2.5.07

Núna er rétti tíminn...


... til að fá sér jarðgerðartunnu.

Neðst í hana er gott að setja þunnt lag af smátt klipptum greinum og þar ofaná fara laufblöð. Þetta þykir vænlegt til árangurs, jarðgerðin gengur hratt og flugur sækja ekki jafn mikið í tunnuna. Núna eiga flestir garðeigendur nóg af nýklipptum greinum og öll beð eru full af gömlum laufblöðum, þannig að þetta er mjög auðvelt mál.

Þegar næst er eldað á heimilinu er gott að safna saman kartöfluhýði, grænmetisafgöngum og ávaxtaafgöngum sem ganga af og setja í tunnuna. Það flýtir fyrir ferlinu og bætir lykt. Þetta er mjög lítið mál, bara setja þessa afganga í lítinn dall í staðinn fyrir ruslið undir vaskinum, og svo næst þegar farið er út með ruslið er sturtað úr dallinum í jarðgerðartunnuna í leiðinni. Pís of keik. Þótt þið fáið ykkur jarðgerðartunnu er engin skylda að flokka ALLT lífrænt sorp, ALLSSTAÐAR og ALLTAF. Þótt það sé bara pínulítið og smáveigis sem fer í tunnuna þá munar mikið um það.


Arfinn sem er reittur úr beðunum, nýslegið gras, meira af greinum og laufblöðum fara svo líka í tunnuna. Færri ferðir í sorpu í sumar, semsagt. Og ef allt gengur að óskum verður til svolítið af næringarríkri moltu til að setja í beðin næsta haust, eða næsta vor.

Eitt símtal við umhverfisdeild borgarinnar og þeir koma með tunnuna heim að dyrum til þín. Þú borgar 2000 kr á ári í leigu á tunnunni, en eftir 5 ár þá eignast þú tunnuna og borgar ei meir.

No comments: