25.5.06

En þegar við vorum búin að slaka á og hafa huggulegt í um 2 tíma eftir fæðinguna kom í ljós að við mæðgurnar vorum báðar með hita og sú stutta andaði mjög ört. Þá var kallaður til barnalæknir sem skoðaði hana í krók og kring og ákvað að taka hana með sér á vökudeildina, svona til öryggis. Við sem vorum einmitt alveg að fara að útskrifast af fæðingardeildinni yfir í Hreiðrið þar sem algjör lúxus sængurlega er í boði fyrir konur sem eiga góða fæðingu og hraust barn. Og þar má pabbinn gista. Núna stefndi í að Einar yrði rekinn heim og ég alein á sængurkvennagangi og litla skottið á vökudeildinni.

En ljósurnar okkar héldu áfram að vera jafn yndislegar og fram að þessu. Íslendingar voru almennt of uppteknir af júróvisjónkeppninni til mega vera að því að fæða börn á þessu kvöldi og því lítið að gera á fæðingardeildinni. Við máttum alveg bíða áfram á fæðingarstofunni þar til kæmi betur í ljós hvort sú stutta þyrfti að vera nóttina á vökudeild.

Upp úr klukkan 10 um kvöldið fékkst úrskurðurinn: "fín stelpa, orðin hitalaus og eðlileg öndunartíðni". "Svolítið stífluð í nebbanum". Útskrifuð af vökudeildinni og við fengum þetta fína herbergi í Hreiðrinu; stórt hjónarúm, björt stofa, allt til alls. Og þá var sko glatt á hjalla. Snæfríður og Sindri sem voru búin að bíða í ofvæni eftir að hitta litlu systur sína mættu í sínum allra bestu sparifötum í fylgd með afa og ömmu sem höfðu keyrt fyrr um daginn frá Akureyri og líka Guðrún systir sem hafði passað þau allan daginn. Yndislegur endir á frábærum degi.

No comments: