19.2.08

Ljós

Eftir nokkuð framkvæmdahlé í bústaðnum, þá er núna komið að því að taka síðasta langa lokasprettinn. Það er hreint ótrúlegt hvað það er fljótlegt að byggja hús með veggjum og þaki, en að sama skapi grátlega seinlegt að leggja rafmagn, hita og klára allt innanhúss. En þetta mjakast.

Ég fór og keypti nokkur ljós í bústaðinn um daginn, svona til að það verði ekki allt rússneskt hjá okkur. Fann nokkur ágæt ljós í Húsasmiðjunni og fékk góða aðstoð frá afgreiðslukonunni við að velja rétta stærð af sparperum í þau.

Sparperur eru nefnilega algjörlega málið. Nema þar sem maður ætlar að nota dimmer. Sparpera er alltaf annað hvort on eða off, hún kann ekki að vera neitt þar á milli. Sparperur nota aðeins 25% af orkunni sem venjulegar ljósaperur nota og endast miklu MIKLU lengur. Í staðinn fyrir að skipta um peru einu sinni á ári, þá þarf maður að skipta á 8-10 ára fresti. Venjulegar ljósaperur nota stærsta hlutann af orkunni í að mynda hita, sparperur eru kaldar og nota orkuna nær eingöngu í að búa til ljós. Miklu sniðugra.



Maður heldur alltaf að rafmagnssparnaður í ljósaperum sé svo pínkupons og oggulítill að það taki því ekki að hugsa um það. En ef öll heimili á landinu myndu skipta út tíu venjulegum perum fyrir sparperur gæti orkusparnaðurinn verið um 180 gígavattsstundir á ári. Það er samanlögð orkuframleiðsla Laxárvirkjana. Það er ekkert pínkuponsuoggolítið, heldur alveg heilmikið af orku sem við erum að eyða í algjöru tilgangsleysi.



Borgaryfirvöld í Rotterdam ætla að dreifa sparperum til allra heimila í borginni til að ná fram markmiðum sínum um 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, og borgarbúar munu spara sér 26 milljónir evra í rafmagnsreikning. Danir gerðu sparperuátak fyrir stuttu og stefna nú að því að önnur hver pera á dönskum heimilum verði sparpera.

En, jæja, ég var stödd í húsasmiðjunni með nokkur ljós í fanginu og innblásin af umhverfisvitund bað ég afgreiðslustúlkuna um að redda mér sparperum sem pössuðu í ljósin - sem hún gerði. Ég fór á kassann og borgaði reikninginn, hugsaði reyndar um það á leiðinni út að þessi ljós væru nú ekki ókeypis, en spáði ekkert í það meir. Þangað til ég var komin heim og las reikninginn. Þá sá ég að ég hafði keypt sparperur fyrir meira en 14.000 kr! Sjö perur á yfir tvöþúsundkall stykkið! Gæðasparperur frá Osram kosta bara 500 kall í Bónus, og IKEA selur þetta á einhvern slikk, þannig að þarna er húsasmiðjan alveg úti á túni. Spar.. hvað? Svindlarar. Það er engin furða að sparperuvæðing Íslendinga gangi hægt með svona okri.

Á morgun fer ég í Húsasmiðjuna og skila okursparperunum og kaupi sparperur í Bónus í staðinn. Þetta er bara rugl.

8.2.08

Litla systir



Bæði Snæfríður og Sindri dekra litlu systur sína daginn út og inn. Hún fær alltaf að leika með þeim við vini þeirra, henni sjálfri finnst það mjög sanngjarnt - hún lítur á sig sem jafnaldra þeirra allra. Hún fær að dansa og leika í Bratz með stóru stelpunum, leika í bíló með strákunum, og svo eru þau óþreytandi í að leika við hana alls konar smábarnaleiki, eltingaleiki, feluleiki, dúkkuleiki, púsla, kubba og hvaðeina. Hápunkturinn var um daginn þegar Sólveig fékk að fara með þeim út að renna sér á snjóþotu.



Við foreldrarnir þurfum að hafa okkur öll við svo við lendum ekki of neðarlega á vinsældarlistanum hjá þeirri stuttu.

