23.11.06

Afrek!



Ungfrúin bað um "Hello Kitty" köku og mamman hummaði og þóttist hafa einhverjar efasemdir um kökuskreytingarhæfileika sína. En ungfrúin taldi þetta ekkert mál, mamma getur allt.

Hingað til hef ég náð að snúa mig fimlega út úr alls konar kökuskreytingarbeiðnum með því að baka venjulega súkkulaðiköku, og setja svo eitthvað dót ofan á og leyfa svo Snæfríði og Sindra að ofhlaða hana með sælgæti. Þannig hef ég "töfrað fram" bubba byggis köku, bílaköku, barbíköku, galdrastelpuköku og eitthvað fleira. Og stóru börnin mín fylgjast agndofa með og finnst kökuskreytingarhæfileikar mömmu sinnar alveg sérstaklega miklir. Ég vissi samt alltaf að það kæmi að þeim degi þegar börnin mín bæðu um eitthvað flóknara og ég veit að það mun koma að þeim degi þegar þau uppgötva alvarlega föndurfötlun mömmu sinnar. Já, ég er haldin alvarlegri föndurfötlunarþroskaröskunarhömlun ... eða eitthvað í þá áttina. Sem lýsir sér í því að ég hef tóma þumalfingur í öllu föndri.

En já, semsagt, Hello Kitty kökuskreytingin var ekki leyst með því að setja plastkisu ofan á súkkulaðiköku, heldur með alvöru kökuskreytingartækni. Ég prentaði út mynd með kattarkvikindinu af netinu, klippti út og vandaði mig ógurlega með matarlit og kökukrem við að herma eftir, fylgja fyrirmyndinni og skreyta. Snæfríður og Helga vinkona hennar fengu svo að raða sælgæti í kring og strá kökuskrauti yfir. Og ég verð að segja að ég er stolt af árangrinum. Mjög stolt. Og ef þið lítið á kökuna vitandi það að hana skreytti þriggja barna móðir sem haldin er alvarlegri föndurfötlunarþroskaröskunarhömlun, þá verðið þið líka mjög stolt ;-)

3 comments:

Anonymous said...

Hæhæ Ekkert smá flott kaka. Þér er greinilega ýmislegt til lista lagt og húsmóðurhæfileikarnir leyna sér ekki. Jói Fel leggur sennilega kökubakstur á hilluna og skammast sín bara, enda má hann það - tilbúna kökudeigið sem nútímahúsmóðirin á Akureyri kaupir er afleitt ;O) Baráttukveðju með öll afmælispartý í framtíðinni

Anonymous said...

VÁ !!!!!!!!
VÁvává !!!!!!!!

Anonymous said...

VÁá! ekkert smá flott kaka. Þú ert SKO góð í að skreyta köku. Ég ætla pottþétt að hafa svona í afmælinu mínu