
En núna er annað uppi á teningnum. Hendurnar hennar Sólveigar eru orðnar svo ofboðslega duglegar. Morgunstund með pabba og mogganum snýst upp í skemmdarverk á blaðinu og umfangsmikil þrif á prentsvörtu barni. Róleg sudoku stund í mömmufangi snýst upp í hatramma baráttu um það hver eigi að halda á blýantinum. Og ef Sólveig nær honum, heldur hún fast og sleppir ekki. Sem er nokkuð merkilegt því að á sama tíma er hún orðin alveg ótrúlega klaufaleg við að halda á dóti. Sérstaklega ef hún getur "misst" það úr einhverri hæð. Vel þjálfaðir foreldrar og eldri systkinin eru óþreytandi við að beygja sig eftir dótinu, en úpps! alltaf missir hún það aftur. Alveg óvart að sjálfsögðu.
En við höfum nú reyndar bara gaman að þessu, enda ekkert yndislegra en að fylgjast með börnunum sínum þroskast og dafna vel. Og Sólveig dafnar vel, stækkar og þroskast og líður ótrúlega vel. Sefur allar nætur eins og steinn og hlær og brosir og hjalar á daginn. Yndislegt líf.
No comments:
Post a Comment