Núna notaði Rimaskóli heimildir sínar fyrir "skertum skóladegi" á öskudag, og það kom bara mjög vel út. Börnin mættu máluð og búningaklædd í skólann kl 8:10 eins og venjulega, og svo var bara slegið upp góðri öskudagsskemmtun í skólanum til kl. 11.
Þá komu Snæfríður og vinkonur hennar hlaupandi heim til að láta keyra sig í Kringluna. Þar gengu þær búð úr búð í klukkutíma og svo skutlaðist ég með þær í nokkur gjafmild fyrirtæki upp á Ártúnshöfðanum á leiðinni heim.
Sindri var sóttur af mömmu vinar hans í skólann, og hún sá um að fylgja þremur félögum búð úr búð, bæði hér í hverfinu og líka upp á Höfða.
Krakkarnir voru hæstánægð með daginn. En mér heyrist að fullorðnir Reykvíkingar almennt hati þennan dag. Blóta í sand og ösku þessum gráðugu nammisníkjandi krakkafrekjum. Snæfríður og vinkonur mættu líka dónaskap í sumum búðum í Kringlunni, starfsfólkið sumsstaðar alveg hundleiðinlegt.
Það er náttúrlega engin hefð fyrir svona öskudegi hér í Reykjavík. Reykvíkingar eru almennt vanir því að aðalspenningurinn á þessum degi snúist um hvort þeim takist að næla öskupoka í vini og nágranna án þess að þeir taki eftir því. Gráðugur nammisníkjandi krakkaskríll hefur einhvernveginn ekki alveg sama sjarmann.
Á Akureyri er sterk hefð fyrir öskudeginum, þar er fólk alið upp við þetta og kann á þetta. Byrjað snemma um morguninn og allt búið um hádegi. Kötturinn sleginn úr tunninni á torginu. Metnaður í búningum og söng.
Mínar öskudagsminningar frá Akureyri eru skemmtilegar. Það var byrjað tímanlega á að safna í stórt og gott öskudagslið. Svo voru haldnar söngæfingar, því flottari og betri söngur - því meira nammi gátum við uppskorið. Búningamálin útheimtu mikinn metnað. Einu sinni vorum við allar persónurnar úr Rauðhettu og Úlfinum, annað skipti kúrekar og indjánar, önnur skipti eitthvað blandað. Allir búningar heimagerðir að sjálfsögðu. Svo var vaknað eldsnemma á öskudag, enginn keyrður neitt, heldur labbað niður í bæ og sungið eftir kúnstarinnar reglum á hverjum stað. Gjarnan lágmark að syngja 2-3 löng lög á hverjum stað, og frammistaðan skipti máli upp á nammiskammtinn. Fastir liðir voru að syngja á Bautanum fyrir franskar, fá pylsur á Kjötiðnaðarstöðinni og gos í Sana. Svona góðgæti fékk maður sko ekki á hverjum degi. Svo var farið heim til einhvers úr liðinu og namminu skipt á milli liðsmanna.
Nammið sem við uppskárum, 5-10 manns í öskudagsliði, eftir metnaðarfullan söng og mikið labb um allan bæ, var svona svipað magn og eitt barn fær núna fyrir 2ja tíma skrepp og keyrslu. Hvergi fengu börnin mín að syngja meira en eitt lag, mjög oft voru þau beðin um að hafa lagið stutt og einstaka staður bara afhenti nammi og afþakkaði allan söng.
Á örfáum stöðum var þeim hrósað fyrir góða framkomu og fallegan söng og þau fengu stundum aukanammi fyrir. Það er einmitt rétta leiðin til að losna við gráðugan nammisníkjandi krakkaskríl. Að setja smá metnað í þetta. Ef Reykvíkingar ætla að halda gleðilegan öskudag, þá þurfa þeir að læra alla hefðina, ekki bara þetta með nammið.
No comments:
Post a Comment