
Síðustu vikurnar er ég búin að keyra égveitekkihvaðmargar ferðir á milli Torfastaða og Hrísrima.
Fyrst þurfti ég að fara nokkuð margar ferðir til að koma öllum græjunum á staðinn; stigar, rafstöð, loftpressa, bensín, sög, verkfæri, allt þurfti þetta að vera á staðnum. Allt klappað og klárt og eftir bókinni - hélt ég.
Og svo byrjaði ballið. Fyrst þurfti ég að skutla á staðinn fleiri verkfærum sem hafði gleymst að láta mig fá. Svo þurfti ég að kaupa meira bensín því rafstöðin eyddi svo miklu. Svo þurfti að koma bilaða bílnum til og frá verkstæði og bílaleigubílnum til og frá. Svo þurfti að koma með nýja slöngu fyrir loftpressuna. Svo þurfti ég að koma með mat fyrir smiðina. Meira brauð og álegg - ekki hangikjöt. Svo bilaði rafstöðin og spjó eldi. Þá þurfti ég nýja og stærri rafstöð. Svo kom í ljós að loftpressan tók of mikið rafmagn. Þá þurfti ég að koma með nýja og minni loftpressu. Svo þurfti ég að kaupa meira bensín. Svo redda brothamri til að koma súlunni á sinn stað. Svo fara með byggingarusl á gámastöðina. Svo meiri mat fyrir smiðina, meira bensín fyrir rafstöðina, meira meira meira.
Ferðirnar eru orðnar nokkuð margar, en allar bráðnauðsynlegar. Fyrir utan að ferja mat, bensín og verkfæri, þá þarf að taka ýmsar ákvarðanir á staðnum með hin og þessi smáatriði og stór, kalla til rafvirkja og pípara og tryggja að enginn þvælist fyrir eða stígi á tær á hinum iðnaðarmönnunum, og já, nú fatta ég af hverju það er alltaf verkstjóri á öllum svona verkum.
Og í öllum þessum ferðum er ég með eitt eða fleiri börn með mér. Og við höfum brallað ýmislegt skemmtilegt. Berjamó og gönguferðir, gróðursetning og draumar um kofabyggingar, nestistími úti í móa, klappa hundum og hestum. Þar að auki tekur fólkið í Biskupstungnahreppi óskaplega vel á móti okkur, nágranni okkar á heiðinni, stöðvarstjórninn á bensínstöðinni, hjónin á bænum og gamli borgarfulltrúinn - öll eru þau hvert öðru vingjarnlegra.