19.12.06

Skelfirinn


Sólveig Embla er mikill dýravinur. Heima hjá Guðmari og Oddu færist hún öll í aukana þegar hún sér hvolpinn Lýru og eltir hana út um allt, skríkjandi og skrækjandi. Og ef hún nær henni, þá er hún alveg ægilega mikið "aaaaa", klappar fast og tosar í eyru og feld. Lýra var snögg að læra það að það væri öruggara að hafa þennan skrækjandi ferfætling í öruggri fjarlægð og leyfir henni að elta sig - en passar að hún nái sér aldrei.

Heima hjá Guðrúnu og Nonna er svo litli kettlingurinn Ronja. Sólveig varð ekki minna glöð þegar hún sá hana og spólaði af stað með skríkjum og skrækjum. Ronja var mjög forvitin um þennan litla ferfætling og rannsakaði Sólveigu í krók og kring. Komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri manneskja og lagðist malandi á bakið til að láta klóra sér á maganum. Sólveig sveikst ekki um það, gólaði "aaaa" og blíðuhótin voru þvílík að Ronja sá sitt óvænna og lagði á flótta. Svo skottuðust þær í kring um hvor aðra - í öruggri seilingarfjarlægð, Sólveig á þvílíku skriði og Ronja með stökkum og fimlegum undanbrögðum. Tveir litlir óvitar.

No comments: