Ég fór og keypti nokkur ljós í bústaðinn um daginn, svona til að það verði ekki allt rússneskt hjá okkur. Fann nokkur ágæt ljós í Húsasmiðjunni og fékk góða aðstoð frá afgreiðslukonunni við að velja rétta stærð af sparperum í þau.
Sparperur eru nefnilega algjörlega málið. Nema þar sem maður ætlar að nota dimmer. Sparpera er alltaf annað hvort on eða off, hún kann ekki að vera neitt þar á milli. Sparperur nota aðeins 25% af orkunni sem venjulegar ljósaperur nota og endast miklu MIKLU lengur. Í staðinn fyrir að skipta um peru einu sinni á ári, þá þarf maður að skipta á 8-10 ára fresti. Venjulegar ljósaperur nota stærsta hlutann af orkunni í að mynda hita, sparperur eru kaldar og nota orkuna nær eingöngu í að búa til ljós. Miklu sniðugra.

Maður heldur alltaf að rafmagnssparnaður í ljósaperum sé svo pínkupons og oggulítill að það taki því ekki að hugsa um það. En ef öll heimili á landinu myndu skipta út tíu venjulegum perum fyrir sparperur gæti orkusparnaðurinn verið um 180 gígavattsstundir á ári. Það er samanlögð orkuframleiðsla Laxárvirkjana. Það er ekkert pínkuponsuoggolítið, heldur alveg heilmikið af orku sem við erum að eyða í algjöru tilgangsleysi.

Borgaryfirvöld í Rotterdam ætla að dreifa sparperum til allra heimila í borginni til að ná fram markmiðum sínum um 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, og borgarbúar munu spara sér 26 milljónir evra í rafmagnsreikning. Danir gerðu sparperuátak fyrir stuttu og stefna nú að því að önnur hver pera á dönskum heimilum verði sparpera.
En, jæja, ég var stödd í húsasmiðjunni með nokkur ljós í fanginu og innblásin af umhverfisvitund bað ég afgreiðslustúlkuna um að redda mér sparperum sem pössuðu í ljósin - sem hún gerði. Ég fór á kassann og borgaði reikninginn, hugsaði reyndar um það á leiðinni út að þessi ljós væru nú ekki ókeypis, en spáði ekkert í það meir. Þangað til ég var komin heim og las reikninginn. Þá sá ég að ég hafði keypt sparperur fyrir meira en 14.000 kr! Sjö perur á yfir tvöþúsundkall stykkið! Gæðasparperur frá Osram kosta bara 500 kall í Bónus, og IKEA selur þetta á einhvern slikk, þannig að þarna er húsasmiðjan alveg úti á túni. Spar.. hvað? Svindlarar. Það er engin furða að sparperuvæðing Íslendinga gangi hægt með svona okri.
Á morgun fer ég í Húsasmiðjuna og skila okursparperunum og kaupi sparperur í Bónus í staðinn. Þetta er bara rugl.