13.11.08

Fágæt perla


Árið 1969 samdi David Bowie og tók upp lagið Conversation Piece. Lagið var gefið út á b-hlið smáskífunnar Prettiest Star árið 1970, eða um svipað leiti og ég var byrjaður að hlaupa á eftir bolta á Eiðsvellinum græna! Lagið vakti enga athygli og lá í gleymskunar dá þangað til DB tók það upp á nýjan leik 30 árum síðar og gaf það út á b-hlið smáskífu af Heathen. Ég læt báðar útgáfur fylgja með en þær eru mjög ólíkar. Það þarf að hlusta á lagið 2-3svar til að ná því en það er þess virði, alveg satt:-)

1970:
http://www.youtube.com/watch?v=GQHb9y6g22U

2000:
http://www.youtube.com/watch?v=TEqB9otr0SU&NR=1

30.5.08

Jarðskjálftar

Eftir jarðskjálftann í gær kveikti ég auðvitað á útvarpinu. Svissaði reglulega milli rása til að missa örugglega ekki af neinu. Datt inn á þátt þar sem fólk hringdi inn og lýsti eignatjóni og skelfingu, en líka heppni og þakklæti yfir því að ekki fór verr.

Glaðhlakkalegur maður hringdi inn, heilsaði útvarpsmönnum kumpánlega og kynnti sig: "Sturla Jónsson hér". "Já, við erum nú aldeilis búnir að hrista upp í þjóðfélaginu " sagði hann ánægður með sig og hló. Nokkuð fát kom á útvarpsmennina, ".. hrista upp... ha? " sögðu útvarpsmennirnir ráðvilltir. "Já" , svaraði sá glaðhlakkalegi og vitnaði í einhverjar mótmælaaðgerðir á austurvelli. Þetta var semsagt talsmaður vörubílstjóra. Hann taldi víst að náttúruöflin hefðu gengið í lið með trukkabílstjórunum og var svona glimrandi ánægður með liðsaukann. Útvarpsmennirnir afgreiddu hann snarlega, "Jájá, Sturla, en núna erum við ekki að tala um mótmælin, og vertu blessaður" sögðu þeir og skelltu á blaðskellandi trukkabílstjórann.

Sturla Jónsson er sami maður og safnaði liði á palla alþingis og gerði hróp að þinginu þegar samþykkt var veita neyðaraðstoð til Kínverja vegna jarðskjálftanna þar. Á meðan fjöldi kínverja lá grafinn lifandi í rústunum mótmæltu Sturla og félagar harðlega og sáu ofsjónum yfir þeim 7,8 milljónum króna sem íslendingar ákváðu verja til neyðaraðstoðar. Hrópuðu til alþingismanna að þeim væri nær að hugsa um hörmungarnar heima fyrir. Olían hefur hækkað í verði og við þurfum að borga meira, það eru sko hörmungar í lagi. Þeim fannst réttara að þessum 7,8 milljónum yrði varið í neyðaraðstoð til trukkabílstjóra.

Fyrir þessum mönnum er suðurlandsskjálfti með tilheyrandi eignatjóni og slösuðu fólki bara gott tækifæri til að vekja athygli á háu olíuverði og þeim "hörmungum" sem trukkabílstjórar þurfa að þola vegna þess.

Eftir á að hyggja, þá þurfa þessir menn líklega einhverskonar neyðaraðstoð.

10.4.08

Góðar fréttir!!!

Í dag fengum við aldeilis frábærar fréttir. Sindri fór í eftirlit til Friðriks eyrnalæknis til að sjá hvernig gengi með nýju hljóðhimnuna og kom út með hæstu einkunn. Þetta er greinilega algjör ofurhljóðhimna hjá honum, því hún er fullkomlega gróin. Bara núna strax. Alveg langt umfram bestu vonir sem okkur voru gefnar. Allt lítur út eins og það getur best orðið. Nýja hljóðhimnan er alveg gróin, alveg þétt og ekki einu sinni minnsta rifa á henni. Og, já, bara allt alveg frábært!!



Maður þorir varla að trúa þessu. Við vorum jú alveg búin að taka eftir því að heyrnin hjá Sindra hafði snarbatnað og vorum þessvegna nokkuð vongóð þrátt fyrir að Sindri hefði lagst í 10 daga flensu og kvef strax eftir aðgerðina. En við reiknuðum samt með að það tæki nokkra mánuði fyrir hljóðhimnuna að gróa alveg, og það var hálfpartinn búið að undirbúa okkur undir að það gæti jafnvel þurft aðra aðgerð seinna til að klára að loka þessu stóra gati.

Þessi aðgerð nefnilega gengur út á að græða einskonar lepp á bak við þessar fáu tætlur sem eftir voru af gömlu hljóðhimnunni, pakka öllu inn í þétt og hagstætt umhverfi og vona svo bara að gamla hljóðhimnan vaxi og skríði saman ofan á þessum lepp. Og það getur tekið langan tíma og það er algengt að hún nái ekki alveg saman í miðjunni og eftir standi svolítið gat, sem hægt er svo að loka í næstu umferð.

En nei nei, ekkert slór, þetta tókst bara fullkomlega í fyrstu tilraun, og einungis mánuði eftir aðgerð er komin þessi fína og flotta og þétta hljóðhimna. Enda var Friðrik læknir kátur og glaður og gaf high-five á línuna. Þegar hann sagði að Sindri mætti núna fara í sund og kafa eins og hann vildi, jafnvel bara strax í dag, þá fyrst áttuðum við okkur á því að hann væri í alvörunni að meina að þetta væri fullkomlega gróið.

... eða ég held ég sé ekki enn búin að átta mig alveg á þessu.

Fjölnismeistarar í hópfimleikum



Um helgina var innanfélagsmót Fjölnis og hópurinn hennar Snæfríðar kom heim með bikar, og titilinn Fjölnismeistarar í hópfimleikum. Glæsilegt hjá stelpunum!

15.3.08

Systkinakærleikur

Snæfríður er búin að dekra við bróður sinn síðustu daga, og þau eru búin að vera svoooo góð saman. Alveg frá því hún skreið uppí til hans á spítalanum, knúsaði hann og hjálpaði til við að setja saman pleimóið, alveg fram á daginn í dag þegar þau sitja saman uppi í sófa í góða veðrinu og horfa á vídeó.

Sindri telur niður klukkutímana á daginn þangað til Snæfríður kemur heim úr skólanum. Og hún á alltaf smá tíma til að sinna litla bróður sínum og leika við hann, þótt hún komi heim með fullt af vinum. Algjör sælutími.

Snæfríður skrifar sögu

Snæfríður setti saman þessa sögu.

Aðgerðin hans Sindra

Einu sinni var strákur sem hét Sindri. Hann var að fara í aðgerð út af eyranu. Hann fór á mánudagsmorgni upp á spítalann, hann fór á skurðstofuna og þar átti að svæfa hann. Það átti að stinga nál í hann og læknirinn gerði það, en það virkaði ekki. Þá var stungið í hina hendina og það gekk heldur ekki, þá var stungið aftur í hina hendina og þá gekk það. En þá var Sindri orðinn hræddur og vildi ekki fara í aðgerðina en hann fór í hana.

Svo þegar hann vaknaði leið Sindra rosa illa og var að reyna að rífa umbúðirnar af og var svo illt og svo gat hann ekki sofnað. Svo fékk hann verkjalyf og þau virkuðu ekki, þá fékk hann meiri verkjalyf og meiri en það virkaði ekki og á endanum sofnaði hann.

Þegar hann vaknaði fékk hann súrmjólk en hann ældi því. Þá fékk hann brauð en hann ældi því og svo fór hann bara að horfa á mynd. Hann horfði á Mr. Bean og Starvos. Svo kom mamma hans og systur hans með gjöf á sjúkrahúsið, hann fékk blóm, pleimóeldhús og pleimókrakka sem er í hjólastól. Svo komu Guðrún, Signý og Óli. Þau komu líka með gjöf, hann fékk blóm, bíl og Tinna DVD mynd og sleikjóvönd. Hann var ánægður með þetta.

Svo fékk hann sér brauð með banana og hann ældi af því þannig að hann fékk frostpinna og þá leið honum betur. Svo fóru allir nema pabbi og þeir gistu þar.

Endir.

Aðgerðin gekk vel

Já, aðgerðin gekk ljómandi vel, nýja himnan lokar núna gatinu á hljóðhimnunni og núna bíðum við bara í 2-3 vikur og sjáum hvort þetta grói og festist eins og það á að gera.


Sindri með Friðriki lækni.


Fyrsti dagurinn eftir aðgerðina var erfiður, Sindri vaknaði illa úr svæfingunni, var með mikla verki og fékk mikið af verkjalyfjum, þurfti súrefni og ældi svo frameftir kvöldi.


Svo vaknaði hann eldhress daginn eftir, kom heim um hádegi og hefur síðan þá verið sprækur sem lækur. Við tökum því samt rólega hérna heima, hann hefur ekkert farið í skólann og má ekkert fara í íþróttir næstu vikur. Allt til að auka líkurnar á að þetta grói vel og vandlega.

9.3.08

Á morgun

Sindri fer í aðgerðina sína eldsnemma í fyrramálið.
Hann hlakkar mikið til. Ég er hálfkvíðin. Það er aldrei gaman þegar þarf að krukka eitthvað í börnin manns.

4.3.08

Jæja, hlæjið ykkur nú máttlaus

Gömul bekkjarmynd .....ómæómæ!

Tímamót

Jæja, jæja. Þá er þetta að bresta á. Á næsta mánudag leggst Sindri inn á spítala til að láta græða nýja hljóðhimnu í hægra eyrað sitt. Aðgerðin sjálf er stutt, uþb. hálftími og ef allt gengur vel þá verður hann kominn heim daginn eftir.

Aðgerðin fer þannig fram að fyrst er skorið í vöðva fyrir ofan eyrað og sótt þangað himna. Svo er sú himna grædd í hlustina á honum, og þetta verður nýja hljóðhimnan hans.



Gamla hljóðhimnan var orðin alveg ónýt. Síðustu 2 árin hefur verið gat á þessari hljóðhimnu sem hefur bara farið stækkandi, og nú er svo komið að það er næstum ekkert eftir af henni. Þessi vetur hefur verið erfiður eyrnabólguvetur fyrir Sindra, en núna koma flestar sýkingarnar utanfrá (þ.e. ekki út af kvefi heldur bakteríum sem eiga greiðan aðgang inn í eyrað þegar engin hljóðhimna er). Hann er hættur að geta farið í sund án þess að fá eyrnabólgu í kjölfarið.


Þetta er mynd af heilli hljóðhimnu og svo einni með gati. Sindra gat er talsvert stærra en þetta.

Og svo heyrir hann náttúrlega mjög illa (HA!?), á erfitt með að staðsetja hvaðan hljóð koma, er sjálfur svolítið hávær osfrv.

Ef aðgerðin heppnast vel, þá mun vonandi eyrnabólgunum fækka verulega hjá honum. Og heyrnin á að batna mikið.
Sindri hlakkar mikið til (er alveg JESS! og JIBBÍ þegar er minnst á aðgerðina). Hann hlakkar auðvitað til að batna í eyranu, að fara að heyra betur og komast aftur í sund. Og svo er pínu kúl að fá frí í skólanum og leggjast inn á spítala ;-)



Við foreldrarnir reynum að halda aftur af væntingum hjá okkur. Árangurinn af þessum aðgerðum er samt almennt góður, 85-95% (ég er auðvitað búin að liggja yfir öllum síðum á netinu þar sem fjallað er um þetta), þannig að sýkingum fækkar og heyrn batnar í langflestum tilfellum. Aðgerðin sjálf gengur yfirleitt vel, en svo þarf að halda eyrum, nefi og kinnholum hreinum í nokkurn tíma á eftir, því þessi ný-ígrædda hljóðhimna eyðileggst auðveldlega við svoleiðis álag fljótt eftir aðgerðina. Sindri má ekki hnerra og alls ekki snýta sér fyrstu dagana á eftir. Ekkert hopp og hí og engin slagsmál, engir boltar í haus. Og ekkert sund í heila 4 mánuði á eftir. Ætli við vefjum hann ekki bara inn í bómull, allavega svona til að byrja með. Úff, eins og það er nú auðvelt með 7 ára gaur.

En jæja, við förum upp á spítala á föstudaginn, hittum læknana og förum í undirbúning fyrir aðgerðina. Þá kemur það betur í ljós hvernig við eigum að haga okkur eftir aðgerðina. Um helgina á Sindri að keppa í körfubolta í Njarðvík (ef læknarnir hafa ekkert við það að athuga) og svo er það bara aftur spítalinn eldsnemma á mánudagsmorgun. Krossum putta :-)

19.2.08

Ljós

Eftir nokkuð framkvæmdahlé í bústaðnum, þá er núna komið að því að taka síðasta langa lokasprettinn. Það er hreint ótrúlegt hvað það er fljótlegt að byggja hús með veggjum og þaki, en að sama skapi grátlega seinlegt að leggja rafmagn, hita og klára allt innanhúss. En þetta mjakast.

Ég fór og keypti nokkur ljós í bústaðinn um daginn, svona til að það verði ekki allt rússneskt hjá okkur. Fann nokkur ágæt ljós í Húsasmiðjunni og fékk góða aðstoð frá afgreiðslukonunni við að velja rétta stærð af sparperum í þau.

Sparperur eru nefnilega algjörlega málið. Nema þar sem maður ætlar að nota dimmer. Sparpera er alltaf annað hvort on eða off, hún kann ekki að vera neitt þar á milli. Sparperur nota aðeins 25% af orkunni sem venjulegar ljósaperur nota og endast miklu MIKLU lengur. Í staðinn fyrir að skipta um peru einu sinni á ári, þá þarf maður að skipta á 8-10 ára fresti. Venjulegar ljósaperur nota stærsta hlutann af orkunni í að mynda hita, sparperur eru kaldar og nota orkuna nær eingöngu í að búa til ljós. Miklu sniðugra.



Maður heldur alltaf að rafmagnssparnaður í ljósaperum sé svo pínkupons og oggulítill að það taki því ekki að hugsa um það. En ef öll heimili á landinu myndu skipta út tíu venjulegum perum fyrir sparperur gæti orkusparnaðurinn verið um 180 gígavattsstundir á ári. Það er samanlögð orkuframleiðsla Laxárvirkjana. Það er ekkert pínkuponsuoggolítið, heldur alveg heilmikið af orku sem við erum að eyða í algjöru tilgangsleysi.



Borgaryfirvöld í Rotterdam ætla að dreifa sparperum til allra heimila í borginni til að ná fram markmiðum sínum um 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, og borgarbúar munu spara sér 26 milljónir evra í rafmagnsreikning. Danir gerðu sparperuátak fyrir stuttu og stefna nú að því að önnur hver pera á dönskum heimilum verði sparpera.

En, jæja, ég var stödd í húsasmiðjunni með nokkur ljós í fanginu og innblásin af umhverfisvitund bað ég afgreiðslustúlkuna um að redda mér sparperum sem pössuðu í ljósin - sem hún gerði. Ég fór á kassann og borgaði reikninginn, hugsaði reyndar um það á leiðinni út að þessi ljós væru nú ekki ókeypis, en spáði ekkert í það meir. Þangað til ég var komin heim og las reikninginn. Þá sá ég að ég hafði keypt sparperur fyrir meira en 14.000 kr! Sjö perur á yfir tvöþúsundkall stykkið! Gæðasparperur frá Osram kosta bara 500 kall í Bónus, og IKEA selur þetta á einhvern slikk, þannig að þarna er húsasmiðjan alveg úti á túni. Spar.. hvað? Svindlarar. Það er engin furða að sparperuvæðing Íslendinga gangi hægt með svona okri.

Á morgun fer ég í Húsasmiðjuna og skila okursparperunum og kaupi sparperur í Bónus í staðinn. Þetta er bara rugl.

8.2.08

Litla systir



Bæði Snæfríður og Sindri dekra litlu systur sína daginn út og inn. Hún fær alltaf að leika með þeim við vini þeirra, henni sjálfri finnst það mjög sanngjarnt - hún lítur á sig sem jafnaldra þeirra allra. Hún fær að dansa og leika í Bratz með stóru stelpunum, leika í bíló með strákunum, og svo eru þau óþreytandi í að leika við hana alls konar smábarnaleiki, eltingaleiki, feluleiki, dúkkuleiki, púsla, kubba og hvaðeina. Hápunkturinn var um daginn þegar Sólveig fékk að fara með þeim út að renna sér á snjóþotu.



Við foreldrarnir þurfum að hafa okkur öll við svo við lendum ekki of neðarlega á vinsældarlistanum hjá þeirri stuttu.

Öskudagur

Venjulega hefur Rimaskóli haft starfsdag á öskudaginn, þannig að börnin geti haft nægan tíma til að ganga í búðir og syngja fyrir nammi - og starfsfólk skólans fær frið á meðan fyrir undirbúningsvinnu. En þetta var ekki svona í ár.

Núna notaði Rimaskóli heimildir sínar fyrir "skertum skóladegi" á öskudag, og það kom bara mjög vel út. Börnin mættu máluð og búningaklædd í skólann kl 8:10 eins og venjulega, og svo var bara slegið upp góðri öskudagsskemmtun í skólanum til kl. 11.
Þá komu Snæfríður og vinkonur hennar hlaupandi heim til að láta keyra sig í Kringluna. Þar gengu þær búð úr búð í klukkutíma og svo skutlaðist ég með þær í nokkur gjafmild fyrirtæki upp á Ártúnshöfðanum á leiðinni heim.
Sindri var sóttur af mömmu vinar hans í skólann, og hún sá um að fylgja þremur félögum búð úr búð, bæði hér í hverfinu og líka upp á Höfða.



Krakkarnir voru hæstánægð með daginn. En mér heyrist að fullorðnir Reykvíkingar almennt hati þennan dag. Blóta í sand og ösku þessum gráðugu nammisníkjandi krakkafrekjum. Snæfríður og vinkonur mættu líka dónaskap í sumum búðum í Kringlunni, starfsfólkið sumsstaðar alveg hundleiðinlegt.

Það er náttúrlega engin hefð fyrir svona öskudegi hér í Reykjavík. Reykvíkingar eru almennt vanir því að aðalspenningurinn á þessum degi snúist um hvort þeim takist að næla öskupoka í vini og nágranna án þess að þeir taki eftir því. Gráðugur nammisníkjandi krakkaskríll hefur einhvernveginn ekki alveg sama sjarmann.

Á Akureyri er sterk hefð fyrir öskudeginum, þar er fólk alið upp við þetta og kann á þetta. Byrjað snemma um morguninn og allt búið um hádegi. Kötturinn sleginn úr tunninni á torginu. Metnaður í búningum og söng.



Mínar öskudagsminningar frá Akureyri eru skemmtilegar. Það var byrjað tímanlega á að safna í stórt og gott öskudagslið. Svo voru haldnar söngæfingar, því flottari og betri söngur - því meira nammi gátum við uppskorið. Búningamálin útheimtu mikinn metnað. Einu sinni vorum við allar persónurnar úr Rauðhettu og Úlfinum, annað skipti kúrekar og indjánar, önnur skipti eitthvað blandað. Allir búningar heimagerðir að sjálfsögðu. Svo var vaknað eldsnemma á öskudag, enginn keyrður neitt, heldur labbað niður í bæ og sungið eftir kúnstarinnar reglum á hverjum stað. Gjarnan lágmark að syngja 2-3 löng lög á hverjum stað, og frammistaðan skipti máli upp á nammiskammtinn. Fastir liðir voru að syngja á Bautanum fyrir franskar, fá pylsur á Kjötiðnaðarstöðinni og gos í Sana. Svona góðgæti fékk maður sko ekki á hverjum degi. Svo var farið heim til einhvers úr liðinu og namminu skipt á milli liðsmanna.

Nammið sem við uppskárum, 5-10 manns í öskudagsliði, eftir metnaðarfullan söng og mikið labb um allan bæ, var svona svipað magn og eitt barn fær núna fyrir 2ja tíma skrepp og keyrslu. Hvergi fengu börnin mín að syngja meira en eitt lag, mjög oft voru þau beðin um að hafa lagið stutt og einstaka staður bara afhenti nammi og afþakkaði allan söng.

Á örfáum stöðum var þeim hrósað fyrir góða framkomu og fallegan söng og þau fengu stundum aukanammi fyrir. Það er einmitt rétta leiðin til að losna við gráðugan nammisníkjandi krakkaskríl. Að setja smá metnað í þetta. Ef Reykvíkingar ætla að halda gleðilegan öskudag, þá þurfa þeir að læra alla hefðina, ekki bara þetta með nammið.

30.1.08

Hvar eru nýyrðasmiðirnir?

Kenning mömmu minnar um þjóðfélagsumræður á Íslandi, ætlar að reynast sönn. Einu sinni enn. Kenningin er nokkurnveginn svona: "Í byrjun rís umræðan hátt og stór orð falla, en fljótlega lognast hún út af í langdregnum þrætum um íslenskt mál".

Í gegn um árin höfum við séð ótal staðfestingar á þessari kenningu móður minnar. Gott og nýlegt dæmi er umræðan um hjónaband samkynhneigðra sem fór hátt fyrir nokkru.
Stór orð féllu um mannréttindi, trúarbrögð, synd og syndleysi, umburðarlyndi og eðli. En fljótlega fór umræðan að snúast um orðanotkun: að sama hvað öllum mannréttindum eða prinsippum líði, þá bara gangi alls ekki að nota orðið hjónaband bæði um samband konu og karls og líka um samband tveggja einstaklinga af sama kyni.
Umræðan veltist fram og aftur um þetta nýja sjónarhorn og svo endaði hún með því að ýmsir snjallir nýyrðasmiðir komu fram með tillögur að nýrri orðnotkun. Málið hefur ekki fengið nokkra einustu umfjöllun síðan þá.


Fyrir viku síðan var framið valdarán í ráðhúsinu og það varð allt vitlaust. Fólk hafði hátt og tók sér stór hugtök í munn; lýðræði, valdagræðgi, hagsmunir borgarbúa, spilling, svik, óheilindi osfrv. Öldurnar lægði fljótt og núna snúast áhugaverðustu umræðurnar um orðanotkun borgarstjóra.

Hvort var nú réttara af honum að segjast vera "niðurdreginn" eða "geðveikur"? Átti hann kannski helst að segja þunglyndur? Hvort átti hann að ræða um "heilsufarslegan mótbyr" eða segjast hafa farið í þunglyndismeðferð? Ætli það hafi verið skrifað vottorð upp á "andlegt mótlæti"?

