29.8.06

Græna pappírsbyltingin

Eins og margir vita þá líður tíminn hratt á gervihnattaöld. Sólveig veit það. Og til að minna foreldra sína á þetta, þá dreif hún í að vaxa upp úr vöggunni sinni. Einn morguninn skellihló hún framan í okkur þar sem við stóðum og undruðumst yfir því hversu lítil vaggan væri skyndilega orðin.

Á skömmum tíma fór allt heimilið á annan endann. Litla prinsessan hún Sólveig átti að fá sérherbergi fyrir rimlarúmið sitt. Þurfti bara "smá" tilfæringar með skrifborð og tölvu, já og líka möppur, blöð og bækur sem áður höfðu átt sitt sérherbergi í friði. En smáverkefni eiga það til að verða stór á þessu heimili. Allt í einu vorum við komin í allsherjar pappírstiltekt sem teygði anga sína inn í flesta skápa og skúffur heimilisins og jafnvel líka upp á háaloft. Einhversstaðar þurfti að koma þessum brottræku íbúum herbergisins fyrir.

Í nótt var fyrsta nótt Sólveigar í rimlarúminu í sínu herbergi. Henni líkaði vistin vel. Tölvan og skrifborðið eiga nú athvarf í herberginu okkar. Skápar og skúffur finna fyrir áður óþekktri tómleikatilfinningu. Í endurvinnslutunnunni úti í garði hvílir pappírsfjall. Bráðlega verður það sent með skipi til Svíþjóðar. Þegar það kemur aftur til okkar heitir það Edet eða Tork salernispappír. Það verða ljúfir endurfundir ;-)

No comments: