7.11.07

Vagg og velta


Við Snæfríður eyddum síðustu helgi á fimleikamóti í Vestmannaeyjum. Þetta var alveg ágætis ferð, Snæfríður stóð sig vel í sínum æfingum, góð stemmning í hópnum og þétt dagskrá.

En ojbara hvað það var ekki gaman að sigla með Herjólfi. Á leiðinni út í eyjar varð helmingur liðsins sjóveikur, en líklega varð ábyrga mamman í ferðinni, ég sjálf, einna sjóveikust. Lengst af hékk ég ælandi út fyrir borðstokkinn, svo náði ég að staulast inn fyrir dyr og hékk þar örmagna og ælandi það sem eftir var ferðar. Snæfríður ældi einu sinni og hresstist svo, en var svo hrædd um aumingja sjóveiku mömmu sína, að hún fékk mig til að lofa því að sigla aldrei aftur með Herjólfi. Þannig að ég pantaði fyrir okkur flug heim á sunnudaginn.

Þegar við komum á flugvöllinn komumst við að því að það var ófært vegna veðurs, og sífellt bætti í vindinn. Flugmaðurinn var hálf sorrý yfir þessu, en bauðst til að skutla okkur bara í staðinn niður í Herjólf sem átti að fara á svipuðum tíma. Flott gestrisni hjá eyjamönnum. Og við fórum aftur um borð í Herjólf hryllilega. Ég kom mér fyrir í sæti og hreyfði mig ekki alla ferðina nema bara rétt til að æla, og þraukaði ferðina þannig. Ég skildi Snæfríði eftir í umsjón sjóhraustra fimleikaþjálfara - að ég hélt. En nei, nú varð allt sjóhrausta fólkið líka sjóveikt. Það urðu bara allir sjóveikir. Snæfríður ældi 8 sinnum í ferðinni og lá lengst af bjargarlaus frammi á gangi við klósettin. Óvá hvað við erum ekki gott efni í sjómenn!

Við erum núna rétt að losna við eftirköstin, sjóriðuna, ógleðina, hausverkinn og þreytuna. Og ég get lofað því að ég fer aldrei ALDREI aftur í Herjólf, nema kannski KANNSKI í logni og blíðu. Og bara BARA ef ég á gott erindi út í eyjar.

5 comments:

Grandavegur said...

Þetta hefur nú verið meira ferðalagið.
Flott hvað Snæfríður stóð sig vel á mótinu. Þessi frétt um mótið kom í íþróttafréttum sjónvarpsins
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338477/18

Grandavegur said...

... en áttu ekki einhverjar fínar myndir af fimleikadísinni "in action" ?

Anonymous said...

Þessi frétt kom líka í fréttablaðinu, þar sem var talað um sjóveik börn og foreldra. Mynd af þér ælandi! nei nei en mynd af Herjólfi í mjög úfnum sjó.

ohhh þetta er bara viðbjóður!

Jóhanna said...

Nei, ég var sett á vídeókameru þjálfarans allan tímann og tók samviskusamlega upp allar æfingar hjá öllum stelpunum í Fjölni. Rétt náði að munda mína eigin vél svona á milli atriða.
....já og rétt í byrjun í fyrri Herjólfsferðinni.

... ég held að ef maður flettir upp orðinu sjóveiki í nýjustu orðabókinni, þá sé þar mynd af mér ælandi út fyrir borðstokkinn :-Þ

Hér eftir borða ég fiskinn minn ekki öðruvísin en að hugsa fyrst með ómældri aðdáun til allra hetja hafsins sem lögðu á sig langa sjóferð til að ná í kvikindið.

Grandavegur said...

Jæja, meira blogg á leiðinni ?