Ég fékk frábæra viðskiptahugmynd. Slæ tvær flugur í einu höggi. Stórgræði á raforkusölu og virkja þennan leiðinda vindstreng hér bak við hús. Framkvæmdakostnaðurinn við uppsetningu vindmyllunnar er bara 116 þús og arðsemin er 6600 kr á ári. Semsagt, eftir 17,5 ár fer ég að græða. Hljómar vel. Eini gallinn eru fúlu afturhaldssömu nágrannarnir mínir. Eru endalaust að væla um að þetta skemmi útsýni, sé hávaðamengun og eitthvað eru þeir líka að röfla um að fjöldi fugla eigi eftir að drepast við að fljúga á vindmyllublöðin. Þeir skilja ekki hverskonar lyftistöng þetta á eftir að verða fyrir samfélagið hér í Rimahverfinu, þannig að ég held bara mínu striki.
Ég byggi kofa hér í bakgarðinum sem heldur næstum því vatni og vindum og býð kínverjunum að búa þar á meðan þeir vinna að uppsetningu vindmyllunnar. Uss, þeir eru nú ekki svo góðu vanir, þeim finnst þetta bara fínt. Verst að þegar arðsemin var reiknuð aftur, þá lækkaði hún niður í 4400kr. Jæja, ég byrja þá bara að græða eftir 26 ár. Og svo eru kínversku verktakarnir eitthvað að væla um að uppsetingin verði dýrari en þeir héldu. Jarðvegurinn hér bakvið hús er víst svo svakalega sprunginn og það gerir þeim erfitt fyrir. Æ, ég má ekki vera að því að hafa áhyggjur af því núna. Er að fara á fund með Ragga nágranna. Hann vill meina að vindmyllan nái inn á lóðina hans og hann heimtar 100 þúsund fyrir þennan smáskika. Pæliði íðí!
Mér datt þessi samlíking í hug þegar ég las grein í fréttablaðinu eftir Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor við HÍ þar sem hann tiltekur helstu tölur vegna Kárahnjúkavirkjunar. Framkvæmdakostnaður er 116 milljarðar, arðsemin var lækkuð úr 6,6 milljörðum í 4,4 milljarða. Impregilo kemur með bakreikning því kostnaður vegna sprungufyllinga er mun meiri en ætlað var. Og landeigendur fara fram á 100 milljarða vegna vatnsréttinda. Það er gott hvað það er auðvelt að hætta við vindmyllubyggingar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment