29.11.06

Sluppum fyrir horn

Við Sindri mættum niður á læknastöð í morgun, það átti að stinga á hljóðhimnum og spúla út slím og drullu úr eyrunum á honum. Hann er búinn að ganga um með vökva og slím í eyrum í allan vetur og ekki hægt að leggja þetta á hann lengur. Sindri stóð sig eins og hetja, þurfti að vísu að bíða lengi á biðstofunni en það stytti biðina að sjá uppáhalds poppstjörnuna sína koma með barnið sitt í röraaðgerð á sama tíma og við biðum þarna. Happadagur hjá Sindra.

Svo kallaði svæfingarlæknirinn á okkur og fór yfir helstu atriði fyrir svæfinguna. Sindri kom sér fyrir á skurðarborðinu, alveg sallarólegur. Næst kom Stefán eyrnalæknir, hress að vanda og kíkti í eyrun á Sindra. Að því loknu sagði hann okkur að við mættum fara heim því hann myndi ekkert gera við eyrun á þessum strák. Já þetta kom skemmtilega á óvart. Vinstra eyrað var orðið alveg eins gott og það getur orðið og hægra eyrað leit eins vel út og hægt er með þessu gati á hljóðhimnunni sem ekki grær. Já, algjör happadagur hjá honum Sindra :-)

23.11.06

Afrek!



Ungfrúin bað um "Hello Kitty" köku og mamman hummaði og þóttist hafa einhverjar efasemdir um kökuskreytingarhæfileika sína. En ungfrúin taldi þetta ekkert mál, mamma getur allt.

Hingað til hef ég náð að snúa mig fimlega út úr alls konar kökuskreytingarbeiðnum með því að baka venjulega súkkulaðiköku, og setja svo eitthvað dót ofan á og leyfa svo Snæfríði og Sindra að ofhlaða hana með sælgæti. Þannig hef ég "töfrað fram" bubba byggis köku, bílaköku, barbíköku, galdrastelpuköku og eitthvað fleira. Og stóru börnin mín fylgjast agndofa með og finnst kökuskreytingarhæfileikar mömmu sinnar alveg sérstaklega miklir. Ég vissi samt alltaf að það kæmi að þeim degi þegar börnin mín bæðu um eitthvað flóknara og ég veit að það mun koma að þeim degi þegar þau uppgötva alvarlega föndurfötlun mömmu sinnar. Já, ég er haldin alvarlegri föndurfötlunarþroskaröskunarhömlun ... eða eitthvað í þá áttina. Sem lýsir sér í því að ég hef tóma þumalfingur í öllu föndri.

En já, semsagt, Hello Kitty kökuskreytingin var ekki leyst með því að setja plastkisu ofan á súkkulaðiköku, heldur með alvöru kökuskreytingartækni. Ég prentaði út mynd með kattarkvikindinu af netinu, klippti út og vandaði mig ógurlega með matarlit og kökukrem við að herma eftir, fylgja fyrirmyndinni og skreyta. Snæfríður og Helga vinkona hennar fengu svo að raða sælgæti í kring og strá kökuskrauti yfir. Og ég verð að segja að ég er stolt af árangrinum. Mjög stolt. Og ef þið lítið á kökuna vitandi það að hana skreytti þriggja barna móðir sem haldin er alvarlegri föndurfötlunarþroskaröskunarhömlun, þá verðið þið líka mjög stolt ;-)

Fjörkalfar



Snæfríður bauð öllum bekknum sínum í afmælisveislu á mánudaginn. Þetta er glaðlegur, kraftmikill og fjörugur hópur. Afmælisfagnaðurinn fór vel fram, kökuát, leikir og pizzuát og hefðbundin afmælisstörf. Þótt allt hafi gengið vel og vandræðalaust og börnin verið glöð og kurteis, þá vorum við Einar dauðuppgefin eftir þetta tveggja tíma húllumhæ. Hvernig í ósköpunum fara kennarar að því að halda út heilan dag, dag eftir dag, við að hafa stjórn á svona hópi.

Í veislunni var farið í fataleik, við mikla kátínu krakkanna eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

17.11.06

Ammæli

Það er sko ekki af neinu smá tilefni sem ofurgrúppan Sykurmolarnir ákváðu að koma saman aftur. Það dugði ekkert minna til en 9 ára afmæli Snæfríðar minnar. Enda ekkert smá tilefni. Snæfríður er búin að hlakka til í heilt ár!

Snæfríður vaknaði eldsnemma í morgun og opnaði nokkra pakka sem hún var búin að fá. Gjafirnar pössuðu merkilega vel saman, flíspeysa, flísbuxur og regnjakki og svo smá galdrastelpudót og bók. Hún skoppaði kát og glöð í skólann í morgun, í nýju fötunum og með boðskort í skólatöskunni handa öllum bekknum (úff það verður líklega fjör).

Svo eftir skólann förum við í bæinn og Snæfríður fær göt í eyrun og eyrnalokka.

Já, stóra stelpan mín er orðin 9 ára gömul.

