29.11.07

Bleikt og blátt

Fyrir nokkru var gerð rannsókn úti í heimi. Helmingur nýfæddra barna á fæðingardeild var klæddur í blátt og hinn helmingurinn í bleikt, jafnmargar stelpur og strákar voru í bleiku, og það sama gilti um bláa litinn, jafnmargar stelpur og strákar klæddust honum. Og svo var hegðun fullorðna fólksins skoðuð.

Bláklæddu börnin þóttu alveg sérstaklega hraustleg, kröftug og sterkleg og það var hnoðast meira með þau.
Bleikklæddu börnin þóttu alveg sérstaklega sæt, ljúf og róleg og það var farið með þau eins og postulínsdúkkur.

Merkilegt? Eða hvað?

Hversu stór hluti af kynjamuninum er meðfæddur og skrifast á mismunandi hormónabúskap? Og hversu stór hluti orsakast af félagsmótun frá unga aldri svo maður falli inn í rétt kynhlutverk? Þetta er bara ómögulegt að vita.



Það myndi líklega ekki hafa úrslitaáhrif á þróun jafnréttis þótt öll börn yrðu klædd í litríka röndótta galla við fæðingu í stað þeirra bleiku og bláu? En allavega yrði það svona smá "statement" um að við gerum okkur grein fyrir að stór hluti af félagsmótuninni er ómeðvitaður, og að við ætlum aðeins að hugsa okkur um hvaða gildi við innprentum börnunum okkar.

Og mér þætti það alveg óendanlega gaman, ef tækist að breyta viðhorfum samfélagsins, þannig að hefðbundnir "kvenlegir" eiginleikar myndu fá uppreisn æru og verðskuldaða virðingu, alveg eins og hefðbundnir "karllegir" eiginleikar hafa. Þá myndi maður aldrei aftur fá kjánahroll þegar foreldrar lýsa því yfir hlæjandi og stoltir að stelpan þeirra sé sko algjör strákastelpa, alltaf skítug upp fyrir haus og í slagsmálum við strákana, og viðmælendurnir slá á bakið á þeim og segja "flott, sú er dugleg". Á meðan strákaforeldrarnir segja hljóðlega "jah, strákurinn okkar er voða rólegur, finnst mest gaman að föndra og leika sér með dúkkur" og það slær þögn á mannskapinn. Eftir vandræðalegu þögnina spyr einhver áhyggjufullur "eruð þið búin að prófa að setja hann í fótbolta?".

En fyrirspurn Kolbrúnar á Alþingi er samt á villigötum, kannski svosem ekki í fyrsta sinn sem þingmenn eiga erfitt með að átta sig á starfsvettvangi sínum og rugla saman löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi. Eða finnst henni að Alþingi eigi að lögfesta reglur um klæðnað á Landspítalanum? Eigum við þá ekki í leiðinni að banna forljóta stimpilinn á öllum nýfæddum börnum "Eign þvottahúss ríkisspítalanna"? Það væri sko þjóðþrifamál! Eða þannig...

Samt er líka ömurlegt hvernig þessi vanhugsaða fyrirspurn vindur upp á sig. Nú keppast allir við að tala um hversu gagnslausar þessar þingkonur okkar séu, "- og erum við að borga þeim fyrir þetta! fuss!", "þessar konur á þingi ættu að fara að einbeita sér að einhverjum almennilegum málum!" osfrv. Alveg eins og þetta sé í fyrsta sinn sem einhver leggur fram bjánalega fyrirspurn á Alþingi. Aldrei heyrir maður sagt þegar Árni Johnsen skandaliserar eitthvað "þessir þingkarlar okkar eru alveg gagnslausir, ættu bara að hypja sig aftur heim til sín allir með tölu!". Neibb, svona er bara sagt um konur.

En samt pínu leiðinlegt hvernig málið er tilkomið, ef hún Kolbrún hefði skrifað blaðagrein um málið, eða sent erindi til landspítalans um spítalafatnað, þá hefði ég stutt málið heilshugar, því mér finnst að við megum alveg setja upp gleraugun og skoða þessa ómeðvituðu félagsmótun í kynhlutverkin og hvernig við gildishlöðum hefðbundna "kvenlega" og "karlega" eiginleika. En mér finnst samt klæðnaður ungbarna á landspítalanum ekki vera málefni löggjafarvaldsins, só sorrí.