Já, þegar stórt er spurt..... og þegar við bætast heitar umræður um það hvort spaugstofan sé fyndin eða ekki - þá hefur barasta enginn áhuga á umræðum um lýðræði eða pólitísk vinnubrögð. Ég bíð núna eftir að nýyrðasmiðirnir finni einhvern flöt á umræðunni, og þá erum við laus við þetta mál.

Hér er reyndar skemmtilegt blogg um orðanotkun borgarstjóra, skrifað af konu með reynslu.

27.1.08

Ekki meir

Ólafur Eff er örugglega ágætis kall, og það er örugglega rétt hjá honum að hann sé ekki fyrirgreiðslupólitíkus eða viðriðinn alls konar spillingarmál og einkavinavæðingu. Það eru auðvitað góðar fréttir og gott mál.

Sjálfstæðismenn eiga örugglega eftir að vera duglegir í borginni og koma ýmsum málum áleiðis eins og gengur. Þeir eiga eftir að vinna að alls konar góðum og þörfum málum og það er gott. Það sem ég hef meiri áhyggjur af, það eru vinnubrögðin og baktjaldamakkið og blekkingarnar. Það er alls ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir.

Það er eitthvað kunnuglegt við vinnubrögðin: Í REI málinu var Villi að makka eitthvað með nokkrum góðvinum, enginn tími til að kanna málin til hlítar, "bara kíla á þetta strákar, drífum í þessu". Allt leynilegt. Enginn fékk að vita neitt, það átti bara að ganga frá öllu fljótt og vel og úthluta ríflegum bittlingum. Meiraðsegja sexmenningarnir, samherjar hans Villa fengu ekkert að vita og ekkert um málið að segja, áttu bara að kyngja.

Og svo hrundi þetta allt yfir hann. Gríðarleg reiði almennings, vantraust og reiði samherja, blekkingar, svik og lygar og gamli góði Villi bara "gleymdi" að lesa minnismiða. Reyndi að ljúga sig út úr vandræðunum, en endaði með að játa á sig mistök og biðjast afsökunar.

Það er óhugnalegt hvernig ferlið endurtekur sig nákvæmlega við myndun nýja borgarstjórnarmeirihlutans. Sami hraðinn, jafnmikið leynimakk, örfáir einkavinir, og núna neyðast sexmenningarnir til að kyngja. Núna "gleymdist" að tékka grundvallaratriði eins og bakland Ólafs, hvort hann hafi einhvern stuðning. Og aftur rís upp reiðialda meðal almennings, við erum búin að fá nóg af svona vinnubrögðum! Svona viljum við ekki láta stjórna borginni! Ekki meira svona!!!

Og núna væla sjálfstæðismenn eins og þeir geta um það hversu vondir allir eru við Ólaf Eff. Ofsóknir vinstri manna á geðheilsu borgarstjóra. Bíddu voru það ekki þeir sjálfir sem rifu hann út í hringiðuna nýkominn úr veikindaleyfi? Voru það ekki þeir sjálfir sem lugu að honum og buðu honum gull og græna skóga og plötuðu hann til samstarfs? Var það fallega gert?

Og almenningi kemur jú alveg við af hvaða toga veikindi borgarstjóra eru. Það skiptir víst einhverju máli hvers konar andleg veikindi hann á við að stríða. Við þurfum engin smáatriði, við þurfum bara að vita um hvað er að ræða. Hreinskilið svar. T.d. yrði ég ekki hrifin af því að hafa borgastjóra með geðklofa, sem heyrir raddir, er fullur af ranghugmyndum og ofsóknarbrjálæði. Borgarmálin eru nógu klikkuð fyrir. Eða borgarstjóra sem væri manio-depressive, og myndi í maníu ætla að sigra heiminn með borgarsjóð að vopni. Nei, geðræn vandamál eru misalvarleg og ekki hægt að setja þau öll undir sama hatt.

En eftir því sem Ólafur Eff gefur í skyn í blöðum í dag, þá er hann búinn að glíma við þunglyndi, eins og þúsundir annarra íslendinga hafa gert. Hann segir þetta samt ekki hreint út, gefur þetta bara í skyn. Og það eru ótal dæmi um farsæla þunglynda stjórnendur, engin ástæða til að óttast það neitt sérstaklega ef fólk sækir viðeigandi meðferð. Ég held að ef hann hefði komið þessu hreinskilnislega frá sér strax í upphafi, þá hefði hann uppskorið mun meiri skilning, traust og stuðning, og spaugstofunni hefði ekki þótt fyndið að sýna hann sem rúmliggjandi "kúkú" geðsjúkling. Nema það sé ekki öll sagan sögð. Ég held að borgarstjórn þurfi núna að vinna fyrir trausti almennings.

Og traustið verður ekki unnið með því að lækka fasteignaskatta um 100 milljónir fyrir hádegi og drífa svo í því eftir hádegi að eyða 500 milljónum í einhverja ónýta kofa á laugaveginum. Samtals eru þetta 600 milljónir sem borgarsjóður verður af, 100 milljónir koma borgarbúum til góða, 500 milljónir koma heppnum fasteignabröskurum til góða. Og það besta er, samningurinn er leynilegur, það má enginn sjá hann ennþá. Þetta var afgreitt í miklum flýti fyrir luktum dyrum á fámennum fundi góðra vina á kostnað skattborgara. Ólafur Eff, Villi og fasteignabraskarar. Sexmenningarnir líta undan. Kunnugleg vinnubrögð sem við erum búin að fá algjörlega nóg af!

15.1.08

Ruslið í Napolí

Mikilvægasta tekjulind mafíunnar í Napolí (kölluð Camorra) er auðvitað eiturlyfjasala. Næst á eftir kemur ruslið. Allt frá sorphirðunni, böggun og urðun að förgun iðnaðarúrgangs, - alls staðar er mafían og hirðir gróðann.

Mafían er búin að gera þetta áratugum saman. Þeir reka verksmiðjur sem bagga sorp, því meira sem þeir bagga því meira græðir mafían. Þeir bagga sorp sem væri hægt að endurvinna, þeir bagga sorp sem inniheldur hættuleg spilliefni og þeir bagga venjulegt heimilissorp. Ruslahaugarnir eru undir þeirra stjórn, vaktaðir af vopnuðum vörðum og heilbrigðiseftirlit í lágmarki.

Eiturefnin frá ruslahaugunum sígur niður í jarðveginn og niður í grunnvatnið. Á menguðustu svæðunum er jarðvegsmengunin 100.000 sinnum meiri en leyfileg mörk, tíðni krabbameina 4x hærri en landsmeðaltal, og líkur á vansköpun nýfæddra barna 83% hærri en landsmeðaltal.

Alls staðar í heiminum þurfa iðnfyrirtæki að borga fyrir förgun úrgangs. Mafían í Napolí tekur við greiðslum frá fyrirtækjum í norður ítalíu, greiðslur sem eiga að sjá til þess að úrganginum sé fargað á hættulausan hátt. En hvað gerir mafían? Þeir hirða peninginn og henda úrganginum í sjóinn eða urða hann.



Núna er svo komið að sorphaugar Napolí og nágrennis eru orðnir yfirfullir. Sorphirðumenn eru í verkfalli, götur Napolí fullar af rusli og hermenn reyna að hreinsa eitthvað til, því hætta er á að kólerufaraldur brjótist út.

Mafían stjórnar þeim örfáu ruslahaugum sem ekki eru nú þegar yfirfullir og hefur líka keypt upp það land sem var ætlað fyrir framtíðarsorphauga. Mafían hefur nú alla þræði í hendi sér, en íbúar Napolí eru orðnir langþreyttir á vandanum og heimta varanlega lausn. Evrópusambandið hótar að lögsækja ítölsk stjórnvöld ef þau leysa ekki málið, en varanleg lausn næst aðeins með uppgjöri við mafíuna. Það er skerí.