Undanfarna daga hefur allt verið með kyrrum kjörum á austurvígstöðvunum. Eftir að danirnir fóru, datt allt í dúnalogn. Engin vinna í gangi þarna. Það hefur sína kosti. Til dæmis er ég ekki lengur alltaf að keyra yfir heiðina með marga lítra af gosi, brauði, áleggi og já - bjór. Get ekki sagt að ég sakni þessara ferða. Ég sakna þess heldur ekki að vera að brasa fram og aftur með rafstöðvar og loftpressur. Já og endalausar bensínferðir til að fylla á rafstöðvarskrímslið. Sakna þeirra ekki heldur. Og mikið var fallegt í kyrrðinni og rökkrinu eitt kvöldið um daginn þegar ég skrapp þarna til að snyrta til í kring um bústaðinn.
Það er nefnilega ekkert spes þarna í dagsbirtunni þessa dagana. Allt fullt af rusli út um allt. Við erum búin að fara ófáar ferðir á gámastöðina með afgangstimbur, pappír, plast, málm og pappaumbúðir - því auðvitað erum við að reyna að skila þessu flokkuðu í endurvinnslu. Við eigum talsverða vinnu eftir í frágangi þarna - en þetta hefst nú samt smám saman. Vonandi áður en fyrsta haustlægðin kemur og allt fýkur út um allt....
Góðar fréttir. Rarik skurðurinn nálgast húsið okkar óðfluga. Það styttist verulega í að við fáum rafmagn og vatn. Rafvirkinn byrjaður að draga í lagnir inni. Þá ættum við bráðlega að fara geta haft hitablásara í gangi til að þurrka upp steypuna í gólfplötunni. Allt að komast í gang aftur á austurvígstöðvunum...