Nú verða fluttar eyrnafréttir.
Sólveig er orðin góð í eyrunum, Stefán eyrnalæknir kíkti á hana í vikunni, sýklalyfin hafa virkað vel og hún er alveg hrein í eyrunum, enginn vökvi og ekkert vesen. Hjúkk!
Af Sindra eyrum er ekki alveg eins gott að frétta. Fyrst smá upprifjun. Sindri hefur alltaf verið mjög slæmur í hægra eyranu, fær miklu oftar eyrnabólgur þar, og á tímabili dugðu engin sýklalyf og engar meðferðir til að stoppa sýkingar þar. Út af þessu er hægri hljóðhimnan orðin þunn og léleg, en samt er alveg líklegt að hún lagist aftur með tímanum. En hljóðhimnan er semsagt orðin það léleg að það er ekki lengur hægt að setja rör í hana, þau tolla ekkert. Sem betur fer er Sindri búinn að vera að batna mikið í eyrunum, fær bara eyrnabólgu öðru hvoru, en er ekki sílasinn lengur, og því hefur alveg gengið að hafa hann röralausan síðasta árið.
Frá því í haust hefur Sindri verið með vökva í eyrunum, með tilheyrandi heyrnarleysi (Ha?), pirringi og "óþekkt". Honum tókst ekki að losa sig við vökvann og fékk slæma eyrnabólgu um síðustu helgi og þurfti sýklalyf. Stefán eyrnalæknir kíkti á hann í vikunni og leist ekkert sérstaklega vel á batann. Það er komið gat á þunnu lélegu hægri hljóðhimnuna sem virðist ekki ætla að gróa, og svo er vökvi og slím í báðum eyrum. Meðan þetta grær ekki hefur hann ekki fulla heyrn, en góðu fréttirnar eru að honum líður betur í eyranu. Það er svo hægt að gera aðgerð til að græða bót á hljóðhimnuna seinna meir ef þetta grær ekki.
Núna ætlum við að sjá til hvað restin af sýklalyfjunum gerir fyrir hann, vonandi batnar hann meira. En annars þá fer hann eftir hálfan mánuð í smá aðgerð til að hreinsa út úr báðum eyrum og meta hvort ástæða sé til að setja rör í vinstri hljóðhimnuna.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment