Við fórum því heim og ég lagði mig. Um klukkutíma síðar var ég vakin upp með nokkuð hraustlegum hríðaverk. Ég reyndi að lúra lengur, en það gekk illa því það voru ekki nema 3-5 mínútur á milli hríða. Við ákváðum að fara frekar fljótlega aftur upp á deild, Einar ætlaði að klára að fá sér að borða og ég ætlaði klæða mig og svo myndum við leggja af stað. Þetta tók eilífðartíma, að mér fannst og sérstaklega fannst mér það mjög tímafrekt þegar Einar vaskaði upp glasið og diskinn sinn. Enginn tími fyrir svona dund, drífum okkur af stað!
Við komum á fæðingardeildina klukkan 3, eftir frekar erfiða bílferð með miklum hríðaverkjum og nokkrar hraustlegar hríðar á bílastæðinu og í lyftunni. Ljósmóðurneminn okkar tók á móti okkur með bros á vör og setti mig beint í mónitor til að fylgjast með hjartslætti barnsins og hríðunum. Um hálftíma síðar komu ljósurnar og litu á niðurstöðurnar og ákváðu að færa mig inn á fæðingarstofu, enginn vafi, nú væri fæðingin komin í gang.
Það tók okkur um hálftíma að koma okkur fyrir á fæðingarstofunni, enda verður manni ekki mikið úr verki með allar þessar hríðar. En rétt fyrir klukkan 4 þá vorum við búin að koma okkur ágætlega fyrir, ég standandi við rúmið, Einar beint á móti mér hinum megin við rúmið með styrk og hvatningu og handleggi til að kreista, glaðloftið komið í gang, Anthony and the Johnsons í græjunum og hríðarnar mjög öflugar. Þá allt í einu finnst mér orðið mjög mikilvægt að ljósurnar athugi útvíkkun hjá mér. Fyrst skoðar sú reynslumikla og er greinilega frekar hissa, svo neminn - líka hissa. Samhljóma niðurstaða um að ég sé komin með 10 í útvíkkun.
No comments:
Post a Comment