31.7.07

Dagur 8




Framkvæmdir ganga mjög vel á Torfastaðaheiðinni. Komnir útveggir og þak og allir gluggar, stórir sem smáir. Já og líka hurðir. Búið að einangra og plasta, allar súlur komnar á sinn stað. Byrjað að leggja rafmagn og stálið ofan á þakið.

Næst á dagskrá eru pípulagnir, innveggir og háaloft og svo meira rafmagn. Það verður gaman að sjá það gerast.

Sveitalíf



Síðustu vikurnar er ég búin að keyra égveitekkihvaðmargar ferðir á milli Torfastaða og Hrísrima.
Fyrst þurfti ég að fara nokkuð margar ferðir til að koma öllum græjunum á staðinn; stigar, rafstöð, loftpressa, bensín, sög, verkfæri, allt þurfti þetta að vera á staðnum. Allt klappað og klárt og eftir bókinni - hélt ég.

Og svo byrjaði ballið. Fyrst þurfti ég að skutla á staðinn fleiri verkfærum sem hafði gleymst að láta mig fá. Svo þurfti ég að kaupa meira bensín því rafstöðin eyddi svo miklu. Svo þurfti að koma bilaða bílnum til og frá verkstæði og bílaleigubílnum til og frá. Svo þurfti að koma með nýja slöngu fyrir loftpressuna. Svo þurfti ég að koma með mat fyrir smiðina. Meira brauð og álegg - ekki hangikjöt. Svo bilaði rafstöðin og spjó eldi. Þá þurfti ég nýja og stærri rafstöð. Svo kom í ljós að loftpressan tók of mikið rafmagn. Þá þurfti ég að koma með nýja og minni loftpressu. Svo þurfti ég að kaupa meira bensín. Svo redda brothamri til að koma súlunni á sinn stað. Svo fara með byggingarusl á gámastöðina. Svo meiri mat fyrir smiðina, meira bensín fyrir rafstöðina, meira meira meira.

Ferðirnar eru orðnar nokkuð margar, en allar bráðnauðsynlegar. Fyrir utan að ferja mat, bensín og verkfæri, þá þarf að taka ýmsar ákvarðanir á staðnum með hin og þessi smáatriði og stór, kalla til rafvirkja og pípara og tryggja að enginn þvælist fyrir eða stígi á tær á hinum iðnaðarmönnunum, og já, nú fatta ég af hverju það er alltaf verkstjóri á öllum svona verkum.

Og í öllum þessum ferðum er ég með eitt eða fleiri börn með mér. Og við höfum brallað ýmislegt skemmtilegt. Berjamó og gönguferðir, gróðursetning og draumar um kofabyggingar, nestistími úti í móa, klappa hundum og hestum. Þar að auki tekur fólkið í Biskupstungnahreppi óskaplega vel á móti okkur, nágranni okkar á heiðinni, stöðvarstjórninn á bensínstöðinni, hjónin á bænum og gamli borgarfulltrúinn - öll eru þau hvert öðru vingjarnlegra.

24.7.07

Dagur 2



Það er gaman að fylgjast með húsinu rísa, ótrúlegt að á degi 2 séu allir útveggir komnir á sinn stað og allar sperrur í þakinu. Það er samt margt eftir að gera, festa hitt og þetta, plasta, einangra, setja þak, leggja raflagnir og pípulagnir, og svo auðvitað innveggir, gólf og allt það. En, so far, so good.

Allt gengur ljómandi. Druslan komin úr viðgerð, þetta var ekki tímareimin heldur ónýtur vatnskassi, hjúkk? og danirnir aftur komnir á bíl frá okkur. Annar gámurinn tómur og farinn burt, hinn gámurinn kominn að húsinu, danirnir voða lukkulegir með það. Neita samt að borða hangikjöt og já bara allt lambakjöt yfirhöfuð. Vilja ekki sjá rúgbrauð eða neitt gróft - bara franskbrauð. Voða hrifnir af skyri og "sodavand" sem er reyndar ekki sódavatn heldur gos. Furðulegt! Ef danir vilja sódavatn biðja þeir um "dansk vand", venjulegt vatn er "isvand" og gos heitir "sodavand". Kannski ekki skrýtið hjá þjóð sem liggur á sænginni sinni og breiðir dýnuna ofan á sig.


Lars og Peter að vinna í barnaherberginu. Þarna uppi verður lítið háaloft.


Snæfríður við stofugluggann


Stelpurnar að spóka sig í eldhúsinu.

Í berjamó



Það er komið fullt af berjum á Torfastaðaheiðinni, bæði bláber og krækiber, sum alveg fullþroskuð og svo grænjaxlar innanum. Snæfríður var stórtæk í berjatínslunni og Sólveig naut góðs af, namm namm sönglaði hún á berjaþúfu.




Á Torfastaðaheiðinni, rétt fyrir ofan bústaðinn okkar eru gamlar tóftir. Hér situr Sólveig undir einum veggnum, með bústaðinn okkar í baksýn. Við höldum að þarna hafi staðið bærinn Torfastaðakot í gamla daga, en við eigum eftir að komast betur að þessu.


23.7.07

Dagur 1





Jæja, þá er ballið byrjað.

Danirnir Lars og Peter mættu á svæðið í dag, mældu grunninn fram og aftur, merktu og skoðuðu og kváðu svo upp þann dóm að þetta væri bara allt í fínasta lagi, allt eins og það á að vera. Hjúkk og takk Þórbergur!

Svo mætti Maggi kranastjóri frá JÁverki, sá er nú röskur og duglegur. Það þurfti að byrja á að hífa alls konar dót út úr gáminum og að lokum fundust húsveggirnir - alveg innst inni. Um hádegið voru þeir byrjaðir að hífa veggina á sinn stað, skrúfa og festa. Ótrúlega flott að sjá þetta gerast. Ég er mjög spennt að sjá þetta á morgun, þá ættu allir veggirnir að vera komnir á sinn stað.

Vandræðalisti

Það er ekki tekið út vandræðalaust að standa í svona húsbyggingum. Vandræðalistinn er orðinn talsvert langur.

1. Ólafur bóndi sem ætlaði að grafa grunn, leggja veg, og koma heitu og köldu vatni til okkar, fór á spítala. Nágrannni hans Grímur grafari, hljóp í skarðið og lagði dag við nótt við að grafa grunninn, fylla að og koma veginum í lag. Heitt og kalt vatn verður að bíða betri tíma.

2. Gámabíllinn lenti í vandræðum á veginum og þurfti að setja annan gáminn niður við vegamótin. Danirnir settu upp fílusvip og fussuðu. Ég leigði aukadag á krana til að keyra allar einingarnar á milli gámsins og grunnsins.

3. Bíllinn sem við sköffuðum handa dönunum dugði upp að Torfastöðum og gafst þá upp. Farin viftureim og vatnsdæla og sitthvað fleira. Ég þurfti að vakna klukkan 5 og keyra austur til að koma dönunum í vinnuna á undan krananum. Rúnar bróðir kom með mér og sat í druslunni á meðan ég dró hana á verkstæði á Selfossi. Og keyrði svo bílaleigubíl til baka. Ævintýri líkast, eða já, hm..

4. Rarik sveik okkur um að vera búin að leggja rafmagn að bústaðnum, þrátt fyrir eldheitt daglegt símasamband. Ég leigði bensínrafstöð og er búin að keyra 50L af bensíni austur handa skrímslinu.

