
Haustin eru alltaf mjög sérstakur tími í mínum huga. Á haustin eru allir svo uppfullir af krafti og bjartsýni. Fólk ætlar sér virkilega að taka veturinn með trompi. Skólarnir að byrja og allar búðir fullar af námsmönnum að kaupa skóladót fyrir veturinn. Allir ætla þeir að sinna náminu vel, í vetur verður sko alltaf lært heima. Alls staðar hittir maður fólk sem ætlar sér stóra hluti. Í vetur verður sko tekið á því í ræktinni. Í vetur borðum við hollan mat, ekkert skyndidrasl. Kaupum ársmiða í leikhúsið, skráum okkur á spænskunámskeið....... sigrum heiminn. Á haustin er framtíðin svo björt og allt svo auðvelt.
Og við erum svona líka. Ójá. Við hlökkum virkilega til vetrarins og ætlum okkur mikil afrek.
Líklega eru Snæfríður og Sindri smituð af þessari haustbjartsýni.
Snæfríður verður að æfa fimleika, sund, skák og trompett, en dauðlangar líka til að bæta við skautum, fótbolta, körfubolta og skátum.
Sindri verður að æfa fimleika, fótbolta, skák og blokkflautu, en dauðlangar til að bæta við sundi, skautum, handbolta, fólbolta og körfubolta.
Og bæði ætla þau alltaf að fara snemma að sofa og læra heima strax eftir skóla og vera dugleg að æfa sig á hljóðfærin sín. Já, á haustin er allt svo auðvelt.
No comments:
Post a Comment