23.12.06

Jolakveðja fra Hrisrimafjölskyldunni

Við sendum ykkur okkar bestu Jólakveðjur með stuttri sögu frá Dr. Gunna:

Enn átti ég eftir að kaupa nokkra pakka. Ég hætti mér því í Smáralind og taldi mig hafa valið tímann vel: um kvöldmat á virkum degi. Hélt að ég slyppi við mestu jólageðveikina, en nei nei. Hún skall á mér um leið og ég steig inn. Fólk með poka og aftur poka vafrandi um með eld í augum og froðu í munnvikinu. Yfir öllu, eins og bumbuslagari í galeiðu, söng svo mest óþolandi jólalag í heimi: Jól alla daga. Svona er þá í helvíti, hugsaði ég og íhugaði að hlaupa öskrandi út. Dró svo djúpt andann og setti undir mig hausinn.

Hinn mæti Eiríkur Hauksson syngur jólalagið óþolandi, en glysrokkarinn Roy Wood og hljómsveit hans Wizzard gerðu fyrst allt vitlaust með því árið 1973. Lagið er sjúklega hresst og allar klisjur jólalaganna renna saman í því, frá hreindýrabjöllunum til barnakórsins. Textinn er punkturinn yfir i-i brjálæðisins. Eiríkur dregur á sannfærandi hátt upp martraðarkennda hugaróra fársjúks manns sem lætur sig dreyma um endalaus jól: "Já, ég vildi að alla daga væru jól, þá gætu allir dansað og sungið jólalag," æpir hann og maður heyrir hvernig æðarnar í augunum á honum stækka.

Alltaf svona?! Neeeeiiiii!!! Einu sinni á ári er bara alveg nóg – algjörlega passlegt!

21.12.06

Engill drottins

Fjórði bekkur bé í Rimaskóla lék helgileik í dag. Helstu persónur voru María Mey, Jósef, engill drottins, vitringar og englakór.

Hálftíma fyrir frumsýningu voru allir komnir í búninga og tilbúnir á svið, en þá kom í ljós að engill drottins gat ekki með nokkru móti munað hvað hann átti að segja. Kannski engin furða, þetta var löng runa af alls konar bilbíufrösum um mikinn fögnuð - öllum lýðnum- boða yður - velþóknun á- frelsari fæddur og eitthvað fleira í þeim dúr. Já og -verið óhræddir.

"Ég kann þetta". Sagði Snæfríður, sem var í englakórnum. Hún lærði þetta óvart á æfingum, fattaði alltí einu í miðri Kringluferð með mömmu sinni í gær að hún kunni allan frasann sem engill drottins átti að fara með. Hún var því dubbuð upp í gervi engils drottins í snatri. Og þá mundi hún að hana langaði ekkert sérstaklega til að leika svona stórt hlutverk.

Hjartað hamaðist og fiðrildi flugu í maganum, en uppá svið fór Snæfríður, brosandi og kúl á því. Fór með línurnar sínar með glæsibrag. Engill drottins alveg fram í fingurgóma. Brosti út að eyrum þegar það var frá, og söng hátt og snjallt með englakórnum allt til enda. Og ég var að rifna úr stolti úti í sal, myndavélarlaus.

Svoona stór!!



Sólveig er búin að kenna foreldrum sínum alls konar kúnstir. Já, þótt þau gömlu séu stundum dálítið treg, þá er alveg hægt að temja þau. Nýjasta sirkustrixið er þannig að Sólveig lyftir upp báðum höndum og horfir í kring um sig og þá brestur gamla settið í allsherjar fagnaðarlæti og klappa, lyfta höndum hátt yfir höfuð og segja krúttlegri röddu" já! ertu svooona stóóór! "

Sólveigu finnst þetta skemmtilegt trix og alltaf þegar hana langar í aðdáun og fagnaðarlæti þá lyftir hún upp höndum og það bregst ekki, þau gömlu eru vel tamin.

