24.8.07

Kyrr kjör



Undanfarna daga hefur allt verið með kyrrum kjörum á austurvígstöðvunum. Eftir að danirnir fóru, datt allt í dúnalogn. Engin vinna í gangi þarna. Það hefur sína kosti. Til dæmis er ég ekki lengur alltaf að keyra yfir heiðina með marga lítra af gosi, brauði, áleggi og já - bjór. Get ekki sagt að ég sakni þessara ferða. Ég sakna þess heldur ekki að vera að brasa fram og aftur með rafstöðvar og loftpressur. Já og endalausar bensínferðir til að fylla á rafstöðvarskrímslið. Sakna þeirra ekki heldur. Og mikið var fallegt í kyrrðinni og rökkrinu eitt kvöldið um daginn þegar ég skrapp þarna til að snyrta til í kring um bústaðinn.

Það er nefnilega ekkert spes þarna í dagsbirtunni þessa dagana. Allt fullt af rusli út um allt. Við erum búin að fara ófáar ferðir á gámastöðina með afgangstimbur, pappír, plast, málm og pappaumbúðir - því auðvitað erum við að reyna að skila þessu flokkuðu í endurvinnslu. Við eigum talsverða vinnu eftir í frágangi þarna - en þetta hefst nú samt smám saman. Vonandi áður en fyrsta haustlægðin kemur og allt fýkur út um allt....



Góðar fréttir. Rarik skurðurinn nálgast húsið okkar óðfluga. Það styttist verulega í að við fáum rafmagn og vatn. Rafvirkinn byrjaður að draga í lagnir inni. Þá ættum við bráðlega að fara geta haft hitablásara í gangi til að þurrka upp steypuna í gólfplötunni. Allt að komast í gang aftur á austurvígstöðvunum...

Tré og list



Um síðustu helgi kíktum við á opnun á glæsilegu listagalleríi í Villingaholtshreppnum. Listilega útskornir og renndir trémunir, ljósmyndir, vefnaður og gömul handsmíðuð verkfæri voru þarna meðal annars.

Hjónin í Forsæti eru stórhuga fólk og hristu þetta bara sisvona fram úr erminni - allt heimagert. Í tilefni dagsins var starfrækt kaffihús með þvílíkum hnallþóruveitingum í stórum sal í næsta húsi. Í þeim sal er meðal annars uppsett stórt kvikmyndatjald og hafa verið sýndar þar nokkrar myndir, en þennan dag, þá var þetta kaffihús. Stórhugurinn gengur í erfðir.

http://www.treoglist.is/
Auðvitað er búið að opna heimasíðu. Nema hvað.

Sólveig skemmti sér konunglega þegar hún fékk að hjálpa til við píanóleik.

13.8.07

Sindri 7 ára


Sindri á fótboltamóti um helgina. Stór 7 ára drengur.



Sindri á fótboltamóti fyrir ári síðan. Lítill 6 ára drengur.

Já, hann Sindri okkar er orðinn 7 ára gamall. Og þvílíkt sem drengurinn hefur stækkað á einu ári, mér finnst ég hafi alltaf verið að kaupa á hann nýjar buxur, svo rétt snéri ég mér við og þá voru þær komnar upp á miðja kálfa á drengnum, og við aftur út í búð að kaupa buxur.

En Sindri hefur gert fleira á þessu ári heldur en að vaxa upp úr buxum. Þetta er árið sem hann byrjaði í skóla, fór að æfa fótbolta af krafti, eignaðist góða vini í bekknum sínum, Sverri og Bjarka, lærði að renna sér á snjóbretti, fór einn til Akureyrar í viku, tók þátt í fyrsta skákmótinu sínu og margt fleira.

Sindri er mikill dundari og bílaáhugamaður - getur leikið sér tímunum saman með bílana sína eða kubba. Teiknar ótrúlega flottar myndir og hjólar og hjólar út um allt. Sindri elskar allar framkvæmdir, hvort sem það heitir að smíða, gróðursetja, slá lóðina, skúra gólf, þrífa bílana, skrúfa saman húsgögn, fara út að ganga með hunda, allt þetta er fyrsta flokks skemmtun fyrir Sindra - bara ef hann fær að taka þátt.

Sindri þakkar fyrir góðar gjafir og góða gesti...

11.8.07

Dagur 19



Jæja, rafvirkinn kom heim frá eyjum og náði að klára að leggja rafmagn í veggina í gær. Hjúkk. Og danirnir aftur orðnir glaðir.

Annars eru danirnir búinir að panta sér flugferð heim á þriðjudagsmorguninn, þá ætla þeir að vera búnir að þessu, heilum tveimur vikum á undan áætlun. Í stað 5 vikna eru þetta 3 vikur. Frábært mál algjörlega.

Að vísu ná þeir ekki alveg að klára umsamið djobb. Það er ekki hægt að leggja gólfefnin strax af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er steypan í gólfplötunni ekki orðin nógu þurr og því þarf það að bíða aðeins . Í öðru lagi erum við ekki komin með vatn í húsið - og það þarf jú vatn í gólfhitakerfið sem á að vera undir gólfefnunum. Ólafur bóndi sem ætlaði að leggja til okkar vatn gat ekki gert það í sumar vegna sjúkrahússdvalar - en lofar því núna fyrir 1. september. Við bíðum bara eftir því. Já og að lokum þá vantar okkur líka rafmagn frá Rarik. Það er búin að vera löng og "skemmtileg" saga, allt brasið í kring um það, en núna virðist ætla að rætast úr á allra næstu vikum. Jæja, við vissum að þessir hlutir stóðu tæpt þegar við ákváðum að taka við húsinu 2 mánuðum á undan áætlun, þannig að við erum alveg róleg yfir þessu. Eigum bara þetta fína hús án allra nútímaþæginda.

