Þegar við komum heim frá Frakklandi vantaði Snæfríði eitthvað að gera, og því ákvað hún að prófa að mæta á fótboltaæfingar hjá Fjölni. Þetta eru hörku æfingar með frábærum þjálfara og skemmtilegum stelpum og það á nú vel við hana Snæfríði mína. Og svo var verið að tala um að fara á Símamótið, sem er stórt mót fyrir fótboltastelpur, og þangað vildi hún Snæfríður komast. Að vísu náði hún bara að æfa í rúma viku, fór svo í sumarbúðirnar í Vindáshlíð í eina viku og svo náði hún síðustu æfingunni fyrir mót, þar sem aðallega voru æfð mörg og frumleg "fögn" enda stóð til að skora fullt af mörkum.
Í fyrsta leiknum byrjaði Snæfríður á varamannabekknum í B- liðinu, enda bara nýbyrjuð í boltanum. Liðinu hennar gekk bara ágætlega og Snæfríði líka og hún fékk að koma meira og meira inná eftir því sem leið á mótið. Að lokum endaði liðið hennar í 6. sæti, sem er mjög góður árangur, og í síðasta leiknum var Snæfríður komin í byrjunarliðið og endaði á að skora síðasta markið fyrir liðið sitt. Glæsileg byrjun á boltaferlinum hjá þeirri stuttu!
Mótið var mjög skemmtilegt, en eftirminnilegastur er líklega leikurinn á móti Framstelpum, sem fór 14-1 fyrir Fjölni. Litlu Framstelpurnar voru greinilega allar ungar og nýbyrjaðar og gekk alls ekki vel að koma boltanum yfir á hinn vallarhelminginn. Það endaði með þvi að dómarinn gekk í lið með þeim, tók fyrir þær útspörk, gaf sendingar og fyrirgjafir og endaði svo með því að þvæla upp allan völlinn og skora mark fyrir þær. Og þá klöppuðu allir foreldrarnir á hliðarlínunni, bæði Framforeldrar og Fjölnisforeldrar :-) Flottur dómari!
1 comment:
Þú ert ótrúlega flott fótboltastelpa Snæfríður. Það hefði verið gaman að sjá þig skora markið og fylgjast með "fagninu" en það verða örugglega tækifæri til þess síðar.
Post a Comment