Öskudagur

Venjulega hefur Rimaskóli haft starfsdag á öskudaginn, þannig að börnin geti haft nægan tíma til að ganga í búðir og syngja fyrir nammi - og starfsfólk skólans fær frið á meðan fyrir undirbúningsvinnu. En þetta var ekki svona í ár.

Núna notaði Rimaskóli heimildir sínar fyrir "skertum skóladegi" á öskudag, og það kom bara mjög vel út. Börnin mættu máluð og búningaklædd í skólann kl 8:10 eins og venjulega, og svo var bara slegið upp góðri öskudagsskemmtun í skólanum til kl. 11.
Þá komu Snæfríður og vinkonur hennar hlaupandi heim til að láta keyra sig í Kringluna. Þar gengu þær búð úr búð í klukkutíma og svo skutlaðist ég með þær í nokkur gjafmild fyrirtæki upp á Ártúnshöfðanum á leiðinni heim.
Sindri var sóttur af mömmu vinar hans í skólann, og hún sá um að fylgja þremur félögum búð úr búð, bæði hér í hverfinu og líka upp á Höfða.



Krakkarnir voru hæstánægð með daginn. En mér heyrist að fullorðnir Reykvíkingar almennt hati þennan dag. Blóta í sand og ösku þessum gráðugu nammisníkjandi krakkafrekjum. Snæfríður og vinkonur mættu líka dónaskap í sumum búðum í Kringlunni, starfsfólkið sumsstaðar alveg hundleiðinlegt.

Það er náttúrlega engin hefð fyrir svona öskudegi hér í Reykjavík. Reykvíkingar eru almennt vanir því að aðalspenningurinn á þessum degi snúist um hvort þeim takist að næla öskupoka í vini og nágranna án þess að þeir taki eftir því. Gráðugur nammisníkjandi krakkaskríll hefur einhvernveginn ekki alveg sama sjarmann.

Á Akureyri er sterk hefð fyrir öskudeginum, þar er fólk alið upp við þetta og kann á þetta. Byrjað snemma um morguninn og allt búið um hádegi. Kötturinn sleginn úr tunninni á torginu. Metnaður í búningum og söng.



Mínar öskudagsminningar frá Akureyri eru skemmtilegar. Það var byrjað tímanlega á að safna í stórt og gott öskudagslið. Svo voru haldnar söngæfingar, því flottari og betri söngur - því meira nammi gátum við uppskorið. Búningamálin útheimtu mikinn metnað. Einu sinni vorum við allar persónurnar úr Rauðhettu og Úlfinum, annað skipti kúrekar og indjánar, önnur skipti eitthvað blandað. Allir búningar heimagerðir að sjálfsögðu. Svo var vaknað eldsnemma á öskudag, enginn keyrður neitt, heldur labbað niður í bæ og sungið eftir kúnstarinnar reglum á hverjum stað. Gjarnan lágmark að syngja 2-3 löng lög á hverjum stað, og frammistaðan skipti máli upp á nammiskammtinn. Fastir liðir voru að syngja á Bautanum fyrir franskar, fá pylsur á Kjötiðnaðarstöðinni og gos í Sana. Svona góðgæti fékk maður sko ekki á hverjum degi. Svo var farið heim til einhvers úr liðinu og namminu skipt á milli liðsmanna.

Nammið sem við uppskárum, 5-10 manns í öskudagsliði, eftir metnaðarfullan söng og mikið labb um allan bæ, var svona svipað magn og eitt barn fær núna fyrir 2ja tíma skrepp og keyrslu. Hvergi fengu börnin mín að syngja meira en eitt lag, mjög oft voru þau beðin um að hafa lagið stutt og einstaka staður bara afhenti nammi og afþakkaði allan söng.

Á örfáum stöðum var þeim hrósað fyrir góða framkomu og fallegan söng og þau fengu stundum aukanammi fyrir. Það er einmitt rétta leiðin til að losna við gráðugan nammisníkjandi krakkaskríl. Að setja smá metnað í þetta. Ef Reykvíkingar ætla að halda gleðilegan öskudag, þá þurfa þeir að læra alla hefðina, ekki bara þetta með nammið.