19.12.06

Skelfirinn


Sólveig Embla er mikill dýravinur. Heima hjá Guðmari og Oddu færist hún öll í aukana þegar hún sér hvolpinn Lýru og eltir hana út um allt, skríkjandi og skrækjandi. Og ef hún nær henni, þá er hún alveg ægilega mikið "aaaaa", klappar fast og tosar í eyru og feld. Lýra var snögg að læra það að það væri öruggara að hafa þennan skrækjandi ferfætling í öruggri fjarlægð og leyfir henni að elta sig - en passar að hún nái sér aldrei.

Heima hjá Guðrúnu og Nonna er svo litli kettlingurinn Ronja. Sólveig varð ekki minna glöð þegar hún sá hana og spólaði af stað með skríkjum og skrækjum. Ronja var mjög forvitin um þennan litla ferfætling og rannsakaði Sólveigu í krók og kring. Komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri manneskja og lagðist malandi á bakið til að láta klóra sér á maganum. Sólveig sveikst ekki um það, gólaði "aaaa" og blíðuhótin voru þvílík að Ronja sá sitt óvænna og lagði á flótta. Svo skottuðust þær í kring um hvor aðra - í öruggri seilingarfjarlægð, Sólveig á þvílíku skriði og Ronja með stökkum og fimlegum undanbrögðum. Tveir litlir óvitar.

14.12.06

http://wulffmorgenthaler.com/default.aspx



Tvísmella á myndina, þá verður hún nógu stór til að hægt sé að lesa textann.

8.12.06

Jólakonfekt

Þegar ég opna nýja bók þá líður mér eins og ég sé að opna risastóran konfektkassa. Lokkandi ilmurinn, skrautleg bréf, litríkir molar og eftirvænting - hvað ætli sé inni í molunum? Vonbrigðin verða mikil þegar ég bít í fyrsta molann og kemst að því að hann er myglaður.

Þannig leið mér þegar ég opnaði nýjustu bók Ólafs Jóhanns, Aldingarðurinn. Myglubragð í munni við fyrsta bita. Á fyrstu blaðsíðu, í annarri línu er nefnilega málvilla sem stingur í augu og gefur óbragð í munn. "Vélin hafði lagt að stað klukkutíma of seint frá Íslandi og sveimaði lengi yfir Kennedyflugvelli áður en hún fékk að lenda." Flugvélar leggja AF stað en ekki AÐ stað. Hmmpfff... eru bækur ekki prófarkalesnar lengur eða hvað? En jæja, það getur komið fyrir alla konfektkassa að hafa einn skemmdan mola. Ég skyrpti myglaða molanum út úr mér, fékk mér vatnssopa og hélt áfram að lesa.
Á blaðsíðu þrjú kynnumst við aðalsöguhetjunni. "Faðir Tómasar hafði verið Bandaríkjamaður en móðir hans var íslensk. Hann var einbirni, ólst upp í Chicago en þau mæðginin fluttu til Íslands þegar faðir hans lést. Þá var hann unglingur. Þau bjuggu á Melunum og móðir hans fékk vinnu í tjónadeild hjá tryggingafélagi. Tómas lauk menntaskólanámi í Reykjavik en fór vestur um haf til háskólanáms. Hann festi aldrei rætur á Íslandi þótt honum líkaði ekki illa þar og saknaði heimkynna sinna við Michiganvatn. Hann kvartaði samt aldrei og tók því vel þegar móðir hans giftist að nýju."

Jakk" næsti moli var Bónusútgáfan af Síríus suðusúkkulaði. Of rammt, of konsentrerað, engin fylling. "Hafði verið Bandaríkjamaður", einmitt það já. Voðalega er þetta "Séð og heyrt" -legur texti, eða kannski frekar eins og klippt út úr minningargrein í mogganum. Engin leiftrandi stílbrögð, engin flétta og dulmögnuð persónusköpun, bara étið beint upp úr niðursuðudósinni. Bara ódýrasta súkkulaðið með engri fyllingu. Ég lagði konfektkassann frá mér, langaði ekki í meira - ekki í bili. Aldrei samt að vita hvað gerist þegar ég verð uppiskroppa með almennilegt súkkulaði, kannski laumast ég þá aftur í konfektkassann.