5. Danirnir fóru fram á að við útveguðum nokkur verkfæri, stiga og vinnupalla oþh. Ekkert mál að redda því með tækjaleigu. - En þegar betur var að gáð var langtímaleigan svo dýr að núna er ég "hamingjusamur" eigandi að stórri öflugri borðsög (sem verður til sölu eftir mánuð á góðu verði), stórri loftpressu (sem er nú þegar seld) og fjölmörgum stigum og tröppum (eitthvað af því verður líka til sölu eftir mánuðinn). Annaðhvort læri ég að smíða til að nota þessi tæki og stofna verktakafyrirtæki - eða já, losa mig bara við góssið á tombóluverði.

Góðu fréttirnar eru að mér tókst að pranga afganginum af steypustyrktarjárnunum inn á nágranna okkar og afganginum af einangrunarplastinu líka. Stórsnjallt!

18.7.07

Hús!






Ó vá, hvað ótrúlega nauma tímaplanið okkar er að ganga vel upp. Þórbergur kom frá ameríku og byrjaði að slá upp fyrir grunninum fyrir 15 dögum. Og í dag þegar ég fór austur var verið að leggja lokahönd á verkið áður en platan verður steypt á morgun, og þá má segja að grunnurinn sé tilbúinn! Danirnir voru vantrúaðir á að við myndum ná þessu, við vorum stressuð, en vó! þetta hafðist, og innan tímamarka meiraðsegja. Þórbergur er búinn að vera ótrúlega duglegur og gerir þetta mjög vel, hann á heiður skilinn fyrir þetta. Allir iðnaðarmennirnir hafa komið á réttum tíma, múrari, pípari, byggingaeftirlitsmaður og já, ekki gleyma honum Grími grafara sem hefur keyrt efni í þetta fyrir okkur af mikilli snilld á réttum tíma.

Nú er allt á fullum snúningi við að redda hinu og þessu áður en við sækjum dönsku smiðina út á flugvöll á sunnudaginn. Það er í mörg horn að líta og margt sem þarf að redda. Á mánudaginn verður byrjað að reisa húsið og eftir rúma viku get ég vonandi sett inn mynd af húsi með veggjum og þaki - ef allt gengur áfram eftir áætlun. Krossum putta fyrir áframhaldandi gott gengi.

Símamótið


Þegar við komum heim frá Frakklandi vantaði Snæfríði eitthvað að gera, og því ákvað hún að prófa að mæta á fótboltaæfingar hjá Fjölni. Þetta eru hörku æfingar með frábærum þjálfara og skemmtilegum stelpum og það á nú vel við hana Snæfríði mína. Og svo var verið að tala um að fara á Símamótið, sem er stórt mót fyrir fótboltastelpur, og þangað vildi hún Snæfríður komast. Að vísu náði hún bara að æfa í rúma viku, fór svo í sumarbúðirnar í Vindáshlíð í eina viku og svo náði hún síðustu æfingunni fyrir mót, þar sem aðallega voru æfð mörg og frumleg "fögn" enda stóð til að skora fullt af mörkum.

Í fyrsta leiknum byrjaði Snæfríður á varamannabekknum í B- liðinu, enda bara nýbyrjuð í boltanum. Liðinu hennar gekk bara ágætlega og Snæfríði líka og hún fékk að koma meira og meira inná eftir því sem leið á mótið. Að lokum endaði liðið hennar í 6. sæti, sem er mjög góður árangur, og í síðasta leiknum var Snæfríður komin í byrjunarliðið og endaði á að skora síðasta markið fyrir liðið sitt. Glæsileg byrjun á boltaferlinum hjá þeirri stuttu!

Mótið var mjög skemmtilegt, en eftirminnilegastur er líklega leikurinn á móti Framstelpum, sem fór 14-1 fyrir Fjölni. Litlu Framstelpurnar voru greinilega allar ungar og nýbyrjaðar og gekk alls ekki vel að koma boltanum yfir á hinn vallarhelminginn. Það endaði með þvi að dómarinn gekk í lið með þeim, tók fyrir þær útspörk, gaf sendingar og fyrirgjafir og endaði svo með því að þvæla upp allan völlinn og skora mark fyrir þær. Og þá klöppuðu allir foreldrarnir á hliðarlínunni, bæði Framforeldrar og Fjölnisforeldrar :-) Flottur dómari!

