1.3.07

Dýragarðsferð



Hér á eyjunni Fuerteventura er ekki margt að sjá. Eyjan er í raun ekkert annað en endalaus eyðimörk og eyðimerkurfjöll. Ekki ósvipað hálendi Íslands - ef maður horfir með því auganu. Litlu fjallaorpin eru mjög lítil, bara 10 hús eða svo, og ekkert kaffihús eða veitingahús. Bara kofar. Strandbæirnir stækka hins vegar með hverjum deginum og verða sífellt glæsilegri. Bærinn sem við erum, Caleta de Fuste, var bara 10 húsa þorp fyrir örfáum árum og stækkar mjög hratt.

Á eyjunni leynist hins vegar frábær dýragarður. Inngangurinn er lítill og borulegur og erfitt að rata um litla og krókótta stíga garðsins. Enginn commercial hringferð í boði nei. En upplifunin er æði. Næstum eins og að vera komin í alvöru hitabeltisfrumskóg. Löbbum inn í risastórt búr og þræðum þröngan stíg á meðan skrautlegir hitabeltisfuglar fljúga frjálsir í kring um okkur.

Næst tekur við krókódílasýning, svo páfagaukasýning, svo hálftíma fjallaferð á úlfaldabaki, svo heimsókn auglitis til auglitis við gíraffana. Og fullt af fleiri dýrum. Gott og gaman að sjá hversu vel er búið að dýrunum í þessum garði.

No comments: