"Ég var á æfingu með synfóníuhljómsveitinni" svaraði sú stutta. "Ha? synfóníu - hvað? " spurði móðirin, sem hefur heyrt ýmsar hugmyndarríkar skýringar á seinkun og gleymsku - en aldrei þessa. Og jú, það kom upp úr dúrnum að meðlimir synfóníuhljómsveitarinnar voru alla þessa viku í Rimaskóla, að vinna með krökkum í einum 6. bekknum við að semja og æfa tónverk. Þau sem kunnu á hljóðfæri notuðu þau, hinir spiluðu á trommur og xylofóna. Nokkrir krakkar úr 5. og 4. bekk fengu þar að auki að vera með, og spila á hljóðfærin sín, og þannig fékk trompetleikarinn hún Snæfríður og bekkjarsystir hennar Svana, að æfa með synfóníunni.
Svo var endað með glæsilegum tónleikum, fyrst spilaði synfóníuhljómsveitin nokkur lög, og enduðu auðvitað með "Á Sprengisandi" og allavega ég fékk gæsahúð, útsetning Páls Pampichlers vekur upp gamlar og góðar minningar. Og svo komu krakkarnir á svið, nokkrir meðlimir synfóníunnar komu sér fyrir inn á milli, til hliðar og bakvið, en krakkarnir fengu sviðsljósið. Þau höfðu notað vikuna í að semja tónverk, þar sem nokkur grunnstef voru endurtekin reglulega í mismunandi hljóðfærahópum, sóló tekin á víxl og svo var allt sett á fullt með öllu genginu á full blast, og svo færðust stefin aftur á milli hljóðfærahópanna. Gæsahúðin gerði aftur vart við sig. Svo voru þau búin að semja nýjan texta við "singing in the rain" og sungu eins og englar: "Á íslensku ég syng", innblásin af degi íslenskrar tungu. Glæsilegt framtak á allan hátt og frábær skemmtun. Skólastarf til fyrirmyndar. Takk fyrir mig og mína!
Glöggir lesendur geta séð að lengst til vinstri á myndinni er fyrrverandi leigusalinn okkar á Kvisthaganum, hann Brjánn fagottleikari, það var óvænt ánægja að hitta hann í skólanum.
Sindri og vinir hans voru mættir í góðu stuði.
Bekkjarsystur Snæfríðar gerðust undir eins barnapíur fyrir Sólveigu, og henni finnst ótrúlega gaman í skóla.
2 comments:
Vá, þetta hefur áreiðanlega verið flott. Var þetta bara núna áðan ?
Já, útsetning Páls Pampichlers er alveg svakalega flott, gefur þessu lagi algjörlega nýja vídd.
Vissi ekki að Brjánn hefði verið leikusalinn ykkar. Er að fara með honum á Hvammstanga á sunnudaginn. Hann er nefninlega rútubílstjóri í frístundum, á dóttur sem heitir Guðrún og er í körfunni með Þórdísi.
Vá, lítill heimur. Já, þið voruð auðvitað í danmörku þegar við bjuggum á Kvisthaganum.En alveg er það nú líkt honum Brjáni að vera í fjölmörgum störfum, kjólfataklæddur fagottleikari í synfóníunni á kvöldin, skyrtuklæddur tónlistarkennari á daginn, rútubílsstjóri í frístundum. Og örugglega eitthvað fleira.
Góða ferð á Hvammstanga :-)
Post a Comment