7.5.07

Grettir

Þegar við Guðrún vorum á okkar "sokkabandsárum" fórum við að sjá söngleikinn Gretti. Og skemmtum okkur svakalega vel.
Á laugardagskvöldið fórum við systurnar aftur á söngleikinn Gretti og skemmtum okkur vel - komum samt út af sýningunni með nokkra bakþanka.

Gamli Grettir skoppaði um leiksviðið á brókinni - og okkur þótti það pínu fyndið.
Nýji Grettir skoppaði jú líka um á brókinni, en klámvæðing síðustu ára hefur gert það að frekar ófyndnu atriði. Þessvegna hefur "þurft" að "krydda" sýninguna dálítið fyrir nútímafólk. Bæta við atriði með gervitippi niður að hnjám, bæta við risabrjóstum í klámmyndastíl, bæta við tvöfaldri nauðgun. Pimpa alla sýninguna svolítið upp.

Af hverju þykir nauðsynlegt að hafa svona atriði í hverri einustu sýningu sem er sett upp? Það var ekkert í söguþræðinum sem kallaði á þetta, enda sami söguþráður og í gamla Gretti. Er fullt af fólki sem kemur annars og kvartar "hei! þetta var ömurleg sýning, bara ekki eitt einasta klúrt atriði!!". "Ég á rétt á því að leikhús þjóðarinnar og borgarinnar sjái mér fyrir klúru efni!!". "Þetta er svindl, það var engin nauðgun í leikritinu mínu!!".

Málið er nefnilega að við systurnar fórum með börnin okkar á söng- og gleðileikinn Gretti. Við þóttumst nokkuð góðar því við þekktum báðar leikritið og vissum vel að það yrði skemmtilegt sjóv fyrir alla fjölskylduna. Sem það reyndar var að langmestu leiti. Mjög flott og skemmtilegt sjóv fyrir alla fjölskylduna. Og við vorum langt frá því að vera eina barnafólkið í salnum. Langt frá því. Við gleymdum bara að reikna með klámvæðingunni. Gleymdum að reikna með því hvað allir eru orðnir dofnir og ónæmir.

En sem betur fer eru börnin ekki enn orðin dofin og ónæm. Þeim fannst sýningin ótrúlega skemmtileg - en fullgróf. Er bara ekki komið nóg af þessari klámvitleysu?

4 comments:

Smooth Salvatore Bruno said...

Sammála... Ekkert meira um það að segja.

Bebba said...

Vá hvað ég er sammála þér!

Þessi klámatriði komu eins og þrumur úr heiðskýru lofti og enginn tilgangur með þeim.

Svo fannst mér líka frekar forhert hvað allir virtust fegnir að losna við Gretti eftir að hann -by the way- fyrirfór sér. Svo birtist hann í lokin og leið ekkert smá vel að vera laus við amstur lífsins!!!

Vona að þessi skilaboð hafi ekki náð til barnanna eða þunglyndra...

Þú mátt endilega eyða kommentinu mínu, ég er auðvitað að kjafta frá leikritinu... Langaði bara að bæta þessu við ;)

Gaman að rekast á ykkur :) -Líka gott að deila þessu hneyksli með einhverjum! hehehe :)

Kveðja, Bebba

Anonymous said...

Ég vil bara taka fram að við Einar berum enga ábyrgð á því að fara með börnin á þetta soraleikrit, ég er enn að jafna mig eftir þetta. Ég er þegar búinn að segja Gunnari og Þóru frá þessu og framvegis munum við ekki leyfa Guðrúnu og Lólu að velja leikrit.
Nonni.

Jóhanna said...

Uss, Bebba, ég fer nú ekki að eyða út kommentum frá fólki sem er svona skemmtilega mikið sammála mér ;-) Gaman að rekast á ykkur sömuleiðis.

Nonni, ég veit ekki til þess að málið hafi verið tekið fyrir á fjölskyldufundi. Við Guðrún munum ekki gefast upp baráttulaust!!