Bókin er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, vonandi leynast æðislegir konfektmolar þarna í kassanum. En kannski eru þeir sem tilnefna bækur til þessara verðlauna hrifnir af myglubragði og niðursuðukeimi. Kannski eru þeir ekki búnir að lesa bókina en fengu æðislegan konfektkassa frá þessum framleiðanda hérna um árið og gefa stjörnur út á nafnið. Eða kannski kann ég bara ekki gott að (m)eta.

6.12.06

Nýjasta nýtt



Nýjasta nýtt er að standa upp. Ekki nógu mikið stuð að vera svona lítil alltaf hreint.

Sólveig hefur verið að myndast við að læra að standa upp síðustu 2 vikurnar. Og nú er hún farin að standa markvisst upp, hún stendur upp við sófann, við stigann, við dótakassann sinn og bara hvar sem hún finnur eitthvað í mátulegri hæð til að styðja sig við. Já, hún er óskaplega dugleg og klár hún Sólveig okkar. Og hana vantar sko ekki aðdáendur, bæði foreldrarnir og eldri systkinin sjá til þess :-)

6 mánaða og einnar viku gömul byrjuð að skríða!


Já, ég veit, old news. Ég hef bara ekki undan að skrifa um helstu afrek Sólveigar Emblu. Hún dreif sig þarna upp á 4 fætur um 5 mánaða aldurinn og hefur síðan þá verið að dunda sér við að læara að setjast upp og byrja að skríða. Hún skríður samt ekki alveg fullkomið fjórfótaskrið, heldur það sem er kallað parkettskrið - svona hálfsitjandi og hálfskríðandi. Og nú er sko fjör hjá stuttu. Hún skríður hér um öll gólf og er bara nokkuð fljót í förum og finnst mesta sportið að elta systkini sín. Þá skríkir hún og hlær.

Hún er líka orðin verulega handóð. Dúkurinn á sófaborðinu hefur fengið flugferð á gólfið, geisladiskarnir líka og hvar sem liggja bækur og blöð innan seilingar, kemur lítil skotta á fullu skriði og rífur og tætir og nagar og slefar. Hún er líka búin að læra að opna neðstu eldhússkúffurnar og dundar sér við að klemma á sér litlu puttana í þeim. Mér sýnist að ég eigi nóg verk fyrir höndum í að gera heimilið barnhelt. Við erum alveg dottin úr æfingu með þetta.

1.12.06

Torfastaðir


Jæja, við renndum austur í gær og festum stað fyrir þann danska. Frábært útsýni!
Torfastaðahjónin gestrisnu tóku vel á móti okkur eins og venjulega.

2003


Mikið voru þau nú lítil þá

Myndin er tekin í bátsferð um Rotterdam, árið sem við bjuggum í Hollandi

Gistiheimilið Hrisrima



Hér er búið að vera mikið fjör síðustu vikur og mikill gestagangur, norðanfólk búið að vera duglegt að heimsækja okkur. Við höfum alltaf jafn gaman af því að fá gesti, Maja, Travis og Úlfur, amma íja, amma Þóra og afi Gunnar komu öll að norðan, þó ekki alveg öll á sama tíma, og glöddu okkur með nærveru sinni. Og til að gleðja okkur enn meira lánaði Guðrún systir mér börnin sín þrjú eina nóttina til að gulltryggja að það yrði sofið í hverju horni í húsinu. Og allir sváfu vel og vært (nema systurnar á loftlausu vindsænginni) og ekki laust við að það sé hálftómlegt hérna í Hrísrimanum núna þegar engir næturgestir eru.

Afmæli


Ég átti alltaf eftir að setja inn mynd úr afmæli Snæfríðar, þannig að hér kemur hún.

Það voru auðvitað haldnar tvær afmælisveislur, ein fyrir ættingja og vini og önnur fyrir allan bekkinn hennar Snæfríðar. Þessi mynd er úr fjölskyldu og vina afmælisveislunni.

Blokkflautubarn

Brostu! það kostar ekki neitt