Ólafur Eff er örugglega ágætis kall, og það er örugglega rétt hjá honum að hann sé ekki fyrirgreiðslupólitíkus eða viðriðinn alls konar spillingarmál og einkavinavæðingu. Það eru auðvitað góðar fréttir og gott mál.
Sjálfstæðismenn eiga örugglega eftir að vera duglegir í borginni og koma ýmsum málum áleiðis eins og gengur. Þeir eiga eftir að vinna að alls konar góðum og þörfum málum og það er gott. Það sem ég hef meiri áhyggjur af, það eru vinnubrögðin og baktjaldamakkið og blekkingarnar. Það er alls ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir.
Það er eitthvað kunnuglegt við vinnubrögðin: Í REI málinu var Villi að makka eitthvað með nokkrum góðvinum, enginn tími til að kanna málin til hlítar, "bara kíla á þetta strákar, drífum í þessu". Allt leynilegt. Enginn fékk að vita neitt, það átti bara að ganga frá öllu fljótt og vel og úthluta ríflegum bittlingum. Meiraðsegja sexmenningarnir, samherjar hans Villa fengu ekkert að vita og ekkert um málið að segja, áttu bara að kyngja.
Og svo hrundi þetta allt yfir hann. Gríðarleg reiði almennings, vantraust og reiði samherja, blekkingar, svik og lygar og gamli góði Villi bara "gleymdi" að lesa minnismiða. Reyndi að ljúga sig út úr vandræðunum, en endaði með að játa á sig mistök og biðjast afsökunar.
Það er óhugnalegt hvernig ferlið endurtekur sig nákvæmlega við myndun nýja borgarstjórnarmeirihlutans. Sami hraðinn, jafnmikið leynimakk, örfáir einkavinir, og núna neyðast sexmenningarnir til að kyngja. Núna "gleymdist" að tékka grundvallaratriði eins og bakland Ólafs, hvort hann hafi einhvern stuðning. Og aftur rís upp reiðialda meðal almennings, við erum búin að fá nóg af svona vinnubrögðum! Svona viljum við ekki láta stjórna borginni! Ekki meira svona!!!
Og núna væla sjálfstæðismenn eins og þeir geta um það hversu vondir allir eru við Ólaf Eff. Ofsóknir vinstri manna á geðheilsu borgarstjóra. Bíddu voru það ekki þeir sjálfir sem rifu hann út í hringiðuna nýkominn úr veikindaleyfi? Voru það ekki þeir sjálfir sem lugu að honum og buðu honum gull og græna skóga og plötuðu hann til samstarfs? Var það fallega gert?
Og almenningi kemur jú alveg við af hvaða toga veikindi borgarstjóra eru. Það skiptir víst einhverju máli hvers konar andleg veikindi hann á við að stríða. Við þurfum engin smáatriði, við þurfum bara að vita um hvað er að ræða. Hreinskilið svar. T.d. yrði ég ekki hrifin af því að hafa borgastjóra með geðklofa, sem heyrir raddir, er fullur af ranghugmyndum og ofsóknarbrjálæði. Borgarmálin eru nógu klikkuð fyrir. Eða borgarstjóra sem væri manio-depressive, og myndi í maníu ætla að sigra heiminn með borgarsjóð að vopni. Nei, geðræn vandamál eru misalvarleg og ekki hægt að setja þau öll undir sama hatt.
En eftir því sem Ólafur Eff gefur í skyn í blöðum í dag, þá er hann búinn að glíma við þunglyndi, eins og þúsundir annarra íslendinga hafa gert. Hann segir þetta samt ekki hreint út, gefur þetta bara í skyn. Og það eru ótal dæmi um farsæla þunglynda stjórnendur, engin ástæða til að óttast það neitt sérstaklega ef fólk sækir viðeigandi meðferð. Ég held að ef hann hefði komið þessu hreinskilnislega frá sér strax í upphafi, þá hefði hann uppskorið mun meiri skilning, traust og stuðning, og spaugstofunni hefði ekki þótt fyndið að sýna hann sem rúmliggjandi "kúkú" geðsjúkling. Nema það sé ekki öll sagan sögð. Ég held að borgarstjórn þurfi núna að vinna fyrir trausti almennings.
Og traustið verður ekki unnið með því að lækka fasteignaskatta um 100 milljónir fyrir hádegi og drífa svo í því eftir hádegi að eyða 500 milljónum í einhverja ónýta kofa á laugaveginum. Samtals eru þetta 600 milljónir sem borgarsjóður verður af, 100 milljónir koma borgarbúum til góða, 500 milljónir koma heppnum fasteignabröskurum til góða. Og það besta er, samningurinn er leynilegur, það má enginn sjá hann ennþá. Þetta var afgreitt í miklum flýti fyrir luktum dyrum á fámennum fundi góðra vina á kostnað skattborgara. Ólafur Eff, Villi og fasteignabraskarar. Sexmenningarnir líta undan. Kunnugleg vinnubrögð sem við erum búin að fá algjörlega nóg af!