Á næstu örfáu mínútum hafa þær hraðar hendur, klæða sig í græna sloppa, tína til helstu græjur og gera sig tilbúnar til að taka á móti. Útskýra fyrir mér að þær muni færa barnið upp í rúmið sem ég stend við, svo ég geti fengið það það beint í fangið. Þær gátu eins talað kínversku við mig, ég var alls ekki að meðtaka það að barnið væri að fara að fæðast. Í huganum átti ég eftir amk. 170 hríðar til að klára útvíkkun og þá var rembingurinn eftir osfrv.
En barnið var á leiðinni, á því lék enginn vafi. Ég fékk 1-2 hríðar í viðbót til að fullklára útvíkkunina, örstutta pásu og svo byrjaði rembingurinn. Fyrsta og eina rembingshríðin ætlaði engan endi að taka, belgurinn sprakk og vatnið lak, höfuðið fæddist og búkurinn strax á eftir. Og allt í einu lá í rúminu fyrir framan mig lítil mannvera, rennblaut og slímug og svolítið blá að lit. Fæddist klukkan 16:08, rétt klukkutíma eftir að við komum á fæðingardeildina, innan við 8 mínútum eftir að mér fannst mikilvægt að athuga útvíkkun.
Gullfalleg stelpa sem fékk smám saman á sig rauðan og hraustlegan lit í fanginu hjá pabba sínum. Tæpar 16 merkur (3910 g), 50 cm og höfuðmálið 36cm. Líkist mjög mikið Snæfríði og Sindra. Hún var vel vakandi eftir fæðinguna og skoðaði foreldra sína vel. Dugleg að taka brjóst. Sperrt og byrjuð að æfa sig að halda höfði.
No comments:
Post a Comment