En danirnir eiga eftir að koma aftur og reisa nokkur hús á Íslandi í viðbót á næstu vikum og munu þá skjótast til okkar í örfáa daga og klára það sem er eftir - þegar platan er orðin þurr - og við komin með vatn og rafmagn.

Þangað til njótum við bara kyrrðarinnar á heiðinni og ótrúlega flotta útsýnisins.

7.8.07

Dagur 15



Núna er mikið að gerast í bústaðnum okkar á Torfastaðaheiðinni, enda fóru danirnir ekki á neina útihátíð um helgina, heldur "bara vinna, vinna!" eins og Lars orðar það svo vel.

En núna erum við komin með innveggi og þar með alls konar herbergi í húsið, mjög flott.
Háaloftið er samt ekki komið upp.
Búið að klæða loftið og búið að leggja rörið fyrir kamínuna.
Elhúsinnrétting byrjuð að fæðast. Við erum samt ekki svona svakalega "sixtís" eins og túrkísbláa innréttingin bendir til. Þetta er hlífðarplast.




Ekki hefur enn spurst til rafvirkjans síðan hann fór til eyja. Vonandi skolar honum á land fljótlega því danirnir eru orðnir "nett" pirraðir á þessu rafvirkjaleysi, þótt það séu ekki margir virkir dagar síðan hann fór. Og þeir eiga mörg miður falleg orð um vinnukúltúr íslendinga. Já og drykkjukúltúr. Þeim finnst miklu kúltiveraðra að gera þetta eins og danskurinn og drekka bara í vinnunni ;-)

2.8.07

Dagur 11



Gott að frétta af bústaðarbyggingum. Fyrir utan endalaust vesen með loftpressur - núna þurfti þessi nýja að bila, með tilheyrandi skutli, reddingum og bykoferðum. Eftir árangurslausa leit á leigumörkuðum að lausri pressu sem ekki tekur mikið rafmagn, endaði ég með að kaupa nýja og byko tók þá gömlu í viðgerð. Ég er eiginlega alveg hætt að hafa húmor fyrir þessum verkfærakaupum mínum.

Raflagnir í loft og útveggi komnar og verið að klára seinna lagið af einangrun.
Byrjað á að setja klæðninguna í loftið.
Ennþá verið að vinna við þakið, þakrennur og það allt.



Næst á dagskrá er að koma innveggjunum á sinn stað, og svo þarf að fá rafvirkjana aftur til að klára raflagnir í þeim. Eini gallinn er að rafmagnsmaður einn fór til eyja með 7L af göróttum drykk og óvíst um hvenær hann kemur aftur til vinnu. Kannski á þriðjudag - líklega á miðvikudag. Lars og Peter líst ekkert á þetta og eru hræddir um að verða verkefnalausir strandaglópar á eyjunni bláu.....



Sólveig er hamingjusöm að skottast í kringum mig í bústaðarferðunum. Er orðin mjög dugleg að tína upp í sig ber, en hérna er hún reyndar að smakka á moldinni - ekki alveg jafn bragðgott.

Sindri smiður



Í dag fórum við í Byko, eins og oft áður, Byko er orðið okkar annað heimili. En í dag fékk Sindri að velja sér hamar og einn pakka af nöglum. Ég held að fáar gjafir hafi veitt honum jafn mikla gleði (fyrir utan kannski eftirlíkinguna af effelturninum sem hann fékk þegar hann var 3ja ára í París - hann þurfti að sofa með hann uppí í marga mánuði á eftir).

En jæja, Sindri hefur varla skilið hamarinn við sig í allan dag. Og hann er búinn að smíða og smíða, enda nóg af afgangstimbri í kring um bústaðinn. Ekki skortir metnaðinn, fyrst á dagskrá er vinnuborð - til að smíða við. Svo er hann byrjaður að leggja drög að sófa. Auk þess á hann myndarlegt vopnabúr, smíðar byssur og riffla á færibandi.

Hjólhýsapakk



Á leiðinni frá Selfossi að Rauðavatni, á fimmtudagskvöld fyrir verslunarmannahelgina mættum við:

15 hjólhýsum
14 fellihýsum
11 tjaldvögnum
7 húsbílum

Og það var almennt lítil umferð.

Þetta er partur af hinum hefðbundna bílatalningarleik okkar Sindra á ferðunum endalausu yfir Hellisheiðina. Við veljum okkur bíla eða einhver farartæki (t.d. jeppa eða hvíta bíla) og svo er æsispennandi keppni um það hver vinnur. Almennar niðurstöður úr þessum keppnum eru þær að jeppar hafa alltaf vinninginn, nema ef skyldu vera gráir bílar. Næst koma hvítir bílar, sirka jafn mikið af rauðum og bláum. En um verslunarmannahelgina er mjög gott að veðja á hjólhýsi.