19.2.08

Ljós

Eftir nokkuð framkvæmdahlé í bústaðnum, þá er núna komið að því að taka síðasta langa lokasprettinn. Það er hreint ótrúlegt hvað það er fljótlegt að byggja hús með veggjum og þaki, en að sama skapi grátlega seinlegt að leggja rafmagn, hita og klára allt innanhúss. En þetta mjakast.

Ég fór og keypti nokkur ljós í bústaðinn um daginn, svona til að það verði ekki allt rússneskt hjá okkur. Fann nokkur ágæt ljós í Húsasmiðjunni og fékk góða aðstoð frá afgreiðslukonunni við að velja rétta stærð af sparperum í þau.

Sparperur eru nefnilega algjörlega málið. Nema þar sem maður ætlar að nota dimmer. Sparpera er alltaf annað hvort on eða off, hún kann ekki að vera neitt þar á milli. Sparperur nota aðeins 25% af orkunni sem venjulegar ljósaperur nota og endast miklu MIKLU lengur. Í staðinn fyrir að skipta um peru einu sinni á ári, þá þarf maður að skipta á 8-10 ára fresti. Venjulegar ljósaperur nota stærsta hlutann af orkunni í að mynda hita, sparperur eru kaldar og nota orkuna nær eingöngu í að búa til ljós. Miklu sniðugra.



Maður heldur alltaf að rafmagnssparnaður í ljósaperum sé svo pínkupons og oggulítill að það taki því ekki að hugsa um það. En ef öll heimili á landinu myndu skipta út tíu venjulegum perum fyrir sparperur gæti orkusparnaðurinn verið um 180 gígavattsstundir á ári. Það er samanlögð orkuframleiðsla Laxárvirkjana. Það er ekkert pínkuponsuoggolítið, heldur alveg heilmikið af orku sem við erum að eyða í algjöru tilgangsleysi.



Borgaryfirvöld í Rotterdam ætla að dreifa sparperum til allra heimila í borginni til að ná fram markmiðum sínum um 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, og borgarbúar munu spara sér 26 milljónir evra í rafmagnsreikning. Danir gerðu sparperuátak fyrir stuttu og stefna nú að því að önnur hver pera á dönskum heimilum verði sparpera.

En, jæja, ég var stödd í húsasmiðjunni með nokkur ljós í fanginu og innblásin af umhverfisvitund bað ég afgreiðslustúlkuna um að redda mér sparperum sem pössuðu í ljósin - sem hún gerði. Ég fór á kassann og borgaði reikninginn, hugsaði reyndar um það á leiðinni út að þessi ljós væru nú ekki ókeypis, en spáði ekkert í það meir. Þangað til ég var komin heim og las reikninginn. Þá sá ég að ég hafði keypt sparperur fyrir meira en 14.000 kr! Sjö perur á yfir tvöþúsundkall stykkið! Gæðasparperur frá Osram kosta bara 500 kall í Bónus, og IKEA selur þetta á einhvern slikk, þannig að þarna er húsasmiðjan alveg úti á túni. Spar.. hvað? Svindlarar. Það er engin furða að sparperuvæðing Íslendinga gangi hægt með svona okri.

Á morgun fer ég í Húsasmiðjuna og skila okursparperunum og kaupi sparperur í Bónus í staðinn. Þetta er bara rugl.

6 comments:

Anonymous said...

Heyr heyr. Þetta eru bölvaðir glæpamenn og þurfa að fá að heyra það.

Grandavegur said...

Þó að maður reyni að vera meðvitaður neytandi þá er það akkúrat í þessum hlutum sem maður klikkar mest. Maður vandar sig voða mikið við að finna hagkvæmustu kaupin í flestum "alvöru hlutum" sem maður kaupir þ.e. því sem maður ætlar að eiga í einhvern tíma, en klikkar yfirleitt á að kíkja á verðið á litlu hlutunum sem kannski eru síðan dýrari þegar upp er staðið.
En þessi verðlagning á sparperum í húsasmiðjunni er náttúrulega bara alveg út úr kortinu.
Guðrún

Anonymous said...

Það vantar reyndar alveg samanburðinn sem sýnir hvað það er mun óhagkvæmara og meira mengandi að framleiða sparperurnar en þær venjulegu... Man reyndar ekki hvar ég las um það þ.a. ég get ekki sýnt niðurstöðurnar... En það er s.s. ekki nóg að taka bara til minni rafmagnsnotkun við lýsinguna.

kv, Eyrún

Jóhanna said...

Ómæ, nú verð ég að kynna mér þetta... takk Eyrún :-)

Anonymous said...

Hae!
Ju margir nota svoleidis perur i Frakklandi nuna. En rafmagnid okkar kemur adalega ur kjarnorku, uff...

Gaman ad geta filgst med ykkur!

Bestu kvedjur,
Silja franska

Jóhanna said...

Gaman að sjá þig kommenta hér Silja.
Já, Frakkar eru örugglega aðeins lengra komnir en við í umhverfisvitund, líklega af góðri ástæðu.

Mamma þín sendi mér um daginn alveg ægilega sæta mynd af honum Kjartani þínum, hann er nú meira krúttið :-)

Lóla