfélagsumræður á Íslandi, ætlar að reynast sönn. Einu sinni enn. Kenningin er nokkurnveginn svona: "Í byrjun rís umræðan hátt og stór orð falla, en fljótlega lognast hún út af í langdregnum þrætum um íslenskt mál".

Í gegn um árin höfum við séð ótal staðfestingar á þessari kenningu móður minnar. Gott og nýlegt dæmi er umræðan um hjónaband samkynhneigðra sem fór hátt fyrir nokkru.
Stór orð féllu um mannréttindi, trúarbrögð, synd og syndleysi, umburðarlyndi og eðli. En fljótlega fór umræðan að snúast um orðanotkun: að sama hvað öllum mannréttindum eða prinsippum líði, þá bara gangi alls ekki að nota orðið hjónaband bæði um samband konu og karls og líka um samband tveggja einstaklinga af sama kyni.
Umræðan veltist fram og aftur um þetta nýja sjónarhorn og svo endaði hún með því að ýmsir snjallir nýyrðasmiðir komu fram með tillögur að nýrri orðnotkun. Málið hefur ekki fengið nokkra einustu umfjöllun síðan þá.


Fyrir viku síðan var framið valdarán í ráðhúsinu og það varð allt vitlaust. Fólk hafði hátt og tók sér stór hugtök í munn; lýðræði, valdagræðgi, hagsmunir borgarbúa, spilling, svik, óheilindi osfrv. Öldurnar lægði fljótt og núna snúast áhugaverðustu umræðurnar um orðanotkun borgarstjóra.

Hvort var nú réttara af honum að segjast vera "niðurdreginn" eða "geðveikur"? Átti hann kannski helst að segja þunglyndur? Hvort átti hann að ræða um "heilsufarslegan mótbyr" eða segjast hafa farið í þunglyndismeðferð? Ætli það hafi verið skrifað vottorð upp á "andlegt mótlæti"?

Já, þegar stórt er spurt..... og þegar við bætast heitar umræður um það hvort spaugstofan sé fyndin eða ekki - þá hefur barasta enginn áhuga á umræðum um lýðræði eða pólitísk vinnubrögð. Ég bíð núna eftir að nýyrðasmiðirnir finni einhvern flöt á umræðunni, og þá erum við laus við þetta mál.

Hér er reyndar skemmtilegt blogg um orðanotkun borgarstjóra, skrifað af konu með reynslu.

No comments: