24.5.07

Bjánar



Hverjir hafa mestan áhuga á spiderman?

Jú, litlir strákar. Svona þriggja, fjögurra ára og upp í svona níu til tíu ára. Þeir yngstu vilja helst af öllu vera í spæderman alklæðnaði upp á hvern einasta dag og leika sér í spæderman leikjum daginn út og inn. Svo minnkar æðið ár frá ári smám saman og spæderman merktu flíkunum í fataskápnum fækkar og spæderman dót og leikir þykja alltof barnalegir.

Þegar nýjasta spæderman myndin kemur í bíó er ótrúlegur spenningur í smástrákahópnum. Vinsælasta ofurhetjan í nýrri bíómynd, og þeir ætla sko allir að fara.

En hvað? Myndin er bönnuð innan 10 ára! Semsagt allir mega fara að sjá myndina sem eru vaxnir upp úr spædermanæðinu. Allir áhugasömustu áhorfendurnir, allt frá litlu búningaklæddu ofurhetjudrengjunum upp að nýlæsum áskrifendum spædermanteiknimyndablaðsins verða að sitja heima. Hver er eiginlega pælingin með þessu? Er ekki eitthvað orðið bogið við kvikmyndaiðnaðinn þegar barnahetjumyndirnar eru orðnar svo ljótar að það þarf að banna þær börnum?

23.5.07

Hið ljúfa líf


Sólveigu finnst ótrúlega gaman að fá að borða sjálf með gaffli eða skeið, hún skríkir af gleði þegar hún mundar gaffalinn og ber hann frá diski að munni. Að vísu hefur gaffallinn stundum viðkomu í hárinu, í peysunni, á gólfinu og já stundum fer diskurinn líka í smá ferðalag, en það spillir nú ekki gleði Sólveigar. Aldeilis ekki.

Hún Sólveig hefur reyndar mjög gaman af því að leika alls konar kúnstir. Hún bendir samviskusamlega á rétta staði þegar hún er spurð um staðsetningu á tönnum, hári, tungu, tám og maga. Aðspurð um það hvað hin ýmsu dýr segja, svarar hún af mikilli innlifun "tsss buuu" (semsagt öll dýr eru kisur og baula - eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis í dýrafræðikennslunni) Já og svo kann hún að fara í feluleik, bæði með því að fela andlitið og svo að fela sig alla, og nýlega kenndi Sindri henni líka eltingaleik.

Úti á palli leikur hún sér með bolta, kerru, fötur, skóflur og eldavél og kallar reglulega á kisu. Inni keyrir hún um á maríubjöllunni sinni, klifrar upp á allt sem hún mögulega getur, opnar og lokar skúffum og skápum, færir hluti á milli staða (= ruslar til), skoðar bækur, knúsar bangsana sína og dúkkurnar, gefur þeim pela og snuddu, sækir kodda og lúrir hjá þeim og dæsir makindalega ahhhh.

Skemmtilegast er þegar Sindri og Snæfríður koma heim með vini sína og húsið er fullt af börnum. Þau eru nefnilega ótrúlega dugleg að leyfa Sólveigu að vera með. Hún hefur tekið þátt í æsispennandi vítaspyrnukeppni úti í garði, leikið sér í bratz, bíló og búningaleik, verið statisti í danssýningu, krítað úti á palli og margt fleira. Já, lífið er ljúft.

Ahhh



Sólveig kunni vel að meta pakkana sem hún fékk í tilefni fyrsta afmælis síns. Hún fékk góða aðstoð frá systkinum sínum við að rífa utanaf þeim og hafði ekki minna gaman af bréfinu og pakkaböndunum heldur en innihaldinu sjálfu. Þegar hún fékk svo þennan stóra pakka þá þurfti hún aðeins að leggja sig, og segja ahhhh. Greinilega voða notalegt að leggja sig ofan á stórum afmælispakka.

En þetta var nú bara rétt upphitun, því von er á meira pakkaflóði um næstu helgi þegar verða hátíðarhöld í tilefni eins árs afmælis litlu dekurrófunnar.

Orðabók Sólveigar


Mamma - Þýðir mamma, en einnig sjáðu, komdu, ég vil og ýmislegt fleira.
Baba - Þýðir pabbi
Dædæ eða dædíuh - þýðir Snæfríður
Diddi - Þýðir Sindri
tssss - þýðir kis kis og er mikið notað þegar nágrannakötturinn Skuggi er nálægt.
tsss aaaá aaaa - Þýðir kis kis mjáá, vera aaa við kisa.
tsss buuuu - kettir, hundar og allir þessir ferfætlingar baula hátt og snjallt.
mamm-mamm - er yfirleitt sagt af mikilli innlifun við matarborðið og þýðir namm namm.
datt - þýðir datt og líka þegar hlutum er hjálpað við að komast niður á gólf.
ahhhh - er mikið notað og þýðir að lúra eða hafa notalegt. Alls staðar sem Sólveig kemur sér notalega fyrir dæsir hún af mikilli innlifun ahhhh.

Ósköp lítil stúlka fyrir ári síðan

20.5.07

Eins árs gömul í dag!



