23.7.07

Vandræðalisti

Það er ekki tekið út vandræðalaust að standa í svona húsbyggingum. Vandræðalistinn er orðinn talsvert langur.

1. Ólafur bóndi sem ætlaði að grafa grunn, leggja veg, og koma heitu og köldu vatni til okkar, fór á spítala. Nágrannni hans Grímur grafari, hljóp í skarðið og lagði dag við nótt við að grafa grunninn, fylla að og koma veginum í lag. Heitt og kalt vatn verður að bíða betri tíma.

2. Gámabíllinn lenti í vandræðum á veginum og þurfti að setja annan gáminn niður við vegamótin. Danirnir settu upp fílusvip og fussuðu. Ég leigði aukadag á krana til að keyra allar einingarnar á milli gámsins og grunnsins.

3. Bíllinn sem við sköffuðum handa dönunum dugði upp að Torfastöðum og gafst þá upp. Farin viftureim og vatnsdæla og sitthvað fleira. Ég þurfti að vakna klukkan 5 og keyra austur til að koma dönunum í vinnuna á undan krananum. Rúnar bróðir kom með mér og sat í druslunni á meðan ég dró hana á verkstæði á Selfossi. Og keyrði svo bílaleigubíl til baka. Ævintýri líkast, eða já, hm..

4. Rarik sveik okkur um að vera búin að leggja rafmagn að bústaðnum, þrátt fyrir eldheitt daglegt símasamband. Ég leigði bensínrafstöð og er búin að keyra 50L af bensíni austur handa skrímslinu.

5. Danirnir fóru fram á að við útveguðum nokkur verkfæri, stiga og vinnupalla oþh. Ekkert mál að redda því með tækjaleigu. - En þegar betur var að gáð var langtímaleigan svo dýr að núna er ég "hamingjusamur" eigandi að stórri öflugri borðsög (sem verður til sölu eftir mánuð á góðu verði), stórri loftpressu (sem er nú þegar seld) og fjölmörgum stigum og tröppum (eitthvað af því verður líka til sölu eftir mánuðinn). Annaðhvort læri ég að smíða til að nota þessi tæki og stofna verktakafyrirtæki - eða já, losa mig bara við góssið á tombóluverði.

Góðu fréttirnar eru að mér tókst að pranga afganginum af steypustyrktarjárnunum inn á nágranna okkar og afganginum af einangrunarplastinu líka. Stórsnjallt!

1 comment:

Unknown said...

Mér sýnist verktakabransinn liggja mjög vel fyrir þér :-)