Þegar ég stóð í röð við kassann í Hagkaup um daginn dundaði ég mér við að skoða forsíður og fyrirsagnir á glanstímaritunum. Svona til að drepa tímann. Svona til að geta allavega þóst vera með á nótunum um hver sé með hverjum.
Eitt tímaritið auglýsti viðtal við stúlku sem var illa farin af anorexiu. Fyrirsögnin var hádramatísk og með stríðsletri, eitthvað í líkingu við "í klóm átröskunar" eða "nær dauða en lífi vengna lystarstols" eða jafnvel eitthvað enn dramatískara. Enda háalvarlegt umfjöllunarefni.
Undir dramatísku stríðsfyrirsögninni var hinsvegar mynd af gullfallegri stúlku sem beinlínis geislaði af heilbrigði og hamingju. Jú, hún var mjó, en alls ekki "bíaframjó". Bara svona fyrirsætumjó. Glansandi hár, en ekki matt og líflaust anorexíuhár. Geislandi bros út að eyrum en enginn brunninn tannglerungur vegna búlimíuuppkasta. Þetta með "nær dauða en lífi" varð einhvernveginn ekki neitt svaka hræðilegt með þessa fallegu og heilbrigðu og hamingjusömu stúlku í bakgrunninum. Smá svelti til að taka aukakílóin af varð ekkert rosa fráhrindandi tilhugsun, þarna við kassann í Hagkaup. Þökk sé fótósjopp.
Ég held að í hvert einasta sinn sem ég fer í klippingu þá les ég svona viðtal og öll eru þau myndskreytt og fótósjoppuð á sama hátt. Heilbrigði, hamingja og fegurð. Svo flettir maður á næstu blaðsíðu og þar er fjallað um nýjasta skyndimegrunarkúrinn fyrir sumarið. "Að komast í bikíníform á 3 vikum". Eða eitthvað álíka.
Myndir af mjóum fallegum og brosandi stelpum, selja tímarit.
Stríðsfyrirsagnir um hræðilega mannlega harmleiki, selja tímarit.
Þegar þetta tvennt fer saman, þá er von á virkilega góðri sölu.
Ég keypti ekki blaðið.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment