28.10.06

Matartími


Sólveig tekur ekki annað í mál en að fá að sitja til borðs með fjölskyldunni. Hún fylgist mjög áhugasöm með borðsiðum hinna stærri, en fær greyjið ekkert að borða sjálf. Að vera eingöngu á brjósti í 6 mánuði er nefnilega, samkvæmt nýjustu rannsóknum, góð forvörn gegn ofnæmi, exemi, astma, eyrnabólgum og óþoli.

Þrátt fyrir að heimilisfólk hér sé dags daglega hreystin uppmáluð og til fyrirmyndar að öllu leiti, þá erum við óttalegir ofnæmispésar. Hér er astmi, gróðurofnæmi, mjólkuróþol, exem og eyrnabólgur. Þetta eru genin sem hún Sólveig litla fékk, og því er það á sig leggjandi að taka þátt í öllum hugsanlegum forvörnum.

Hún varð óttalega svöng um 4ra mánaða aldurinn, tók mikinn vaxtar og þroskakipp og mjólkin mín fylgdi því ekki alveg eftir. Mig klæjaði í fingurna að gefa henni graut, skoðaði grautarhillurnar í Hagkaup eins og ég væri alki í ríkinu. Við stóðum þetta nú samt af okkur, mjólkurframleiðslan mín tók kipp þegar ég fór að bryðja kalktöflur, og Sólveig varð aftur södd. Hún hefur nú samt ekki aftur náð því að sofa södd í 11 tíma á nóttu, eins og hún var vön. En á meðan ég hef einhverja von um að ég sé að fækka hugsanlegum eyrnabólgu andvökunóttum síðar, þá gef ég næturgjafir með glöðu geði.

No comments: