14.5.07

Listrænt UmhverfisPirr



Við tókum laugardaginn snemma og drifum okkur niður í bæ til að sjá risann og risessuna. Græna fjölskyldan fór með strætó í bæinn, enda er það þægilegur ferðamáti fyrir fólk með barnavagn sem leiðist bílastæðahössl.

Niðrí í bæ komum við okkur fyrir á besta stað, þar sem auglýst hafði verið að risinn og risessan myndu mætast. Þökk sé strætó, þá vorum við mjög tímalega. En risinn og risessan létu bíða eftir sér. Við vorum nær dauða en lífi úr kulda í rokrassgatinu niðri í bæ þegar við fréttum loksins að franska listafólkinu hafi fundist svo fáir mættir um morguninn að þau ákváðu leggja seinna af stað. Helv.... listamafía tautaði ég um leið og ég smalaði öllu krakkagenginu inn í hlýjuna á Listasafni Íslands. Gat enginn sagt þessum frökkum frá því að á Íslandi mætir hvortsemer aldrei neinn á réttum tíma neinsstaðar!

Listasafn Íslands færði okkur yl í kroppinn um leið og við skoðuðum sýningu á verkum Svavars Guðna. Okkur var orðið mátulega hlýtt þegar við hlupum út af safninu í tæka tíð áður en risinn og risessan hittust. Þau stóðu undir væntingum, frábær skemmtun og hápunkturinn var þegar risinn spýtti vatni á Sindra. Næst var kaffihúsaferð, svo fylgdumst við með risanum og risessunni vakna eftir blund á Lækjartorgi og halda áfram leið sinni um borgina og loks var kominn tími til að fara aftur heim með strætó.

Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Eftir hálftíma bið í smekkfullu biðskýli í Lækjargötu var hringt í þjónustusíma Strætó og fengnar þær upplýsingar að strætó stoppar bara alls ekkert þar í dag. Troðfullt biðskýlið sameinaðist í nöldri, pirringi og kvarti yfir ömurlegri þjónustu. Hefði ekki verið hægt að setja upp skilti í biðskýlinu - strætó stoppar ekki hér í dag. En jæja, við tókum okkur stöðu í öðru troðfullu biðskýli fyrir utan Ráðhúsið. Þar ríkti algjör kaós, pirrað fólk að bíða eftir alltof seinum vögnum. Eftir rúmlega hálftíma bið kom okkar strætó. Það kostaði smá útsjónarsemi að koma barnavagninum inn í troðfullan vagninn þar sem fyrir voru 3 reiðhjól. Þegar við bættust 6 blindfullir Pólverjar, þá fannst mér strætó ekkert spennandi ferðamáti lengur. En heim komumst við á endanum, klakklaust, í tæka tíð fyrir júróvisjón og kosningapartí.

6 comments:

Grandavegur said...

Til að ferðast með strætó þarf maður að vera í góðu andlegu jafnvægi (stunda jóga og ýmis fleiri austurlensk slökunarfræði). Þá er það ekkert mál. Maður kemst á leiðarenda að lokum.
Leikritið um ævintýri Risessunnar og karls föður hennar fannst mér frábært. Loksins kom listahátíð til okkar (við höfum held ég aldrei farið á listahátíð fyrr ..)

Jóhanna said...

Já, jóga er algjörlega málið og helst innhverf íhugun líka. Svo þarf maður að vera lipur og snjall í að troða sér, viðbragðsfljótur til að halda jafnvægi í skrykkjóttum strætóakstrinum og forða sér undan hurðum sem opnast og lokast á mann, já og svo þarf maður að hafa nákvæmlega ekkert skárra við tímann að gera heldur en að bíða og bíða aðeins meira. Já og líka umburðarlyndur gagnvart blindfullum Pólverjum sem búa í iðnaðarhúsnæði uppi á Höfða og áreita ungar stúlkur í strætó.

Anonymous said...

Vá hvað ykkur er illt elsku bestu systur..
Ég sat við hliðina á illa lyktandi manneskju í illa lyktandi strætó, sem átti erfitt með að lokast, sem er ekkert svo sniðugt þegar strætó er fullur, en öllu þessu tekur maður með jafnaðargeði. Skil heldur ekkert þetta með að vera að pirrast yfir vöntun á upplýsingaskorti á strætóstöðvum, finnið þið þetta ekki á ykkur?
R.

Jóhanna said...

Rúnar minn, ég skal bjóða þér rúnt í reykvískum strætó þegar þú kemur heim í sumar. So skal vi snakke sammen.

Anonymous said...

R. hér og R. þar - það eru franskan og almenningssamgöngurnar sem lokka R-ið fram í bloggheima.

Vá, ég er sko líka til í að rúnta með þér í strætó þegar þið komið heim. Sting upp á leið 17. Komum við í ísbúðinni Álfheimum, tökum svo vanginn áfram upp í Breiðholt (finnum okkur áreiðanlega eitthvað að gera þar t.d. eitthvað kúltíverað í Gerðubergi). Við getum talað saman á frönsku á leiðinni.

Jóhanna said...

Já, Rúnar fer á kostum í bloggheimum þessa dagana. Spurning, ef við bjóðum honum rúnt í frönskum strætó, hvort hann endi ekki með að fara að blogga sjálfur ;-)