Litla duglega og yndislega dekurrófan er ekki núll ára lengur.

Hitað upp fyrir vorsýninguna





Snæfríður og Helga eru búnar að vera duglegar að æfa fimleika í vetur og núna á eftir verður vorsýningin. Það er mikil tilhlökkun í gangi, þær fengu að hjálpa til við að baka og skreyta köku (T-8 er kökuskreytingarþemað, en það er semsagt nafnið á hópnum þeirra) sem á að bjóða uppá eftir sýninguna og svo eru þær búnar að skoppa hér um í handahlaupum, brúum, splittum og spíkötum.

14.5.07

Listrænt UmhverfisPirr



Við tókum laugardaginn snemma og drifum okkur niður í bæ til að sjá risann og risessuna. Græna fjölskyldan fór með strætó í bæinn, enda er það þægilegur ferðamáti fyrir fólk með barnavagn sem leiðist bílastæðahössl.

Niðrí í bæ komum við okkur fyrir á besta stað, þar sem auglýst hafði verið að risinn og risessan myndu mætast. Þökk sé strætó, þá vorum við mjög tímalega. En risinn og risessan létu bíða eftir sér. Við vorum nær dauða en lífi úr kulda í rokrassgatinu niðri í bæ þegar við fréttum loksins að franska listafólkinu hafi fundist svo fáir mættir um morguninn að þau ákváðu leggja seinna af stað. Helv.... listamafía tautaði ég um leið og ég smalaði öllu krakkagenginu inn í hlýjuna á Listasafni Íslands. Gat enginn sagt þessum frökkum frá því að á Íslandi mætir hvortsemer aldrei neinn á réttum tíma neinsstaðar!

Listasafn Íslands færði okkur yl í kroppinn um leið og við skoðuðum sýningu á verkum Svavars Guðna. Okkur var orðið mátulega hlýtt þegar við hlupum út af safninu í tæka tíð áður en risinn og risessan hittust. Þau stóðu undir væntingum, frábær skemmtun og hápunkturinn var þegar risinn spýtti vatni á Sindra. Næst var kaffihúsaferð, svo fylgdumst við með risanum og risessunni vakna eftir blund á Lækjartorgi og halda áfram leið sinni um borgina og loks var kominn tími til að fara aftur heim með strætó.

Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Eftir hálftíma bið í smekkfullu biðskýli í Lækjargötu var hringt í þjónustusíma Strætó og fengnar þær upplýsingar að strætó stoppar bara alls ekkert þar í dag. Troðfullt biðskýlið sameinaðist í nöldri, pirringi og kvarti yfir ömurlegri þjónustu. Hefði ekki verið hægt að setja upp skilti í biðskýlinu - strætó stoppar ekki hér í dag. En jæja, við tókum okkur stöðu í öðru troðfullu biðskýli fyrir utan Ráðhúsið. Þar ríkti algjör kaós, pirrað fólk að bíða eftir alltof seinum vögnum. Eftir rúmlega hálftíma bið kom okkar strætó. Það kostaði smá útsjónarsemi að koma barnavagninum inn í troðfullan vagninn þar sem fyrir voru 3 reiðhjól. Þegar við bættust 6 blindfullir Pólverjar, þá fannst mér strætó ekkert spennandi ferðamáti lengur. En heim komumst við á endanum, klakklaust, í tæka tíð fyrir júróvisjón og kosningapartí.

7.5.07

Grettir

Þegar við Guðrún vorum á okkar "sokkabandsárum" fórum við að sjá söngleikinn Gretti. Og skemmtum okkur svakalega vel.
Á laugardagskvöldið fórum við systurnar aftur á söngleikinn Gretti og skemmtum okkur vel - komum samt út af sýningunni með nokkra bakþanka.

Gamli Grettir skoppaði um leiksviðið á brókinni - og okkur þótti það pínu fyndið.
Nýji Grettir skoppaði jú líka um á brókinni, en klámvæðing síðustu ára hefur gert það að frekar ófyndnu atriði. Þessvegna hefur "þurft" að "krydda" sýninguna dálítið fyrir nútímafólk. Bæta við atriði með gervitippi niður að hnjám, bæta við risabrjóstum í klámmyndastíl, bæta við tvöfaldri nauðgun. Pimpa alla sýninguna svolítið upp.

Af hverju þykir nauðsynlegt að hafa svona atriði í hverri einustu sýningu sem er sett upp? Það var ekkert í söguþræðinum sem kallaði á þetta, enda sami söguþráður og í gamla Gretti. Er fullt af fólki sem kemur annars og kvartar "hei! þetta var ömurleg sýning, bara ekki eitt einasta klúrt atriði!!". "Ég á rétt á því að leikhús þjóðarinnar og borgarinnar sjái mér fyrir klúru efni!!". "Þetta er svindl, það var engin nauðgun í leikritinu mínu!!".

