23.5.07

Hið ljúfa líf


Sólveigu finnst ótrúlega gaman að fá að borða sjálf með gaffli eða skeið, hún skríkir af gleði þegar hún mundar gaffalinn og ber hann frá diski að munni. Að vísu hefur gaffallinn stundum viðkomu í hárinu, í peysunni, á gólfinu og já stundum fer diskurinn líka í smá ferðalag, en það spillir nú ekki gleði Sólveigar. Aldeilis ekki.

Hún Sólveig hefur reyndar mjög gaman af því að leika alls konar kúnstir. Hún bendir samviskusamlega á rétta staði þegar hún er spurð um staðsetningu á tönnum, hári, tungu, tám og maga. Aðspurð um það hvað hin ýmsu dýr segja, svarar hún af mikilli innlifun "tsss buuu" (semsagt öll dýr eru kisur og baula - eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis í dýrafræðikennslunni) Já og svo kann hún að fara í feluleik, bæði með því að fela andlitið og svo að fela sig alla, og nýlega kenndi Sindri henni líka eltingaleik.

Úti á palli leikur hún sér með bolta, kerru, fötur, skóflur og eldavél og kallar reglulega á kisu. Inni keyrir hún um á maríubjöllunni sinni, klifrar upp á allt sem hún mögulega getur, opnar og lokar skúffum og skápum, færir hluti á milli staða (= ruslar til), skoðar bækur, knúsar bangsana sína og dúkkurnar, gefur þeim pela og snuddu, sækir kodda og lúrir hjá þeim og dæsir makindalega ahhhh.

Skemmtilegast er þegar Sindri og Snæfríður koma heim með vini sína og húsið er fullt af börnum. Þau eru nefnilega ótrúlega dugleg að leyfa Sólveigu að vera með. Hún hefur tekið þátt í æsispennandi vítaspyrnukeppni úti í garði, leikið sér í bratz, bíló og búningaleik, verið statisti í danssýningu, krítað úti á palli og margt fleira. Já, lífið er ljúft.

No comments: