30.10.06

Gróðurhúsaáhrif


.... ekki allt slæmt við þessi gróðurhúsaáhrif....

En, já, ég er byrjuð aftur að blogga, eftir stutt hlé. Mér sýndist að það væri hvortsemer enginn að lesa, aldrei neinn sem kommentar. En svo fóru mér að berast kvartanir yfir þessu bloggleysi og þá kom í ljós að það eru bara þónokkrir sem kíkja hingað inn. Það gleður mitt gamla hjarta :-)

En það gleður mitt gamla hjarta jafnvel enn meira ef þið, öðru hvoru, ýtið á þar sem stendur "comments" hér fyrir neðan, og er með mynd af blýanti við hliðina. Þar getið þið skrifað hæ eða eitthvað annað að eigin vali. Það er auðveldast fyrir ykkur að velja "other" valmöguleikann til að kvitta fyrir ykkur :-)

Svo er ég búin að setja skemmtilega linka hér við hliðina. Einn ef þú vilt bjarga umhverfinu, annan ef þú vilt bjarga hungruðum heimi. Þriðji linkurinn er fyrir þá sem vilja skoða dönsk sumarhús og sá fjórði fyrir þá sem vilja vita eitthvað um tónlist.

Góðar stundir

Stök bára


Jæja, þá er ballið byrjað. Sólveig er með hálsbólgu, eyrnabólgu og astma.

Hún náði sér í einhverja pest um miðja síðustu viku, en virtist ætla að láta sér batna af henni. En aðfararnótt sunnudags var hitinn aftur farinn að hækka og komin greinileg astmahljóð í hana, þannig að við drifum hana til læknis um morguninn. Hún brosti og hló framan í lækninn sem spurði forviða hvort barnið væri ekkert pirrað í þessum veikindum. "Jú, hún er kannski í aðeins minna sólskinsskapi en venjulega, játaði mamman". En reyndar átti sólskinsskapið eftir að minnka enn þegar leið á daginn, og astminn og eyrnabólgan urðu erfiðari og sárari. Henni fannst vissara í þessari stöðu að vera allan daginn í mömmufangi.

Auðvitað fékk hún lyf við þessu öllusaman sem eru farin að virka vel og hún er núna á góðum batavegi og sólskinsskapið hennar aftur á uppleið. Núna vonum við bara að þessi pest sé stök bára, ekki byrjunin á miklum öldugangi.

28.10.06

5 mánaða og einnar viku gömul


Já, Sólveig er ekkert að slóra. Núna er hún búin að finna upp á nýjum og skemmtilegum leik.

Þegar hún situr á gólfinu hallar hún sér fram og smellir sér upp á 4 fætur. Ruggar sér fram og aftur hissa og ánægð með sig og smellir sér svo niður á magann. Þar veltir hún sér og snýr sér í allar áttir og endar með að komast út af stóra mjúka teppinu sem ég legg hana alltaf á. Og þá byrjar stuðið.

Þegar hún er laus af þessu leiðinda teppi byrjar hún að gera ótal armbeygjur og snúninga. Og er komin á fleygiferð.... eða svona eins og 5 mánaða ungbörn geta verið á fleygiferð. Allavega er það þannig að ég get ekki lengur treyst því að finna hana aftur á sama stað og ég lagði hana niður á. Eini gallinn við þetta er að hún kann bara að bakka. Armbeygjurnar óteljandi færa hana alltaf lengra og lengra frá dótinu sem hún er að reyna að ná í, og það finnst henni frekar pirrandi.

Armbeygjur á tánum


Litli íþróttaálfurinn hún Sólveig er farin að gera armbeygjur á tánum. Ef hún heldur þessu áfram þá verða í næsta mánuði teknar armbeygjur á annarri hendi, heljarstökk með skrúfu og splittstökk.

Söngur Sólveigar














Sólveig ótrúlega dugleg að leika sér. Henni finnst frábært að fá að sitja eða liggja á teppi á gólfinu með fullt af hringlum og dóti í kring um sig. Þannig unir hún sér löngum stundum við að velta sér, sprikla, naga, slefa, hrista, telja tær, skoða putta og úa og gúa. Nýjasta nýtt er ííííí.... ógurlegir hátíðniskrækir.

Erum við eitthvað lík?

Gítarsnillingar

Matartími


Sólveig tekur ekki annað í mál en að fá að sitja til borðs með fjölskyldunni. Hún fylgist mjög áhugasöm með borðsiðum hinna stærri, en fær greyjið ekkert að borða sjálf. Að vera eingöngu á brjósti í 6 mánuði er nefnilega, samkvæmt nýjustu rannsóknum, góð forvörn gegn ofnæmi, exemi, astma, eyrnabólgum og óþoli.

Þrátt fyrir að heimilisfólk hér sé dags daglega hreystin uppmáluð og til fyrirmyndar að öllu leiti, þá erum við óttalegir ofnæmispésar. Hér er astmi, gróðurofnæmi, mjólkuróþol, exem og eyrnabólgur. Þetta eru genin sem hún Sólveig litla fékk, og því er það á sig leggjandi að taka þátt í öllum hugsanlegum forvörnum.

Hún varð óttalega svöng um 4ra mánaða aldurinn, tók mikinn vaxtar og þroskakipp og mjólkin mín fylgdi því ekki alveg eftir. Mig klæjaði í fingurna að gefa henni graut, skoðaði grautarhillurnar í Hagkaup eins og ég væri alki í ríkinu. Við stóðum þetta nú samt af okkur, mjólkurframleiðslan mín tók kipp þegar ég fór að bryðja kalktöflur, og Sólveig varð aftur södd. Hún hefur nú samt ekki aftur náð því að sofa södd í 11 tíma á nóttu, eins og hún var vön. En á meðan ég hef einhverja von um að ég sé að fækka hugsanlegum eyrnabólgu andvökunóttum síðar, þá gef ég næturgjafir með glöðu geði.

4ra mánaða og einnar viku gömul byrjuð að sitja

5.10.06

Jakkalakkar

Um daginn fóru Snæfríður og Sindri með mér niður í bæ og við gengum með Ómari. Þegar við keyrðum heim síðla kvölds sátu þau systkinin í rökkrinu í aftursætinu og rökræddu heimspekilega um stríð, frið, náttúruvernd og lýðræði. Þau kunnu öll svörin við vandamálum heimsins.

Snæfríður sagðist ætla að verða forsætisráðherra og ráða öllu landinu. Þá myndi hún sko hætta við þessa virkjun. Sindri bætti um betur og sagðist ætla að ráða yfir öllum heiminum og hætta við virkjun og stoppa öll stríð og fátækt og hungur. Svo kom löng þögn. Svo sagði hann. "Mamma þið verðið að kaupa handa mér jakkaföt". "Og líka bleika skyrtu með svörtum röndum". "Strákar mega alveg vera í bleiku, er það ekki? "