25.3.07

Supersize me

Munið þið eftir því þegar stóru gosflöskurnar komu fyrst? Stóru einslítra glerflöskurnar? Maður var bara alveg gáttaður, vóó, ótrúlega mikið af gosi. Fram að því höfðu stærstu gosdraumar manns rúmast í einni lítilli kók eða appelsín - drukkið í gegn um gosblautt lakkrísrör - mmmmmm.... Og ég man eftir því þegar pabbi kom fyrst heim með stórar gosflöskur, eina stóra kók og eina stóra appelsín. Okkur krökkunum fannst við svoleiðis veltast um í vellystingum. Ég held samt að þessi gosskammtur hafi dugað fimm manna fjölskyldu bæði yfir jól og áramót.

Núna þarf meira til að ganga fram af manni heldur en tveir lítrar af gosi. Allt er orðið stærra. Súkkulaðistykkin eru orðin stærri. Ef maður kaupir sér prins póló fær maður XXL Prins póló, nema maður biðji sérstaklega um lítið. Mars og snickers hafa líka stækkað, lakkrísdraumur og rís súkkulaði í upprunalegri stærð er bara eins og fyrir dverga, og þristurinn- hann hefur allavega tvöfaldast í stærð. Við höfðum nóg, en núna höfum við allt of mikið. Við vorum vel nærð, núna erum við ofalin. Ameríski draumurinn. Stórfyrirtækin græða á tá og fingri, en offeitur og vansæll almúginn heldur áfram að kaupa og kaupa.

Munið þið eftir myndinni þar sem gaurinn át frá sér heilsuna á McDonalds. Alltaf þegar hann var spurður hvort hann vildi fá supersize skammt þurfti hann að þiggja það - og klára matinn sinn. Þannig erum við. Ef okkur er boðin stækkun þá þiggjum við hana, jafnvel þótt við séum ekkert svöng, jafvel þótt við séum offitusjúklingar. Í Straumsvík er álver. Má bjóða ykkur þrefaldan skammt? Já, takk. Jafnvel þótt engan vanti vinnu? Já, takk! Jafnvel þótt stóriðjuframkvæmdirnar séu að hrekja hátækniiðnaðinn úr landi? Já, takk! Jafnvel þótt afborganir af húsnæðislánunum okkar hækki? Já takk!!! Jafnvel þótt loftmengun aukist? Já, takk, takk, takk!!!

Eini munurinn er að á McDonalds getur maður afþakkað risamáltíðina og keypt sér lítinn borgara ef maður vill. Í Hafnarfirði er fólki hótað að ef það éti ekki allan skammtinn sinn af risaborgara, risafrönskum og risakóki, þá verði sjoppunni bara lokað og enginn fái nokkurn tímann aftur að éta.

7 comments:

Anonymous said...

Góður pistill

Anonymous said...

verður hægt að kjósa þig í vor?
A

Anonymous said...

Þetta er mjög vel að orði komist.
Kveðja, SÓL.
(samt ekki SÓL í Hafnarfirði eða Hvalfirði).

Jóhanna said...

úllalla... bara kominn naflaus lesandi á síðuna. Nafnlaus lesandi sem vill meiraðsegja kjósa mig. Þetta er örugglega hápunkturinn í blogglífi mínu og ég er djúpt snortin. Ótrúlega spennó. Takk kæri anonymous.
En nei, það verður ekki hægt að kjósa mig í vor.

Anonymous said...

já, þetta er mjög spennandi .... En, þó að það verði ekki hægt að kjósa þig í vor þá máttu nú ekki alveg drepa niður allar vonir anonymous - þú verður allavega í framboði í haust til bekkjarfulltrúa er það ekki ?

Smooth Salvatore Bruno said...

Ég veit ekki með þig, en ég gæti alveg lifað án þess að fá nokkurn McDonalds... Fari þeir sem fara vilja osfv. Ég held að það verði engin vandræði með störf handa fólki og nóg er um þá sem hafa áhuga á ódýrri orku ef þörf er á að koma henni út.

Anonymous said...

Þetta er eitthvað í þjóðarsálinni. Ég held að þorri fólks upplifi þetta sem þeir séu að græða pjéning með því að borga 50 kall meira fyrir stærri skammt. Kitlar nískugenið í fólki. Fær MIKLU MIKLU meira fyrir pjéninginn.