Málið er nefnilega að við systurnar fórum með börnin okkar á söng- og gleðileikinn Gretti. Við þóttumst nokkuð góðar því við þekktum báðar leikritið og vissum vel að það yrði skemmtilegt sjóv fyrir alla fjölskylduna. Sem það reyndar var að langmestu leiti. Mjög flott og skemmtilegt sjóv fyrir alla fjölskylduna. Og við vorum langt frá því að vera eina barnafólkið í salnum. Langt frá því. Við gleymdum bara að reikna með klámvæðingunni. Gleymdum að reikna með því hvað allir eru orðnir dofnir og ónæmir.

En sem betur fer eru börnin ekki enn orðin dofin og ónæm. Þeim fannst sýningin ótrúlega skemmtileg - en fullgróf. Er bara ekki komið nóg af þessari klámvitleysu?

Makeover

Já, Hrísrimafjölskyldan er búin í allsherjar makeover, komin með stíliserað útlit.

Bloggið er blátt einsog húsið okkar er blátt, einsog Volvóinn okkar er blár, eins og uppáhaldslitur Snæfríðar er blár, einsog uppáhaldslitur Einars er blár,einsog uppáhaldslitur Sindra er blár, einsog barnavagninn hennar Sólveigar er blár, einsog hafið við Bretagneskagann er blátt, einsog himininn ofan við Torfastaði er blár. Og eins og augu Einars, Snæfríðar, Sindra og Sólveigar eru blá, blá, blá og blá.

Og bloggið er pínulítið grænt, einsog augun mín eru græn, einsog grasið í garðinum er grænt, einsog fjölskyldan er græn.

6.5.07

Feminin side

Hlutur kvenna á framboðslista sjálfstæðismanna er ekki eins og það gerist best. En sjálfsstæðismenn deyja ekki ráðalausir. Í miðri uppsveiflu fyrir kosningar hafa sjálfsstæðiskallarnir greinilega komist í nánara samband við sitt kvenlega sjálf. Sitt varalitaða kvenlega sjálf.

Það eru stórkostlegir kosningabæklingar sem sjálfstæðismenn dreifa nú í kring um sig. Hópmynd af varalituðum sjálfsstæðismönnum og konum. Geir H. Haarde með sitt breiða bros - bætum við bleikum varalit og hann lítur út eins og The Joker úr batmanmyndunum. Gulli Þór - með meik, kinnalit og fallegan varalit ber höfuðið hátt eins og stolt dragdrottning. Og Pétur H. Blöndal - aldei hefði mig grunað að rauður varalitur gæti gert hann svona kvenlegan, eins og gömul varalituð frænka. Björn Bjarna er sjálfum sér líkur með daufbleikan gloss, Illugi örlítið djarfari og hommalegri með sinn babybleika lit. Sigurður Kári er sá eini sem ekki verður kvenlegur. Hann lítur út fyrir að vera nýbúinn í svaka keleríi - með varalit klíndan út á kinnar. Spurning bara hvern af varalituðum frambjóðendunum hann kelaði við.

Áhugasömum er bent á fylgibækling með mogganum í dag og kosningaskrifstofu sjálfsstæðismanna.

Já, loksins lifnar eitthvað yfir þessari leiðinlegu kosningabaráttu. Nú er bara að sjá með hverju hinir flokkarnir svara.

3.5.07

Dum Maro Dum (smellið hér)

http://www.youtube.com/watch?v=Oi4EVutbE9w

2.5.07

Núna er rétti tíminn...


... til að fá sér jarðgerðartunnu.

Neðst í hana er gott að setja þunnt lag af smátt klipptum greinum og þar ofaná fara laufblöð. Þetta þykir vænlegt til árangurs, jarðgerðin gengur hratt og flugur sækja ekki jafn mikið í tunnuna. Núna eiga flestir garðeigendur nóg af nýklipptum greinum og öll beð eru full af gömlum laufblöðum, þannig að þetta er mjög auðvelt mál.

Þegar næst er eldað á heimilinu er gott að safna saman kartöfluhýði, grænmetisafgöngum og ávaxtaafgöngum sem ganga af og setja í tunnuna. Það flýtir fyrir ferlinu og bætir lykt. Þetta er mjög lítið mál, bara setja þessa afganga í lítinn dall í staðinn fyrir ruslið undir vaskinum, og svo næst þegar farið er út með ruslið er sturtað úr dallinum í jarðgerðartunnuna í leiðinni. Pís of keik. Þótt þið fáið ykkur jarðgerðartunnu er engin skylda að flokka ALLT lífrænt sorp, ALLSSTAÐAR og ALLTAF. Þótt það sé bara pínulítið og smáveigis sem fer í tunnuna þá munar mikið um það.


Arfinn sem er reittur úr beðunum, nýslegið gras, meira af greinum og laufblöðum fara svo líka í tunnuna. Færri ferðir í sorpu í sumar, semsagt. Og ef allt gengur að óskum verður til svolítið af næringarríkri moltu til að setja í beðin næsta haust, eða næsta vor.

Eitt símtal við umhverfisdeild borgarinnar og þeir koma með tunnuna heim að dyrum til þín. Þú borgar 2000 kr á ári í leigu á tunnunni, en eftir 5 ár þá eignast þú tunnuna og borgar ei meir.