
Núna stendur yfir vetrarfrí Rimaskóla. Við vorum búin að skipuleggja ferð norður yfir heiðar, búin að leggja inn pöntun fyrir skíðasnjó og bóka okkur í heimsóknir og allskonar fjör. En vegna slakrar heilsu heimilisfólks (lesist: Sólveig er enn að jafna sig) var öllum ferðalögum fjölskyldunnar aflýst í bili.
Hér stóð stór taska á gólfinu úttroðin af skíðafatnaði, krakkarnir búin að máta skíðaklossana sína og allir komnir í ferðagrírinn þegar ljóst var að bjarsýnustu menn höfðu verið of bjartsýnir. Féllu nokkur tár af þessu tilefni úr augum upprennandi skíðasnillinga.
En vetrarfrí í Hrísrima var samt ekki slæmt. Sindri er búinn að leika við vini sína daginn út og inn og hjóla út um allt hverfið. Fékk meira að segja að gista hjá Kjartani vini sínum. Snæfríður er líka búin að leika við fjöldann allan af vinkonum sínum, gisti hjá Helgu Dís og svo fóru þær saman í bíó á Draugahúsið, sem er bönnuð innan 7 ára. Voða mikið sport. Svo héldum við matarboð, fórum í afmæli, höfðum það huggulegt í sófanum með vídeómynd og nammi og já, bara tókum algjöra leti- og notalegheitahelgi.
Við gamla settið fengum okkur meira að segja barnapíu í gærkvöldi og fórum á Mýrina. Frábær mynd! Sólveig var svo yndisleg að sofa allan tímann á meðan við brugðum okkur af bæ.
No comments:
Post a Comment