16.3.07

Nýtt leikrit: "Ungbarnaeftirlitið"

Leiksviðið: Stórt, hlýlegt og vel búið herbergi á heilsugæslustöð. Stór rugguhestur á miðju gólfi, barnaleikföng í einu horni og barnamyndir á veggjum. Úti í einu horninu er skrifborð með tölvu og þar situr hvítklæddur hjúkrunarfræðingur. Við hliðina á skrifborðinu er barnavigt og skiptiborð með áföstu málbandi.

1. Þáttur
Móðir: Kemur inn í stofuna með barn á handleggnum.
Hjúkrunarfræðingur: "Hvernig gengur?"
Móðir: "Vel"
Hjúkrunarfræðingur: Flettir upp í tölvunni og skrifar eitthvað inn.
Móðir: Sest í stól
Barn: Stendur hjá móður sinni og gengur óstyrkum skrefum í átt að rugguhestinum

2. Þáttur
Barn: Hefur tekist að ganga að rugguhestinum og stendur nú þar og ruggar hestinum fram og til baka og skríkir hátt.
Hjúkrunarfræðingur: "Er hún farin að geta setið óstudd úti á gólfi einhverja stund".
Móðir: Hikar aðeins.... "Já, já. Hún er að byrja að labba".
Hjúkrunarfræðingur: Merkir við í tölvunni. "Er hún farin að skríða eitthvað um? "
Móðir: "Ha? jújú, fyrir löngu.
Barn: Byrjað að klifra upp á rugguhestinn og hefur tekist að koma öðrum fætinum upp á hann.
Hjúkrunarfræðingur: Merkir við í tölvunni. "Getur hún togað sig upp í standandi stöðu?"
Móðir: Örlítið pirruð. "Já"
Hjúkrunarfræðingur: Enn niðursokkin í tölvuna. "Og er hún byrjuð að taka einhver skref, ganga meðfram? "
Móðir: Lítur á barn sitt sem hefur tekist að klifra upp á rugguhestinn og ruggar sér nú þar. Lítur á hjúkrunarfræðinginn sem enn fylgist spennt með spurningalistanum í tölvunni. "Já".

7 comments:

Anonymous said...

Þetta lofar góðu - ég bíð spennt eftir fleiri þáttum og hvað gerist áður en tjaldið fellur - mun hjúkrunarfræðingurinn slíta augun af tölvunni og líta á barnið ?

Anonymous said...

Hahaha mjög pædagogisk!!!

HB

Anonymous said...

Ég hefði ekki haft þolinmæði til að bíða svona lengi til að stoppa hjúkkuna af í ruglinu og er þó með þolinmóðari mönnum. En þetta hefði þá heldur ekki orðið svona skemmtilegt
GHJ

Anonymous said...

Frábært, svona á þetta að vera. Hún verður að vita hvort barnið hafi kannski hoppað yfir einhver mikilvæg þroskastig...

RHG

Anonymous said...

Gerðist þetta í alvörunni????

Jóhanna said...

Já, þetta er sönn saga. Ég á meiraðsegja alveg eftir að ýkja!

Unknown said...

Frábært leikrit. Vantar kannski eitt, tvö lög með krúttkynslóðarhljómsveit og þá verður þetta sett upp í Þjóðleikhúsinu. Takk fyrir síðast.. KPJ