6.7.07

Kolefnisjöfnun....


Heggurinn var stór

Reynitrésplönturnar voru mjög litlar.

Ég átti mjög gott samtal við Balla hennar Elvu um gróðursetningar í sumarbústaðalöndum. Hann er hámenntaður garðyrkjufræðingur og gaf mér mörg góð ráð. Við vorum algjörlega sammála um að í trjáræktinni okkar í Torfastaðakoti yrði lögð áhersla á gæði, en ekki magn. Ekki dritað niður fullt af plöntum í algjöru hugsunarleysi. Neibb, þannig verður það nú ekki hjá okkur. Vönduð og úthugsuð útplöntun á gæðaplöntum. Einmitt.

Svo renndi ég austur í gær með Sindra og Sólveigu til að fylgjast með framkvæmdum og datt í hug að kippa með mér nokkrum plöntum í leiðinni til að hola niður. Bara smá byrjun. Datt inn á garðyrkjustöð Ingibjargar í Hveragerði og spjallaði heillengi við Ingibjörgu sjálfa sem gaf mér ýmis góð ráð. Fékk hjá henni á fínu verði 20 víðihríslur, 2 úlfareyniplöntur, 4 heggi, 1 broddfuru og svo sinn hvorn bakkann af reynitrjám og sitkagreni. Það fór lítið fyrir þessu í skottinu og ég hlakkaði til að fara að pota þessu niður.

Það runnu samt fljótlega á mig tvær grímur þegar gróðursetningin hófst, því þá áttaði ég mig á því að alls voru þetta yfir hundrað plöntur. Úff.. var ég ekki eitthvað að tala um magn og gæði.... Á endanum holaði ég meirihlutanum niður á harðaspretti hér og þar um landið, hvar sem auðvelt var að stinga niður skóflu. Úthugsuð útplöntun hvað!

Sem betur fer hafði ég 2 unga og góða aðstoðarmenn, Sindri og Óli Þorri stóðu sig mjög vel í gróðursetningunni. Svo verður spennandi að sjá hvað af þessu lifir veturinn af og enn meira spennandi að sjá trén spretta upp á öllum þessum óvæntu og óskipulögðu stöðum.

Byrjað að byggja


Svona leit grunnurinn út í gær.

Risastór haugur sem kom upp úr grunninum.

Jæja, þá er allt komið á full swing með sumarbústaðabygginguna. Búið að grafa grunninn og Þórbergur byrjaður að slá upp og undirbúa að steipa grunn.
Húsið okkar er komið í gám og er líklega að veltast um í maganum á skipi einhversstaðar úti á Atlantshafi.
Dönsku smiðirnir koma svo eftir rúmar 2 vikur og ætla að byggja húsið á 5 vikum. Nú verða allar naumu tímaáætlanirnar okkar að standast, og jahérna, það lítur bara út fyrir að allt smelli saman á síðustu stundu.

4.7.07

Litli frændi!




20. júni fæddi Maja systir dreng og gekk allt vonum framan. Viku síðar var hann skýrður Ýmir Hugh og vorum við viðstödd athöfnina í Akureyrarkirkju. Ætli strákurinn verði ekki poppari eða í kvikmyndum. Nichole Kidman, Brian Wilson(beach boys), John Taylor (duran duran), Lionel Ritchie! John Goodman, Martin Landau og Errol Flynn eru öll fædd á þessum degi. Ég held þó að mikilvægara sé að halda bolta að honum miðað við gengi KA-manna! Tvær myndanna eru teknar í Akureyrarkirkju og ein hjá Travis og Maju í Munkaþverárstræti. Til hamingju Maja, Travis og Úlfur Anthony.