7 comments:

Anonymous said...

Ég er alveg sammála þér með það að svona mál eigi ekki að vera á borðum alþingis, þótt gott sé að vekja upp umræðu, en ég get nú sagt þér það að ég hef ætíð haldið því fram að Árni Johnsen eigi ekkert erindi á þing... Óháð því hvort hann sé kona eða karl.

Anonymous said...

Það má ábyggilega deila um það hvort Alþingi sé rétti vettvangurinn fyrir þetta mál.
Hinsvegar finnst mér umræðan góð og gagnleg.
Er samt að hugsa um hvernig þetta muni þróast yfir í deilur um málfræði, samanber kenning tengdamóður minnar.

Annað. Ég vil biðja menn um að hallmæla ekki þingmönnum suðurlands, sem eru hver öðrum betri. Sérstaklega er ég viðkvæmur fyrir ákúrum á Á. Johnsen, sem er með eindæmum duglegur og orðvar.

Anonymous said...

Ég er sammála því að klæðnaður ungbarna er tæplega verðugt málefni fyrir hið forna Alþingi Íslendinga. Hins vegar finnst mér öll umræða um málið góð, þó mér finnist kannski að of mikið sé gert úr áhrifum þessara tveggja til fjögurra daga sem börnin eru á spítlanum á upplifuð kynhlutverk þeirra síðar í lífinu. Þetta er nefninlega fyrst og fremst á ábyrgð foreldra og umræða um þetta ætti t.d. heima í foreldrafræðslunni.

Anonymous said...

Ég er reyndar sammála fyrrum flokksbróður ( ? veit ekki um hans pólitísku staðsetningu nú) Kolbrúnar, Árna Steinari sem sat á Alþingi um skeið fyrir VG um það að hlutverk Alþingis eigi fyrst og fremst að vera, að setja góð og skynsamleg lög. Það er ekki skynsamlegt að Alþingi setji lög um klæðaburð eins eða neins. Það er hins vegar full þörf á almennri umræðu um skynsemi þess að flokka fólk (börn og fullorðna) eftir kyni, búsetu, litarhætti,þjóðerni, aldri,trú, klæðaburði, osfrv.(og setja svo einhverja merkimiða á.)
Kenningin um að umræða um málefni á Íslandi endi fyrr eða síðar í deilum um málfræði og málskilnig er ekki frá mér komin, ég las þetta einhversstaðar. Þetta á bara eftir að koma í ljós.
ÞGS

Anonymous said...

Þetta fannst mér alveg einstaklega góður pistill hjá þér Lóla mín, enda sjálf búin að hugsa um þetta. Ég er alveg sammála Kolbrúnu og verð að viðurkenna að þessi bleik/bláa flokkunarfræði hefur alltaf farið fyrir brjóstið á mér. Náði reyndar vissu hámarki í apótekinu þegar ég var að undibúa komu litlu dótturinnar og var m.a. að kaupa naglaklippur. Þær voru bara til í bleiku eða bláu. Kolbrún má hinsvegar eiga það að hún er alveg einstaklega óheppin með framsetningu. Það sem hún vill segja er í eðli sínu ágætt, en hvernig og hvar hún segir hlutina er oft meira svona ahaaaaaaaaaa!!!!

Anonymous said...

Gleymdi að kvitta. SJ

Anonymous said...

Oi, achei seu blog pelo google está bem interessante gostei desse post. Gostaria de falar sobre o CresceNet. O CresceNet é um provedor de internet discada que remunera seus usuários pelo tempo conectado. Exatamente isso que você leu, estão pagando para você conectar. O provedor paga 20 centavos por hora de conexão discada com ligação local para mais de 2100 cidades do Brasil. O CresceNet tem um acelerador de conexão, que deixa sua conexão até 10 vezes mais rápida. Quem utiliza banda larga pode lucrar também, basta se cadastrar no CresceNet e quando for dormir conectar por discada, é possível pagar a ADSL só com o dinheiro da discada. Nos horários de minuto único o gasto com telefone é mínimo e a remuneração do CresceNet generosa. Se você quiser linkar o Cresce.Net(www.provedorcrescenet.com) no seu blog eu ficaria agradecido, até mais e sucesso. If is possible add the CresceNet(www.provedorcrescenet.com) in your blogroll, I thank. Good bye friend.