6.7.07

Kolefnisjöfnun....


Heggurinn var stór

Reynitrésplönturnar voru mjög litlar.

Ég átti mjög gott samtal við Balla hennar Elvu um gróðursetningar í sumarbústaðalöndum. Hann er hámenntaður garðyrkjufræðingur og gaf mér mörg góð ráð. Við vorum algjörlega sammála um að í trjáræktinni okkar í Torfastaðakoti yrði lögð áhersla á gæði, en ekki magn. Ekki dritað niður fullt af plöntum í algjöru hugsunarleysi. Neibb, þannig verður það nú ekki hjá okkur. Vönduð og úthugsuð útplöntun á gæðaplöntum. Einmitt.

Svo renndi ég austur í gær með Sindra og Sólveigu til að fylgjast með framkvæmdum og datt í hug að kippa með mér nokkrum plöntum í leiðinni til að hola niður. Bara smá byrjun. Datt inn á garðyrkjustöð Ingibjargar í Hveragerði og spjallaði heillengi við Ingibjörgu sjálfa sem gaf mér ýmis góð ráð. Fékk hjá henni á fínu verði 20 víðihríslur, 2 úlfareyniplöntur, 4 heggi, 1 broddfuru og svo sinn hvorn bakkann af reynitrjám og sitkagreni. Það fór lítið fyrir þessu í skottinu og ég hlakkaði til að fara að pota þessu niður.

Það runnu samt fljótlega á mig tvær grímur þegar gróðursetningin hófst, því þá áttaði ég mig á því að alls voru þetta yfir hundrað plöntur. Úff.. var ég ekki eitthvað að tala um magn og gæði.... Á endanum holaði ég meirihlutanum niður á harðaspretti hér og þar um landið, hvar sem auðvelt var að stinga niður skóflu. Úthugsuð útplöntun hvað!

Sem betur fer hafði ég 2 unga og góða aðstoðarmenn, Sindri og Óli Þorri stóðu sig mjög vel í gróðursetningunni. Svo verður spennandi að sjá hvað af þessu lifir veturinn af og enn meira spennandi að sjá trén spretta upp á öllum þessum óvæntu og óskipulögðu stöðum.

2 comments:

Anonymous said...

HÆHÆ
Vissi ekki að þú værir með svona grænar fingur! Fæ reyndar ullu þegar minnst er á kolefnisjöfnun en eigi að síður gott framtak hjá þér. Ég mæli með lindifuru nálægt bústaðnum. Gott fyrir augað.
Baráttukveðjur í frekari stígvélastörfum.

Jóhanna said...

Sama hér, fæ gubbu af þessum kolefnisauglýsingum. Mér fannst þetta voða sniðugt í byrjun, hélt að fólk yrði voða meðvitað um að þessir risa bensínhákar væru keyrandi mengunarslys og allir færu á umhverfisvænni bíla.
En í staðinn stálu bílaumboðin glæpnum og nota þetta til að láta fólk kaupa sér fleiri bíla, stærri bíla, menga meira- þeir eru allir grænir. Algjör gubba.