11.8.07

Dagur 19



Jæja, rafvirkinn kom heim frá eyjum og náði að klára að leggja rafmagn í veggina í gær. Hjúkk. Og danirnir aftur orðnir glaðir.

Annars eru danirnir búinir að panta sér flugferð heim á þriðjudagsmorguninn, þá ætla þeir að vera búnir að þessu, heilum tveimur vikum á undan áætlun. Í stað 5 vikna eru þetta 3 vikur. Frábært mál algjörlega.

Að vísu ná þeir ekki alveg að klára umsamið djobb. Það er ekki hægt að leggja gólfefnin strax af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er steypan í gólfplötunni ekki orðin nógu þurr og því þarf það að bíða aðeins . Í öðru lagi erum við ekki komin með vatn í húsið - og það þarf jú vatn í gólfhitakerfið sem á að vera undir gólfefnunum. Ólafur bóndi sem ætlaði að leggja til okkar vatn gat ekki gert það í sumar vegna sjúkrahússdvalar - en lofar því núna fyrir 1. september. Við bíðum bara eftir því. Já og að lokum þá vantar okkur líka rafmagn frá Rarik. Það er búin að vera löng og "skemmtileg" saga, allt brasið í kring um það, en núna virðist ætla að rætast úr á allra næstu vikum. Jæja, við vissum að þessir hlutir stóðu tæpt þegar við ákváðum að taka við húsinu 2 mánuðum á undan áætlun, þannig að við erum alveg róleg yfir þessu. Eigum bara þetta fína hús án allra nútímaþæginda.

En danirnir eiga eftir að koma aftur og reisa nokkur hús á Íslandi í viðbót á næstu vikum og munu þá skjótast til okkar í örfáa daga og klára það sem er eftir - þegar platan er orðin þurr - og við komin með vatn og rafmagn.

Þangað til njótum við bara kyrrðarinnar á heiðinni og ótrúlega flotta útsýnisins.

2 comments:

Smooth Salvatore Bruno said...

Ég er nú orðinn svo gamall að ég man eftir því að dvelja langdvölum í illa einangruðu sumarhúsi án rafmagns og rennandi vatns, svo ég fari ekki út í hvernig klósettaðstaðan var.... Alltaf var þó gaman að komast í sveitina. Ég óska ykkur bara til hamingju með kotið ykkar þótt ekki sé fullklárað.

Jóhanna said...

Já, þetta er líklega bara spurning um að finna sinn "innri skáta" og þá hefur maður enga þörf fyrir nútímaþægindi lengur. Bara gíngangúllígúllí....