29.6.07

Apagarðar





Apagarðarnir slógu í gegn. Krakkarnir voru orðin þaulvön í að festa og losa líflínur og renna sér niður línur á púllíum, klifra upp net, skríða í gegn um rör, fikra sig áfram á köðlum, renna sér á snjóbretti sem hékk í línu og allt þetta í margra metra hæð.
Mömmuhjartað mitt hefði líklega ekki meikað það að horfa á börnin glannast svona, nema af því að ég prófaði þetta sjálf. Ótrúlega gaman, og tvöfalt öryggislínukerfi róaði mömmuhartað nógu mikið til að senda börnin í alls konar háloftafimleika með bros á vör.



27.6.07

Piriac




Við nutum gestrisni Sallé hjónanna áfram, þegar við dvöldum vikulangt í húsi þeirra í Piriac. Sá bær er mjög sjarmerandi, smábær við ströndina á Bretagne skaganum, hófleg ferðamennska, vinalegt fólk, góðir veitingastaðir, nóg við að vera og margt að skoða. Falleg bátahöfn, krúttlegur miðbær, flott sandströnd. Góðar galettur og crepés.

Frábærar móttökur í París



Það eru hugrakkir gestgjafar sem bjóðast til þess að taka á móti öllum þessum hópi í mat og í gistingu. Og þvílíkar móttökur hjá Siggu og Michel. Það var stjanað við okkur á allan máta og núna vilja börnin helst bara flytja til Parísar, eru viss um að Sigga myndi skjóta skjólshúsi yfir þau. Móttakan á flugvellinum og leiðsögnin í Parísarumferðinni- létta miðnæturhressingin fyrsta kvöldið, sælkeraveislan næsta kvöld og fordrykkurinn úti í garði með nágrönnunum - klassíski franski morgunverðurinn, og svo endalaus yndislegheit þeirra hjóna. Hvað get ég meira sagt. Alveg frábært! Takk fyrir okkur.

Versalir




Við byrjuðum Frakkklandsreisuna okkar á að skoða höll Lúðvíks 14 í Versölum. Ótrúlegt mannvirki og gyllingarnar og íburðurinn fékk mann til að finna til með almúganum sem stóð fyrir utan hallarhliðin og kallaði "við viljum brauð". Og aumingja veruleikafyrrta drottningin hún María Antoinetta skildi ekkert í þessu og spurði, "af hverju borða þau bara ekki kökur?"

5.6.07

Krútt

Ég dreif mig loksins í myndatöku með fallegu börnin mín. Meira síðar.

Á undan áætlun...


... er hugtak sem ekki er til í íslenskri framkvæmda- og iðnaðarmanna orðabók.

Hins vegar virðist þetta vel þekktur frasi í danmörku, hefur líklega borist þangað með Germönskum mönnum.

Danirnir ætla að afhenda sumarbústaðinn tveimur MÁNUÐUM á "undan áætlun", semsagt í sumar, en ekki seint í haust. Hér er allt á full swing við alls konar undirbúning, að redda byggingarleyfi, setja út húsið, fá menn í að grafa grunn, steypa grunn, leggja lagnir ofl í tæka tíð þannig að við getum tekið á móti húsinu.

Í íslenskri orðabók er sem betur fer mjög vel þekkt orðasamband "þetta reddast". Frasinn fyrirfinnst ekki í danskri orðabók, en það er líka allt í lagi.

Mikið að gera á stóru heimili




Hún Sólveig á mjög annríkt þessa dagana. Það er svo margt sem hún þarf að gera. Á morgnana þarf að kanna öll herbergin á efri hæðinni og endurskipuleggja. Á hverjum degi raðar hún hlutunum eins og henni finnst að þeir eigi að vera, en á hverju kvöldi breyta mamma og pabbi því til baka þannig að hún þarf að byrja upp á nýtt næsta morgun. Sólviegu finnst til dæmis að bílarnir hans Sindra eigi að dreifðir í alla skápa og skúffur á baðinu, sundgleraugu í nærfataskúffu mömmu, verðlaunapeningar Snæfríðar inni í þvottahúsi og svona má lengi telja. En Sólveig tekur þessu af miklu jafnaðargeði og gengur rösklega til verks á hverjum morgni.

Eftir morgunmatinn hefst hún svo handa við að endurskipuleggja neðri hæðina, en þar er það sama sagan, alltaf búið að breyta öllu til baka á hverju kvöldi. Það þarf að setja lítinn kubb ofan í skó í forstofunni, það þarf að sækja hjólahjálm og drösla honum nokkra hringi um stofuna, það þarf að opna alla skápa og skúffur í eldhúsinu og athuga hvort eitthvað megi betur fara í skipulaginu þar.