Fyrsta grautarskeiðin


Mmmmmmmm....... Sólveig er farin að kunna vel að meta grautinn sinn. Við byrjuðum að gefa henni graut fyrir rúmri viku og fer hann ljómandi vel í maga. Grauturinn sem hún fær er lífrænt ræktaður glútein- sykur- og mjólkurlaus grautur úr Millet korntegund og svo er hún nýbyrjuð að fá sykur- og mjólkurlausan lífrænt ræktaðan graut úr haframjöli. Já, usss, ekki kalla hana samt Sollu grænu ;-)

Sólveig er mjög áhugasöm um matmálstíma, smjattar og brosir þegar hún fær grautinn sinn. Og nú getur Einar líka gert gagn þegar hungrið sverfur að, hingað til hefur Sólveig harðneitað að þiggja neitt úr pela eða þvíumlíkum platapparötum. Það var því gaman að fylgjast með þeim feðginum um helgina þegar Sólveig rak á eftir pabba sínum í grautarmokstrinum.

Núna síðustu daga hefur hún líka tekið stórstíga framförum í því að drekka vatn úr stútkönnu, finnst samt miklu skemmtilegra að hrista hana, hvolfa henni og henda henni á gólfið heldur en að drekka úr henni.

Eyru

Nú verða fluttar eyrnafréttir.

Sólveig er orðin góð í eyrunum, Stefán eyrnalæknir kíkti á hana í vikunni, sýklalyfin hafa virkað vel og hún er alveg hrein í eyrunum, enginn vökvi og ekkert vesen. Hjúkk!

Af Sindra eyrum er ekki alveg eins gott að frétta. Fyrst smá upprifjun. Sindri hefur alltaf verið mjög slæmur í hægra eyranu, fær miklu oftar eyrnabólgur þar, og á tímabili dugðu engin sýklalyf og engar meðferðir til að stoppa sýkingar þar. Út af þessu er hægri hljóðhimnan orðin þunn og léleg, en samt er alveg líklegt að hún lagist aftur með tímanum. En hljóðhimnan er semsagt orðin það léleg að það er ekki lengur hægt að setja rör í hana, þau tolla ekkert. Sem betur fer er Sindri búinn að vera að batna mikið í eyrunum, fær bara eyrnabólgu öðru hvoru, en er ekki sílasinn lengur, og því hefur alveg gengið að hafa hann röralausan síðasta árið.

Frá því í haust hefur Sindri verið með vökva í eyrunum, með tilheyrandi heyrnarleysi (Ha?), pirringi og "óþekkt". Honum tókst ekki að losa sig við vökvann og fékk slæma eyrnabólgu um síðustu helgi og þurfti sýklalyf. Stefán eyrnalæknir kíkti á hann í vikunni og leist ekkert sérstaklega vel á batann. Það er komið gat á þunnu lélegu hægri hljóðhimnuna sem virðist ekki ætla að gróa, og svo er vökvi og slím í báðum eyrum. Meðan þetta grær ekki hefur hann ekki fulla heyrn, en góðu fréttirnar eru að honum líður betur í eyranu. Það er svo hægt að gera aðgerð til að græða bót á hljóðhimnuna seinna meir ef þetta grær ekki.

Núna ætlum við að sjá til hvað restin af sýklalyfjunum gerir fyrir hann, vonandi batnar hann meira. En annars þá fer hann eftir hálfan mánuð í smá aðgerð til að hreinsa út úr báðum eyrum og meta hvort ástæða sé til að setja rör í vinstri hljóðhimnuna.

5.11.06

Vinkonur a leið i bio


Núna stendur yfir vetrarfrí Rimaskóla. Við vorum búin að skipuleggja ferð norður yfir heiðar, búin að leggja inn pöntun fyrir skíðasnjó og bóka okkur í heimsóknir og allskonar fjör. En vegna slakrar heilsu heimilisfólks (lesist: Sólveig er enn að jafna sig) var öllum ferðalögum fjölskyldunnar aflýst í bili.

Hér stóð stór taska á gólfinu úttroðin af skíðafatnaði, krakkarnir búin að máta skíðaklossana sína og allir komnir í ferðagrírinn þegar ljóst var að bjarsýnustu menn höfðu verið of bjartsýnir. Féllu nokkur tár af þessu tilefni úr augum upprennandi skíðasnillinga.

En vetrarfrí í Hrísrima var samt ekki slæmt. Sindri er búinn að leika við vini sína daginn út og inn og hjóla út um allt hverfið. Fékk meira að segja að gista hjá Kjartani vini sínum. Snæfríður er líka búin að leika við fjöldann allan af vinkonum sínum, gisti hjá Helgu Dís og svo fóru þær saman í bíó á Draugahúsið, sem er bönnuð innan 7 ára. Voða mikið sport. Svo héldum við matarboð, fórum í afmæli, höfðum það huggulegt í sófanum með vídeómynd og nammi og já, bara tókum algjöra leti- og notalegheitahelgi.

Við gamla settið fengum okkur meira að segja barnapíu í gærkvöldi og fórum á Mýrina. Frábær mynd! Sólveig var svo yndisleg að sofa allan tímann á meðan við brugðum okkur af bæ.